Ísland viðundur meðal þjóða Evrópu.

Meira en 15 ár eru síðan þjóðir Evrópu, allt vestan frá Spáni og Portúgal austur til Lettlands lögleiddu svonefndan Árósasáttmála sem kveður á um lögvarða hagsmuni almennings og samtaka hans vegna framkvæmda sem snerta umhverfismál og náttúruverndarmál.

Ísland hefur þumbast gegn því að lögleiða sáttmálann, og loks var það þó gert í fyrra en þó ekki fyrr en að þáverandi stjórnarandstaða hafði þvælt málið sem allra mest og náð með lagaklækjum að útvatna svo sáttmálann, að hann virðist ekki vera pappírsins virði.

Af þeim samtökum þúsunda náttúruverndarfólks, sem fóru fram á lögbann á vegaframkvæmdir í Gálgahrauni, voru tvenn samtök, Hraunavinir og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands með hunduð félagsfólks sem hefur yndi af útiveru og gönguferðum í Gálgahrauni og á öðrum svipuðum slóðum á Suðvesturlandi.

Lögbann er þess eðlis, að það virkar sem nokkurs konar frysting eða frestun óafturkræfra framkvæmda þar til leyst hefur verið úr deilu- og álitamálum fyrir dómstólum.

Venjulega þarf Hæstirétttur aðeins stutta greinargerð fyrir úrskurðum sínum vegna svona mála, en í máli náttúruverndarsamtakanna vegna lögvarðra hagsmuna þeirra varðandi lagningu nýs Álftanesvegar dugði ekki minna en 10 blaðsíðna greinargerð Hæstaréttar til þess að sveigja úrskurðinn í þá átt og réttlæta þá niðurstöðu, sem felur í raun í sér að Ísland virðist vera eina landið vestan fyrrum Sovétríkja þar sem Árósasáttmálinn um lögvarða hagsmuni almennings eða samtaka hans er marklaus.

Meira að segja lönd sem áður tilheyrðu Sovétblokkinni og voru með allt niðrum sig í umhverfismálum, eins og Pólland og Lettland hafa tekið sig á og verið með gildandi lög í samræmi við Árósasáttmálann í meira en 15 ár.

Á sama tíma sem ráðamenn okkar úða út úr sér gorti og yfirlæti yfir heimsbyggðina um það að við séum í fararbroddi í heiminum á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála og land okkar sé með fágæta náttúru erum við skammarlegt viðundur á því sviði í raun, höfum staðið við loforðið frá 1995 til álfursta heims um "sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum" ef fórna skal náttúruverðmætum fyrir stóriðju og erum nú með Hæstarétt sem stimplar lögleiðingu Árósasáttmálans hér á landi sem marklaust og gagnslaust plagg.

Nú hlakkar í yfirgangsmönnum yfir því að hafa á siðlausan hátt hraunað yfir náttúruverndarfólk með blekkingum og beitingu lögregluvalds til að eyðileggja náttúruverðmæti áður en lögbannsmálið hafði verið útkljáð fyrir dómstólum.  

Maður skammast sín niður í tær fyrir það bananalýðveldi og afskræmingu á réttarríki sem blasir við okkur.   


mbl.is Lögbannsmál fellt niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hvað er svona merkilegt við þennan fláka Ómar að þú dæmir alla samborgara þína villimenn og landið allt bananalýðveldi?

Ér það af því að Kjarval málaði mynd þarna? Er einhver önnur ástæða fyrir þessum ofboðslegheitum?

Það er orðið hlálegt og hlægilegt þegar fullorðið fólk er tilbúið að leggja lífið að veði og leggjast undir jarðýtur til að stoppa nauðsynlega samgönguþróun án þess að færa fyrir því nokkur rök.

Jón Steinar Ragnarsson, 4.3.2014 kl. 04:29

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Tek undir með Jóni

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.3.2014 kl. 05:34

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gálgahraun var árið 2009 friðlýst samkvæmt tillögu Garðabæjar og bæjarstjórnin hefur því væntanlega talið hraunið vera náttúruperlu.

