Dularfull íslensk flughvörf.

Nú er verið að rifja upp dularfull hvörf flugvéla og nefnd tíu dularfyllstu hvörfin, sem þó hafa sum verið upplýst talsvert síðar og þá jafnvel til hlítar, samanber hvarf Air France 447, en með henni fórst einn Íslendingur.

Hér á Íslandi hafa flugvélar horfið á dularfullan hátt og koma fimm atvik upp í hugann.

DC-3 Flugfélagsvélin Glitfaxi hvarf með 20 mönnum í aðflugi suðvestur af Álftanesi í hríðardimmvirðri 31. janúar 1951.

Brak fannst úr vélinni en ákveðið var að skilgreina flakið sem grafreit og hefur það ekki fundist formlega síðan, þótt vísbendingar séu um að það sé á hafsbotni út af Flekkuvík á Vatnsleysuströnd.

Grafarhelgin endar 31. janúar árið 2026 og með nútíma tækni ætti að vera hægt að finna flakið og komast að því hvað olli slysinu.

B-18 Beechraft vél Flugsýnar hvarf skammt utan við Norðfjörð á miðjum sjöunda áratugnum og hefur ekki fundist síðan. Mig minnir að tveir flugmenn hafi verið um borð, og að flugstjórinn hafi heitið Sverrir Jónsson.

Ekki löngu síðar týndist TF-BKH, Piper Pa-22 Tri-Pacer einshreyfils flugvél einhvers staðar á Húnaflóasvæðinu.

Einn var um borð og hafði sent út neyðarkall þess efnis að hann væri villtur og að eldsneyti væri takmarkað.

Ekkert hefur fundist úr vélinni.

Hvar feinshreyfils flugvélarinnar TF-ROM með fjórum mönnnum upp úr 1970 var dularfullt, því að vélin, sem var á leið frá Reykjavík til Akureyrar, hvarf og var leitað að henni árangurslaust dögum saman.

Meðal annars tóku björgunarþyrla varnarliðsins þátt í leitinni.

Mistur hafði verið í lofti á flugleiðinni en alls staðar nægilegt skyggni nema að lágþoka var á Holtavörðuheiði.

Leitarsvæðið var afar stórt og það helgaðist af voninni um að einhver hefði komist lífs af úr slysinu, en ef til vill hefði flugvélin fundist fyrr ef höfuðáhersla hefði strax verið lögð á að leita á þokusvæðinu vestast á Tvídægru og á Holtavörðuheiði, þar sem líklegast var að vélinni hefði hlekkst á.

Raunar var flogið yfir slyssvæðið í leitinni eftir að þokunni létti, en landið var svo flekkótt að afar erfitt var að koma auga á flakið.

Frægasta dularfulla hvarfið var vafalaust hvarf DC-4 millilandaflugvélarinnar Geysis í eigu Loftleiða í september 1950 með sex manna áhöfn um borð, en það fannst ekki fyrr en fimm dögum eftir að vélin hvarf, á Bárðarbungu og voru allir á lífi.

Björgun DC-3 björgunarflugvélar bandaríska hersins af vorið eftir, sem varð innlyksa á jöklinum, hefur verið valin sem eitt af tíu merkustu atvikum í fjölskrúðugri sögu DC-3.    


mbl.is 10 dularfyllstu flugslysin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

TF-ROM fórst ekki upp úr 1970. Ég er einn þeirra fjölmörgusem tóku þát í þeirri leit og er leitin mér mjög minnisstæð. TF-ROM fórst snemma á 9. ártug síðustu aldar.

Árni Árnason (IP-tala skráð) 13.3.2014 kl. 12:36

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Harla ólíklegt að íslensk loftför hafi verið öruggari en bifreiðar hvað dauðaslys snertir á árunum 1920-1997 og fjölda íslenskra loftfara og bifreiða á þessu tímabili.

Íslensk loftför - Um 400 létust í um 70 slysum frá upphafi til 14.9.1997, sjá neðst á síðunni

Þorsteinn Briem, 13.3.2014 kl. 14:38

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Flughvörf finnst mér ekki dularfull eftir að búið er að upplýsa þau. Bárðarbunguslysið er varla neitt dularfullt og var það aldrei.  Ekki heldur þegar franska þotan hvarf yfir Atlantshafi 2009. En Glitfaxaslysið er enn dularfullt. Í skránni sem Mogginn birti um 10 dularfull slys vantar auðvitað ýmis slys. Á þessum flugslysavef er sagt frá ýmsum vélum sem aldrei hafa fundist, t.d. ein yfir Kyrrahafi 21. júlí 1951 með 38 manns. http://en.wikipedia.org/wiki/Aviation_accidents_and_incidents 

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.3.2014 kl. 14:44

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En á vefinn vantar stóru íslensku flugslysin, 1947, 1951 og 1963.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.3.2014 kl. 14:55

8 identicon

Hættið að nota orðið "dularfullt". Ekkert er "dularfullt", þótt skýringa vanti.

Halló, anno 2014 and counting.

Þjóðsögur Jóns Árnasonar eru dýrmætar, en sem bókmenntir, "Märchen".

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.3.2014 kl. 15:54

9 identicon

B-18 Beechraft vél Flugsýnar Fékk ekki skip hluta af henni í troll

Hallo (IP-tala skráð) 13.3.2014 kl. 18:55

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gott ef það er ekki rétt. Mér skjöplaðist um áratug varðandi TF-ROM sem fórst í maí 1981.

Ég er nógu gamall til að muna eftir því hve dularfullt hvarf Geysis þótti þá daga sem enginn vissi hvað orðið hefði að henni og þjóðin öll engdist í óvissu og undrun.

Mikil leit í marga daga bar engan árangur , enda fór hún svo langt af leið, að engan hafði órað fyrir því.

Ómar Ragnarsson, 13.3.2014 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband