6.3.2014 | 09:20
Ný vetrarstemning í mannlífinu í Reykjavík.
Það er að myndast ný stemning allt árið í Reykjavík, líka á veturna, einkum í gömlu miðborginni. Það er mun meiri umferð gangandi fólks en venja hefur verið hin siðari ár, og maður bæði sér á fólkinu og heyrir á því, ef orðaskipti eiga sér stað, að jafnvel í febrúar og mars eru þetta stundum að meirihluta útlendir ferðamenn.
Í góðviðrinu og þurrviðrinu sem leikið hefur um íbúa á sunnanverðu landinu og við Faxaflóa hef ég nær eingöngu verið á ferðinni í litla Fiat-blæjubílnum mínum sem ég ek aldrei um í votviðri, hvað þá í saltpækli vetrarmánaðanna, og þegar ég hef stöðvað bílinn hefur komið til mín forvitið fólk til að spyrja um bílinn og taka myndir af honum.
Má segja að bíllinn sé ágætt hjálpartæki til að taka púlsinn á mannlífinu og fólkinu í gamla miðbænum, því að nær alltaf eru þetta útlendingar, sem undrast að sjá svona bíl á ferð hér uppi á hjara veraldar hvort sem er um hávetur eða á öðrum árstímum.
Í fyrradag var krökkt af fólki á Laugavegi og allt vestur í Austurstræti og þetta voru mestan part útlendingar.
Það hefði verið talið óhugsandi á þessum tíma árs fyrir nokkrum misserum enda orðin rótgróin vissa okkar fyrir því að landið okkar ætti enga möguleika á því að geta nýst fyrir neitt sem flokka mætti sem "eitthvað annað".
En mikil fjölgun gistinátta á hótelum staðfestir hvað sé að gerast.
36% auking á hótelum í janúar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Orðið loks er opinbert,
Ómar vill það boða,
mörgum þykir mest um vert,
manninn þann að skoða.
Þorsteinn Briem, 6.3.2014 kl. 14:26
Opinberast enn á ný,
að það megi nýta
að ýmsir fá margt út úr því
undrabíl að líta.
Ómar Ragnarsson, 6.3.2014 kl. 15:00
Jamm það er svolítið af túristarölti upp og niður Bankastrætið. Og síðan fara þeir líka upp að Hallgrímskirkju. Það eru þessar tvær götur, Skólav.stígurinn og neðsti hluti Laugavegar. Þeir láta ekki sjá sig á Hverfisgötunni, hvað þá að rölta vestur fyrir Tjarnargötu. Svakalega staðbundið.
Jón (IP-tala skráð) 9.3.2014 kl. 12:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.