Auglýsing um friðlýsingu Gálgahrauns í Garðabæ


Ríkið greiðir kostnaðinn við nýjan Álftanesveg
, sem kostar hátt í einn milljarð króna.

Engir peningar voru til í ríkissjóði fyrir nýrri sundlaug Álftnesinga og eru heldur ekki til fyrir nýjum Álftanesvegi.

Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands búa hér á Íslandi um 9% fleiri árið 2023, eftir áratug, en bjuggu hérlendis 1. janúar 2013.

Og þá bjuggu 2.392 á Álftanesi, samkvæmt Hagstofunni.

Samkvæmt mannfjöldaspánni búa því um 215 fleiri á Álftanesi eftir áratug.

21.10.2013:

""Ef ég fengi því ráðið myndi ég bíða eftir dómi í málinu," segir Sigurður Líndal lagaprófessor um aðgerðirnar í Gálgahrauni.

Sigurður segir að í þessu máli séu ýmis vafamál og því farsælast að bíða eftir niðurstöðu dómstóla, þannig að það sé alveg á hreinu hvað sé heimilt og hvað ekki."

Þorsteinn Briem, 4.3.2014 kl. 09:42

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gálgahraun og Garðahraun eru eitt samfellt hraun.

Einn milljarður króna úr ríkissjóði Íslands í nýjan Álftanesveg þýðir væntanlega minni vegabætur á landsbyggðinni en ella og að sjálfsögðu eru Siglfirðingurinn Jón Steinar Ragnarsson, og Reyðfirðingurinn Gunnar Th. Gunnarsson hrifnir af því.

Og senda sjálfsagt formlega kvörtun til bæjarstjórnar Garðabæjar að hún skuli telja Gálgahraun vera náttúruperlu.

30.9.2013:

Skuldir ríkissjóðs Íslands um eitt þúsund og fimm hundruð milljarðar króna

Þorsteinn Briem, 4.3.2014 kl. 10:04

5 identicon

Þarf ekki að loka veginum gegnum Eldraun í Skaftafellssýslu? Eldhraun, sem rann úr Lakagígum er annað af tveimur stærstu hraunum, sem runnið hafa á jörðinni á sögulegum tíma.

NKL (IP-tala skráð) 4.3.2014 kl. 10:35

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Varla ástæða til að loka vegi sem þegar er kominn, nema einhver rök séu fyrir því.

Þorsteinn Briem, 4.3.2014 kl. 10:41

7 identicon

Ég veit ekki hvað allt þetta umstang um náttúruperlur eru, stór hluti landsins er lítið annað en auðn og túndra, sem vel mætti reina að rækta í stað þess að standa vörð um að leifa þessari auðn standa óáreittri.

Hvað varðar Árósarsáttmálann, þá finnst mér Ómar að þú ættir að aka um þýskaland og segja mér hversu miklir náttúrverndarsinnar þeir eru.  Þvílíkt og annar eins sóðaskapur um náttúruna, má leita að.  Og það að þessir aðilar séu að skrifa undir einhvern sáttmála um það að ganga betur um, er enginn fyrirmynd fyrir Íslendinga.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 4.3.2014 kl. 10:48

8 identicon

Og síðan hvað varðar dani, sjálfur er ég af slíkum sauðum borinn, svo ég get sagt að ég tali af þekkingu :-) og leifi mér að segja "lorte land"  Rassamussi Fogg, er enginn fyrirmynd fyrir nokkurn mann ... þessi maður sem talar um frið, á sama tíma og hann sendir hermenn til Afghanistan og sýnir myndir af hermönnum sínum drepa "nomada" í eyðimörkini ásamt asna þeirra í sjónvarpinu, er ekkert til að vera stoltur af.  Og hvað varðar náttúrvernd þessa skríls í danmörku, þá er vatnið þeirra ekki drykkjarhæft, og blómin þín drepast af ofkölkun ef þú vatnar þau með því.

