11.3.2014 | 10:53
Orkubruðl hversdagsins verður að hafa forgang.
"Versta veður í 40 ár". Lengsta samfellda vindátt á Íslandi og lægsti meðalloftþrýstingur frá upphafi. 14 stigum hlýrra á Svalbarða en í meðalári.
Ávöxtur harðnandi átaka í veðrinu í okkar heimshluta stafa líklega af því, að vegna þess að það tekur svo langan tíma fyrir Grænlandsjökul að bráðna, myndar kaldur jökulskjöldur hans andstæðu við hlýnandi sjó þar sem hafísinn minnkar hratt.
Myndir Odds Sigurðssonar, sem Árni Snorrason sýndi á morgunverðarfundi Orkustofnunar af hverfandi Sólheimajökli á 13 árum segja meira en mörg orð.
Efsta myndin er af jöklinum 1997, síðan af honum 2006 og loks mynd frá 2010 og dregnar línur á myndina frá 2006 til að sýna fyrri hæðir á jöklinum.
Á ráðstefnunni Ríó 2, sem haldin var í tilefni af 20 ára afmæli Ríóráðstefnunnar, þar sem gerður var alþjóðlegur sáttmáli um umhverfismál og náttúruvernd, kom berlega í ljós alger vangeta forystumanna þjóða heims til að ná tökum á orkubruðli mannkyns og reyna að sporna við afleiðingum þess.
Fulltrúar Bandaríkjanna, Rússlands, Kína og Indlands voru fremstir í flokki þeirra sem stóðu þar í vegi fyrir að nokkuð bitastætt gerðist. Rödd ríkja Vestur-Evrópu, sem sýna þó viðleitni á þessu sviði, hljómaði eins og aumlegt mjálm.
Öll heimsstjórnmál síðustu 100 ára hafa litast af því að ná valdi yfir og nýta olíulindir heims og annað jarðefnaeldsneyti.
Bara síðustu dagana erum við minnt á að í raun snúast átökin við Svartahaf um yfirráð og aðgang að olíulindum þjóðanna þar. Meira að segja Kínverjar ryðjast nú til áhrifa í fyrrum Sovétlýðveldum á því svæði.
Svo sérkennilega, sem það kann að hljóma, er það fyrst og fremst hversdagslegt snatt jarðarbúa á landfarartækjum, sem mestu orkunni er eytt í, eða um 80% og af þessu stafar loftslagsvandinn, sem lýsir sér í hraðri bráðnun jökla og hafíss og meiri átökum í veðri en áður hafa þekkst.
Þetta orkubruðl hversdagsins er keppikefli þeirra jarðarbúa, sem ýmist hafa látið ameríska drauminn rætast eða eru í kapphlaupi við uppfylla hann.
Einhver besta táknmynd þess er myndin, sem Egill Ólafsson upplifði nýlega og sagði mér frá; þjóðartákn Íslendinga frá aðdraganda Hrunsins, þriggja tonna 330 hestafla pallbíllinn, sem tekur tvö bílastæði og er hafður í gangi á meðan eigandinn skreppur inn til að gegna erindum sínum við verslunargötu.
Orkusóknin og harðnandi barátta um orkuna lita líf okkar æ meir. Svonefnt "fracking" jarðlaga, auknar boranir eftir gasi og olíu, stórfellt og vaxandi skrap á olíumettuðum jarðlögum og vaxandi kolanotkun eru skýr dæmi um þetta.
"Það lafir meðan ég lifi" sagði síðasti Frakkakonungurinn fyrir byltinguna þar í landi. Sameiginleg trúarbrögð mannkynsins er veldishlaðinn hagvöxtur og skelfing grípur jafnt Kínverja sem Evrópubúa og Íslendinga, ef guðinn hagvöxtur er ekki nógu feitur og pattaralegur.
Hér á landi nefnast trúarbrögðin "stóriðja og orkufrekur iðnaður". Það er hláleg mótsögn gagnvart brýnustu viðfangsefnum mannkynsins að orkufrekur iðnaður, sem í raun þýðir mesta mögulega orkubruðl, skuli vera dýrkaður sem guð af Íslendingum.
Orkubruðl hversdagsins hjá jarðarbúum er svo yfirgengilega mikið, að jafnvel þótt öll vatnsorka, jarðvarmaorka og vindorka Íslands yrði virkjuð og allri hinni einstæðu náttúru landsins fórnað fyrir það, gæfi það aðeins innan við eitt prósent af orkuþörf Evrópu og enn minna brot úr prósenti af orkuþörf jarðarbúa allra.
Samt tala menn í alvöru um sæstreng héðan til Evrópu sem lausn á orkuvanda álfunnar og tala um Ísland eins og "Bahrain norðursins".
Framtíðarsýnin fyrir 21. öldina er að mótast og skýrast og er full af mótsögnum. Hún er fólgin í bjartsýni um það að hægt verði með ítrustu orkusókn að framlengja olíuöldina með öllum tiltækum ráðum í nokkra áratugi umfram það sem útlit var fyrir í stað þess að það ætti að vekja mönnum hroll hvernig siglt er með vaxandi hraða að feigðarósi þurrðar á helstu auðlindum jarðar á kostnað komandi kynslóða.
Áhrif á lofthjúp og veðurfar skipta engu né fórnir sem færa verður vegna þeirra. Orkubruðl hversdagsins verður að hafa forgang.
Versta veður í 40 ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Að alhæfa svona Ómar er ekki gott,við framleiðum það besta og ódyrasta rafmangn sem til er Rafmannbílum framtíðar mun möf fljótt aukast mjög og olían hverfandi,við erum bókstaflega sér á parti Íslndingar með hreina orku,húin okkar hituð með jarðvarma og við eigum í framtíðinni að geta notað rammagn í flest,þessi öfgafulla greining þín er að hluta til sönn en als ekki um framtíð!!!!kveðja!!!!
Haraldur Haraldsson, 11.3.2014 kl. 13:06
Losun koltvísýrings frá jarðvarmavirkjunum hér á Íslandi árið 2009 var 185 þúsund tonn og brennisteinsvetnis árið 2008 31 þúsund tonn.
Jarðvarmavirkjanir, bls. 13
Þorsteinn Briem, 11.3.2014 kl. 13:29
"Útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna orkuframleiðslu árið 2007 skiptist í útstreymi vegna jarðhitavirkjana (83%) og útstreymi vegna notkunar eldsneytis til rafmagns- og hitaframleiðslu (17%).
Heildarútstreymi frá orkuframleiðslu jókst úr 123 þúsund tonnum árið 1990 í 182 þúsund tonn árið 2007, eða um 48%.
Aukning frá jarðhitavirkjunum vegur þar mest en útstreymi frá jarðhitavirkjunum jókst úr 67 þúsund tonnum í 152 þúsund tonn á tímabilinu."
Nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á Íslandi, sjá bls. 30-36
Þorsteinn Briem, 11.3.2014 kl. 13:33
"Stefán Arnórsson, prófessor við jarðfræðideild Háskóla Íslands, segir fullyrðingar sem stjórnmálamenn vilji gjarnan ýta undir um að jarðvarmi sé endurnýjanleg auðlind ekki standast og í raun sé rennt blint í sjóinn með stærð sumra svæða sem til standi að nýta, svo sem á Hellisheiði."
"Í þessu togast á þrennt, pólitík, hagsmunir og fagmennska," segir Stefán og kveður allt faglegt mat segja að auðlindin sé ekki endurnýjanleg."
Þorsteinn Briem, 11.3.2014 kl. 13:39
Við hér á landi lifum því miður í þeirri grunnhugsun að "þetta reddast". Við viljum ekki sjá að allt hjal um áframhaldandi hagvöxt er ekki á rökum reist nema við klárum auðlindir jarðar og skilum jörðina eftir sem rjúkandi rúst handa börnunum okkar.
Úrsúla Jünemann, 11.3.2014 kl. 17:19
Haraldur, - það er þá eins gott að það séu til einhver wött eftir handa okkur!
Svo hitt, - þetta er nú ekkert sérstaklega hrein orka sem verið er að pusa upp á heiðinni. Eiginlega frekar óhrein. Og virkjanalón í gruggvatni eru bara til skamms tíma....
Jón Logi (IP-tala skráð) 11.3.2014 kl. 18:09
Ég held að Ursula Jünemann hafi rétt fyrir sér. En ný hugsun er mörgum erfið, ef ekki útilokuð. Ekki vegna afturhaldssemi, frekar vegna þekkingarskorts, "Bequemlichkeit", og kjánaskapar.
Endurspeglast hér fyrir ofan í bulli Haralds Haraldssonar. Okkar rafmagn er ódýrt fyrir orkufrekan iðnað, því ríkið borgar með hverju vatti. En ekki fyrir heimilin. Bæði miðað við Grikkland og Sviss, er raforkuverð til heimilisnorkunar ekki lægra á Íslandi.
Og að okkar rafmagn sé eitthvað betra en annars staðar?
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 11.3.2014 kl. 18:27
Bull mitt sem þú kallar Haukur er ekki meira en ykkar,hvar værum við stött án þeirra orku sem hefur verið virkjuð,þið þessar umkvrfisbullur eruð öfgafullir og ótrúlega samtaka í vitleisunni!!!!!
Haraldur Haraldsson, 12.3.2014 kl. 00:25
Framleiðsla vatnsorkuveranna í Noregi er 113 TWh/a, um 60% af þeirri vatnsorku sem þar væri hægt að virkja.
Og framleiðsla vatnsorkuveranna hefur lítið aukist frá árinu 1990, samkvæmt skýrslu sem Þorkell Helgason skrifaði fyrir forsætisráðuneytið um skattlagningu orkufyrirtækja í Noregi.
Þorsteinn Briem, 12.3.2014 kl. 00:35
Raforkuvinnsla hér á Íslandi árið 2008 var 16,467 GWh og hafði þá aukist frá árinu áður um 37,5%.
Og notkunin á íbúa jókst úr 38,5 MWh í 51,6 MWh.
Árið 2002 varð raforkunotkunin hér sú mesta í heiminum á mann en áður hafði hún verið mest í Noregi.
Með Fjarðaáli jókst raforkunotkun stóriðju verulega árið 2008 og hlutur hennar fór þá í 77% af heildarnotkuninni.
Þorsteinn Briem, 12.3.2014 kl. 00:37
"Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis gaf út skýrslu í mars síðastliðnum um mælingar á brennisteinsvetni í Kópavogi.
Í niðurstöðu heilbrigðisnefndarinnar segir að vaxandi styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti á höfuðborgarsvæðinu sé áhyggjuefni en langtíma áhrif lágs styrks brennisteinsvetnis á heilsufar hafa lítið verið rannsökuð."
Kópavogur lýsir yfir áhyggjum af loftgæðum
Þorsteinn Briem, 12.3.2014 kl. 00:41
"Morgunútvarpið hefur fjallað um brennisteinsvetni í andrúmsloftinu i vikunni, það er að segja mengun frá Hellisheiðarvirkjun sem berst yfir íbúðabyggð - til dæmis á höfuðborgarsvæðinu.
Mengunin getur valdið fólki óþægindum og til að mynda eru vísbendingar um að sala á astmalyfjum aukist í kjölfarið á mengunartoppum frá virkjuninni.
En brennisteinsvetni hefur áhrif á fleira og meðal annars er ýmiss konar tækjabúnaður viðkvæmur fyrir þessari mengun - til dæmis rekja tæknimenn í Útvarpshúsinu margvíslegar bilanir til mengunarinnar."
Brennisteinsvetni skemmir tæki
Þorsteinn Briem, 12.3.2014 kl. 00:43
"Ef geisla- og DVD-spilarar hætta skyndilega að virka og skruðningar heyrast í hljómflutningstækjum heimilisins má ef til vill rekja bilunina til brennisteinsmengunar.
Sama mengun veldur því að jólasilfrið hefur undanfarin ár verið ansi svart.
Brennisteinsmengun í andrúmslofti hefur aukist á höfuðborgarsvæðinu frá því að jarðvarmavirkjanir voru teknar í gagnið á Hellisheiði árið 2006.
Brennisteinsvetni myndar nýtt efnasamband þegar það kemst í snertingu við silfur þannig að það fellur á málminn."
"Algengt er að það sé ástæðan þegar komið er með biluð raftæki í viðgerð, segir Arnar Sigurður Hallgrímsson, rafeindavirki hjá Sjónvarpsmiðstöðinni."
"Arnar Sigurður segir dæmi um að fólk komi með sömu tækin aftur og aftur vegna þessa vandamáls."
Brennisteinsvetni skemmir hljómflutningstæki
Þorsteinn Briem, 12.3.2014 kl. 00:48
Þorsteinn Briem, 12.3.2014 kl. 00:51
"Fram til ársins 2018 eru afborganir Landsvirkjunar á erlendum lánum áætlaðar um 128 milljarðar króna.
Langstærstur hluti af handbæru fé fyrirtækisins frá rekstri mun því líkt og síðustu ár fara í að standa skil á afborgunum erlendra skulda."
Áhersla lögð á að lækka miklar erlendar skuldir Landsvirkjunar næstu árin
Þorsteinn Briem, 12.3.2014 kl. 00:53
17.9.2009:
Kostnaður við fyrstu fjóra áfanga Suðvesturlínu verður um 27 milljarðar króna, miðað við verðlag í janúar 2009 [um 34 milljarðar króna á núvirði], en kostnaður vegna fimmta áfangans liggur ekki fyrir.
Álit Skipulagsstofnunar vegna Suðvesturlínu
Þorsteinn Briem, 12.3.2014 kl. 01:23
Það að orka er framleidd hér með vatni og varma - það segir ekki alla söguna um mengun af íslendingum glóbalt séð.
Staðreyndin er að íslendingar eru gríðarlegir mengunarvaldar hnattrænt séð.
Mörgum finnst þetta skrítið við fyrstu heyrn - en ástæðan er ofureinföld ef málið er hugsað.
Tveir meginþættir. Í fyrsta lagi vegna þess hve íslendingar nota mikið af innfluttum neysluvörum og eru stórneytendur. Margir sem eiga öll þægindatæki og tól og endurnýja ört auk almennra innfluttningsvara. Þessar vörur voru allar framleiddar útí heimi þar sem orka kemur við sögu. Oft olía. þ.al. eru íslendingar meðsekir í mengurn erlendis og af hárri gráðu miðað við höfðatölu.
Ennfremur ber að hafa í huga hve landið er afskekkt. Það kostar mikla orku að flytja allar neysluvörurnar hingað upp.
Mig minnir að því hafi verið haldið fram að íslendingar séu heimsmeistar í mengun - miðað við höfðatölu og að teknum inn ofannefndum forsendum.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 12.3.2014 kl. 01:52
Ég tók einhvern tímann svona global footprint próf, og kom bara vel út úr því, - það gætu allir lifað eins og ég, en það þyrfti bara eina plánetu.....
Mig grunar nú samt að flestir lifi eitthvað meira grand en ég.
Og Haraldur, mér sýnist Haukir hafa nokk rétt fyrir sér. En ég kaupi ekki svo létt að kWst sé ódýrari í Sviss en hér, nú eða í Grikklandi. Það er þá mjög sérstakt á Evrópuskala, þar sem víða er þetta tvöfalt dýrara.
Það væri svo enn ódýrara hér ef við fengjum það á sama verði og stóriðjan....
Jón Logi (IP-tala skráð) 12.3.2014 kl. 10:17
Íslendingar gætu sparað gríðarlega í gjaldeyri sem kallað er ef þeir tækju upp sparsamari lifnaðarhætti. Þ.e.a.s. að það þarf ekki svo mikið hjá hverjum og einum til að safnist samanlagt í stórt. Margt smátt gerir eitt stórt o.s.frv.
,,Er það rétt að Íslendingar séu einir mestu umhverfissóðar í heimi?
„Já, við erum mestu umhverfissóðar í heimi. Rannsóknir sýna að ef allir lifðu eins og Íslendingar þá þyrftum við 10 jarðir. Til samanburðar þurfa Bandaríkjamenn fimm jarðir og Evrópusambandið þrjár. Þetta er vitanlega mjög ósjálfbært. Ég myndi segja að Íslendingar séu bæði umhverfissóðar og auðlindasóðar. Við erum með stærsta vistspor í heimi vegna mikillar neyslu, en samt finnst þjóðarsálinni að við séum mjög umhverfisvæn vegna þess að við eigum og nýtum endurnýjanlega orku."
http://www.frettatiminn.is/frettir/islendingar_eru_mestu_umhverfissodar_i_heimi/
Hinsvegar eru engar líkur á að íslendingar breyti lifnaðarháttum sínum svo neinu nemi í fyrirsjánlegri framtíð - nema þá að eitthvað al-óvænt komi til sem gjörbreytir hugarfari eða að fólk neyðist til að breyta um venjur.
Er nefnilega merkilegt við svona tækniþróun og að öll tæki og tól þurfi að vera til staðar og allar hugsanlegar neysluvörur sem flottastar o.s.frv. o.s.frv., stærst og flottast etc. - er hve fólk virðist fljótt verða háð því og/eða getur ekki hugsað sér að sleppa einhverju.
Hafa ber í huga þessu viðvíkjandi, að aðeins örstutt er síðan að fjöldi innbyggja lifði á allt annan hátt en nú þekkist. Það er miklu styttra síðan en fólk fattar yfirleitt nú til dags enda vita íslendingar lítið um sögu sína.
Við getum talað um alveg til 1950 eða þessvegna 1960 og framyfir það, sem fjöldi fólks er að lifa á íslandi við ótrúlega ólík lífsskilyrði en nú þekkist. Er nefnilega merkilegt hve ótrúlega stutt er síðan.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 12.3.2014 kl. 14:22
Ég myndi nú taka þessu "fótspori" okkar með sæmilegum fyrirvara. Í fyrsta lagi bendir hlekkurinn ekki á neina rannsókn sem styður þetta. Og í öðru lagi eru þessi próf talsvert gróf. Svo má bæta við, að orkuframleiðsluríki reiknast neikvætt, - eru í raun hönkuð á að framleiða neysluvöru sem neytt er annars staðar. Þetta á t.a.m. við um kolefnisspor Kínverja.
Bandaríkjamenn mælast venjulega með 6 jarðir þar sem ég hef gáð, og þeir sem ég hef kynnst eru nokkuð sverir neytendur ;)
Jón Logi (IP-tala skráð) 12.3.2014 kl. 14:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.