Hvað næst? Virkjanir í Öskju, Kverkfjöllum og á Þingvöllum?

Þegar sú grein laga og reglna um Orkustofnun sem varðar skyldu hennar til að rannsaka alla hugsanlega virkjunarkosti er túlkuð þröngt er augljóslega komið út á braut fáránleikans í virkjanaæði landsmanna, sem ég get ekki ímyndað mér að eigi neina hliðstæðu í öðrum löndum.

Einkum er þetta fáránlegt þegar þess er gætt að rannsóknir og vinna varðandi alla þessa virkjankosti á helstu náttúruverðmætasvæðum landsins kostar mikið fé og vinnu.

Hitt er líka vitað að virkjanafíklarnir hafa stundað það að eyða sem mestu fé í rannsóknir til þess að geta sagt síðar, að úr því að eytt hafi verið svona miklum fjármunum í þetta, megi ekki "eyðileggja" þessar fjárfestingar.

Þetta afbrigði af "túrbínutrixinu" hefur verið notað í áratugi og hefur gefist virkjana- og stóriðjutrúarmönnum vel.

Að setja upp net ígilda Hellisheiðarvirkjunar í Kerlingarfjöllum og við Torfajökul, skrúfa fyrir þrjá stórfossa í Þjórsá, fara með virkjun inn í Þjórsárver og keyra stórar jarðvarmavirkjanir ofan í kokið á Hvergerðingum er alveg á pari við það að virkja í Öskju, Kverkfjöllum og á Þingvöllum.

Vel má hugsa sér "snyrtilega" stíflu við suðurenda Þingvallavatns til að hækka fallhæð og auka afl Steingrímsstöðvar á ódýran hátt, en myndi jafnframt sökkva Þingvöllum.

Ef lög um Orkustofnun eru túlkuð þröngt ætti hún auðvitað að bruna af stað í rannsóknir á þessu og heimta að það fari inn í 3ja áfanga rammaáætlunar og jafnvel mætti hugsa sér að bora "rannsóknarboranir" fyrir norðan Þingvelli til að ganga úr skugga um hagkvæmni jarðvarmavirkjunar þar.

Að ekki sé nú talað um boranir í Öskju og Kverkfjöllum, enda eru Fremri-Námur nyrst í Ódáðahrauni nú á dauðalista stofnunarinnar.

Nú eru litlar líkur á gosi í Eyjafjallajökli og næsta nágrenni hans. Er þá ekki tilvalið að nota tækifærið og "lögbundið hlutverk" til að vaða þangað upp eftir og byrja að bora?   


mbl.is Sinnir lögbundnu hlutverki sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér er stikla úr mynd um það þegar stífla í Elwha ánni í Washington fylki í Bandaríkjunum var rifin og áin færð í fyrra horf - ef svo má að orði komast.

https://vimeo.com/86488251

Jóhann (IP-tala skráð) 25.3.2014 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband