18.3.2014 | 00:46
Ellefu ára gömul pæling lifnar við.
Ég hef fengið ýmsar hugmyndir um ævina varðandi marga hluti, meðal annars efni í fréttir, sjónvarpsþætti, útvarpsþætti og bækur, og byrjað á svo mörgum en ekki klárað þær, að þær hugmyndir, sem ég hef þó komið í verk, eru aðeins brot af því.
Ég á í fórum mínum handrit og frumhugmyndir að slatta af bókum, mislangt komnar, meira að segja heilt frumhandrit að einni bókinni, sem ég tel þó að ég þurfi að endurskrifa.
Ein hugmyndin, sem ég fékk fyrir ellefu árum, snerist um hvarf flugvélar, sem ekki færist, en yrði þó að umfjöllunarefni í fjölmiðlum heimsins. Ég setti niður "grind" að handriti sem byggðist á miklum tæknilegum rannsóknum og pælingum til þess að módelið gengi örugglega upp.
Ég féll á tíma með þetta, enda skrifaði ég á sama tíma heila handritið, sem ég minntist á áðan og ég taldi þurfa betri athugunar við og endurskrift.
Ég tók þráðinn aftur upp þráðinn varðandi horfnu flugvélina nokkrum árum síðar, en komst ekkert lengra þá vegna annarra verkefna og ýmissa ástæðna og hef geymt þessa hugmynd sem trúnaðarmál með örfáum trúnaðarmönnum mínum, teljandi á fingrum annarrar handar.
Ég er ekki búinn að afskrifa að ljúka þessu verki, og hvorki ég né trúnaðarmenn mínir munu því veita um það meiri upplýsingar að svo stöddu.
Hvarf malasísku flugvélarinnar hefur af þessum sökum vakið meiri athygli mína en ella, og er það meðal annars ástæðan fyrir því hvað ég hef skrifað marga bloggpistla um það undanfarna daga.
Fráfall eða hvarf einstaklinga, einkum frægra einstaklinga, hefur alltaf yfir sér sérstakan blæ. Hér á landi má nefna hvarf séra Odds í Miklabæ og Reynistaðabræðra og mörg önnur mannshvörf allt fram undir okkar daga.
Ekki dregur úr þessu að alls konar getgátur verða jafnan til, þegar svona mál eru óleyst, og að dæmi eru um það erlendis að þeir, sem taldir voru af, komi löngu seinna fram sprelllifandi.
Meira að segja má nefna íslenskt dæmi, Íslendinginn sem sem hvarf sporlaust í Bandaríkjunum hér um árið og var talinn af, en kom mörgum árum seinna fram heill á húfi.
Þannig voru í marga áratugi eftir hvarf Amalíu Erhardts 1937, sögusagnir á kreiki um að hún væri lifandi, hefði verið rænt af Japönum o. s. frv., og eftir lát Marylin Monroe og þó einkum Elvis Presleys voru á sveimi alls konar sagnir um það að þau væru í raun lifandi, auk ýmissa samsæriskenninga.
Setningin "Elvis is in the building" gat haft fleiri en eina merkingu.
Dularfull örlög 239 manna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvenær ætlar þú að gefa út "allt gamla og góða efnið" sem þú skemmtir fólki með í gegnum árin, þú situr á þessu "gulleggi" og gerir ekkert í því!!??
Sigurður I B Guðmundsson, 18.3.2014 kl. 07:14
Ég var viðstaddur jarðarför í gærkvöldi þar sem farið var með orðin "...Kenn oss að telja daga vora.." Ég hef að undanförnu verið að gera hluta af þessu í Gaflaraleikhúsinu og stefni inn í frekari verkefni á því sviði sem þú ræðir um. En þau kosta tíma, peninga og vinnu.
Ómar Ragnarsson, 18.3.2014 kl. 09:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.