Ómar Ragnarsson, hvað sem öllum Árósarsáttmálum vitjar, þá held ég að Íslendingar séu miklu betur settir með að stjórna þessum málum sjálfur á sinni grund.  Íslenskir sóðar, ganga betur um en danskir náttúrverndarsinnar.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 4.3.2014 kl. 10:55

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jamm, bæjarstjórn Garðabæjar ætti að rækta banana í Gálgahrauni.

Þorsteinn Briem, 4.3.2014 kl. 10:59

10 identicon

Vegur þar og vegur hér,

vart ég þá alla kenni.

Um meltingarveginn þó vonum vér

að velli nú baunir -

og renni!

Þjóðólfur (IP-tala skráð) 4.3.2014 kl. 11:01

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Er einhver önnur ástæða en náttúruverðmæti er spurt. Ó jú.  

Aðferðin er siðlaus, að beita valdi til að taka lögin í sínar hendur.

Ranglega var því haldið fram að vegurinn væri svo fjölfarinn og hættulegur að taka ætti hann á undan öðrum sambærilegum vegarköflum á höfuðborgarsvæðinu og laga engan kafla innan vébanda Reykjavíkur næstu tíu ár.

 Staðreyndirnar sýna allt annað:

21 vegarkafli á höfuðborgarsvæðinu er með hærri slysatíðni en núverandi Álftanesvegur. Um veginn fara rúmlega 6000 bílar á dag en viðurkennt er að það er fyrst þegar þeir eru orðnir 15000 á dag sem ástæða er til að fara úr 1+1 í 2+1.

Ómar Ragnarsson, 4.3.2014 kl. 14:34

12 identicon

Það augljóst af svörum manna eins og Jóns Steinars Ragnarssonar og Gunnars Th. Gunnarssonar að það er til fólk sem hefur enga tilfinningu fyrir náttúru Íslands. Kannski meira fyrir malbik. En athugið það að það sem er eyðilagt núna í náttúrinn er ekki til fyrir næstu kynslóðir, börn okkar og barnabörn. Þess vegna er enn mikilvægara að hafa nátturverndar sinna og öflug náttúruverndar samtök. Það er kannski vonlaust verk að reyna að sannfæra fólk sem hefur aldrei komið inn fyrir Elliðaár.

HG (IP-tala skráð) 4.3.2014 kl. 20:40

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, þetta er dæmigert viðhorf þessara svokölluðu náttúruverndarsinna. Ef menn eru ekki sammála hvaða bulli sem er, þá hefur maður " enga tilfinningu fyrir náttúru Íslands."

Ég elska íslenska náttúru og hef sennilega ferðast meira um landið okkar en meðalmaðurinn. Mér finnst eiginlega allstaðar fallegt á Íslandi og geri mér því grein fyrir því að ef eitthvað er gert fyrir mannfólkið þá kostar það einhverja fórn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.3.2014 kl. 21:31

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hver dæmir út frá sinni reynslu og smekk að sjálfsögðu. En meiru skiptir um hve fjölbreyttar slóðir fólk hefur farið og hvaða upplýsingar það hefur fengið heldur en magn ferðalaganna.

Ómar Ragnarsson, 4.3.2014 kl. 21:55

15 identicon

Þetta er mjög svo tvíbent málefni svona frá heimspekilegu sjónarhorni.
Öll mannannaverk skemma náttúruna á einhvern hátt.
Þannig að spurningin er hvernig skemmum við sem minnst og njótum frekar þess sem er.
Oft eru skemmdir óumflýjanlegar, en þá spurning um öfganna á milli milli í framkvæmdum, að lágmarka skemmdir og að laga sig að aðstæðum en ekki öfugt.

Haraldur (IP-tala skráð) 5.3.2014 kl. 07:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband