Hvaða þjóð gæti gert innrás í Noreg úr norðri?

Að æfa hernað er líkt því að æfa sig í skák. Það verður að æfa sig í að verjast en einnig að æfa sig í að sækja. Hvað hernaðarumsvif varðar er það galli, að heræfingar og gerð hernaðaráætlana geta haft ýmis áhrif á ástandið á viðkomandi svæði og skapað tortryggni og ýfingar.

Bandamenn í Seinni heimstyrjöldinni lærðu það af aðdraganda þeirra, að viðleitnig þeirra til að friðþægja mesta ofstopamanni seinni tíma höfðu þveröfug áhrif, espuðu hann aðeins til að taka áhættu í útþenslustefnu sinni.

Frakkar og Bretar höfðu til dæmis enga innrásaráætlun inn í Þýskaland tilbúna þegar Hitler tók Pólland og gat rúllað yfir það á mettíma. Þeir vanræktu líka smíði sprengjuflugvéla af ótta við að Hitler myndi túlka það sem ögrun og reyndu frekar að framleiða orrustuvélar sem varnartæki.

Það kom sér reyndar vel í orrustunni um Bretland, en þá var Frakkland líka fallið.

Hinn grimmi veruleiki hernaðarlegs valdatafls á friðartímum er óþægilegur getur út af fyrir sig aukið ýfingar og stríðshættu.  

Heræfing til að æfa viðbrögð við óvæntri innrás inn í Norður-Noreg beinist augljóslega að Rússum. Varla myndu Kínverjar gera þar innrás eða hvað?  

Ráðamenn heims í stjórnmálum og hernaði æfa sig svipað og skákmenn, sem liggja yfir sóknar- og varnaráætlunum og afbrigðum með ýmsum nöfnum eins og Sikileyjarvörn og Gambítur.

Munurinn á þeirri refskák og skákíþróttinni, þar sem tveim menn sitja í friðsemd við skákborð, er hins vegar sá, að allt vopnaskak veldur óróa og tortryggni.

Jafnframt því sem ís bráðnar í Íshafinu myndast þar ákveðin óvissa og tómarúm sem stórveldin reyna að sækja inn í. 

Friði í Evrópu virðíst því helst ógnað á útjöðrum hennar í norðri og þó einkum í suðaustri, þar sem liggja olíurík fyrrum Sovétlýðveldi.

Þess vegna sækjast öll helstu stórveldi heims eftir því að komast þar til sem mestra áhrifa og valda og að því leyti eru Krímdeilan og fleiri upprennandi átakamál á því svæði engin tilviljun.

 


mbl.is 16.000 hermenn við æfingar í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Óli grísinn kyssir kinn,
á Kína ráðamönnum,
pókar svo hann Pútín sinn,
pungsveittur í önnum.

Þorsteinn Briem, 9.3.2014 kl. 20:29

2 identicon

Það er nú svo sem ekkert nýtt að það sé hreyfing í N-Noregi, enda liggja landamærin um kafla að Rússlandi. Þetta vita ekki allir!
Ekki heldur það að Sovétmenn fóru þarna um í seinna stríði og ráku Þjóðverja til suðurs. Fræg varð orrustan um Kirkenes.
Ég á í ranni mínum sögu um þetta svæði úr seinna stríði. Læði henni kannski inn á þennan þráð á morgun, - hún á það skilið að vandað sé til ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.3.2014 kl. 21:20

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, Jón Logi, fyrir Seinni heimsstyrjöldina áttu Finnar land að sjó á milli Sovétríkjanna og Norður-Noregs, en misstu það þannig að nú liggja Rússland og Noregur saman. Þess vegna hljóta heræfingar á þessu svæði, þar sem "óvænt innrás" er viðfangsefnið, að snúast um átök á þessum landamærum.

Ómar Ragnarsson, 10.3.2014 kl. 01:23

5 identicon

Jæja, hérna kemur sagan.
Ég var eitt sinn staddur hjá vinkonu minni í Noregi. Fyrir nokkru, - 1989.
Hún bjó með ,óður sinni aldraðri, - sú var frá nyrsta hluta Noregs.
Við áttum saman skemmtilegan sunnudagsmat, - svolítið íslensk-ömmulegan, - kjör, kartöflur og meðlæti og búðingur á eftir.
Sú gamla sagði mér sögu yfir matnum.
Seint í stríðinu kom ordra frá þýska hernámsliðinu um að rýma svæðið. Rússar nálguðust.
Og fólkið tók hið nauðsynlegasta, staflaði á hestvagna, og hennar fjölskylda gróf ættarsilfrið úti í skógi.
Svo tók við 10 daga ferð á vögnum, þar til komið var að fyrstu járnbrautum.
Eftir stríð var snúið til baka. Allar byggingar höfðu verið brenndar, - ekkert stóð.
Ég spurði hana um silfrið, og hún brosti og sagði mér að einhver hafi fundið það, - allt hafi verið farið nema ein skeið úr silfri, - sí sem ég hélt á!
Þetta var svona svolítið sérstakt, og mér hefur alltaf fundist gaman að deila henni þessari.

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.3.2014 kl. 15:59

6 identicon

Umhugsunarverð saga, Jón Logi. Takk fyrir að deila henni með okkur.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 10.3.2014 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband