Hvað um stefnuljósin ? "Friðhelgi einkalífsins".

Líklega eru ein tvö til þrjú ár síðan lögreglan í Reykjavík gerði smá rassíu part úr degi vegna þess ástands, sem ríkir varðandi stefnuljós hjá ökumönnum. En síðan hefur ekki orðið vart við slíkt en miklar fréttir hins vegar fluttar af hraðamælingum, sem er svosem gott og þarft framtak út af fyrir sig.  

En stefnuljósarugl og vanræksla í notkun þeirra, of hægur akstur og önnur atriði sem benda til mikillar áherslu okkar Íslendinga á að njóta lögverndaðrar friðhelgi einkalífsins í umferðinni, virðast fá að blómgast í friði.    

Á hverjum degi veldur ruglingur og kæruleysi um notkun stefnuljósa töfum, vandræðum og hættu í umferðinni því að þetta blasir við á hverjum degi um alla borg í hvert skipti sem ekið er í umferðinni.

Nú síðast í dag beið röð bíla eftir því að taka beygju til vinstri á fjölförnum gatnamótum, sem ég var staddur á. Á móti bílaröðinni kviknað heilt grænt ljós til merkis um að taka mætti beygjuna að því tilskildu að umferðin beint á móti hefði forgang.

Þeir ökumenn, sem komu úr þeirri átt og ætluðu að beygja í sömu átt, gáfu hins vegar ekki stefnuljós heldur héldu bílunum, sem biðu, í gíslingu, algerlega að ástæðulausu, því að um tvær akreinar var að ræða á götunni sem beygt var inn á og því auðvelt að láta umferðina blandast þar.

Enginn í fyrrnefndri röð, sem beið, komst því yfir. Nú kviknaði grænt beygjuljós með ör við hliðina á heila græna ljósinu sem gaf til kynna að bílaröðin fyrrnefnda ætti forgang í að beygja til vinstri.

En ökumaður fremsta bílsins nýtti sér það ekki heldur stóð kyrr hélt allri röðinni fyrir aftan sig þangað til rautt ljós var komið, þannig að bæði grænu ljósin voru einskis virði !

Erlendis, þar sem ævinlega eru gefin stefnuljós, hefðu minnst tveir bílar komist yfir á heila græna ljósinu í þessu tilfelli og minnst fimm á ljósinu með örinni, eða alls sjö. En á Íslandi enginn !

Ökumenn virðast vera hver með sína reglu um það hvenær eigi að gefa stefnuljós og hvenær ekki.

Tvívegis hef ég alveg nýlega ekið á eftir bílum á leið frá Vesturlandi til Reykjavíkur þar sem ökumennirnir gáfu alltaf stefnuljós til vinstri þegar þeir óku inn í hringtorgin. Í sum skiptin gerðu þeir þetta svo snemma, að engu var líkara en að þeir ætluðu að beygja strax til vinstri og aka á móti umferðinni öfugan hring.

Í fyrra skiptið gaf ökumaðurinn sex sinnum stefnuljós til vinstri í röð og virtist með því vera að gefa til kynna að hann ætlaði ekki að beygja til hægri inn á fyrstu götuna sem lá út úr torginu. Samt var hann á innri akrein og í innri hring í torginu!

Síðan gaf hann aðeins þrisvar sinnum stefnuljós til hægri þegar hann beygði út úr torginu til að halda áfram, en þrisvar sinnum gaf hann ekkert stefnuljós í þá átt þótt hann gætti þess vel að gefa alltaf stefnuljós til vinstri þegar hann  kom inn í torgin!

Í síðara skiptið sem ég ók á eftir svona bílstjóra á þessari leið, gaf hann fimm sinnum stefnuljós í röð til vinstri þegar hann kom inn í torgin, en í síðasta torginu gaf hann ekkert stefnuljós og beygði þá til hægri út úr torginu !

Þessir bílstjórar eru greinilega ósammála þeirri skilgreiningu á hringtorgi, að meðan ekið er inni í hringtorgið og ekki skipt um akrein né ekið út úr torginu, jafngildir það því að aka á beinum vegi án akreinarskipta og því þarf ekki og er raunar algerlega órökrétt að gefa stefnuljós til vinstri.

Að gefa stefnuljós til vinstri á vinstri akrein inni í hringtorgi jafngildir því að viðkomandi ætli að beygja upp á eyjuna, enda sér maður svona notkun hvergi erlendis.

Allt þetta rugl veldur öryggisleysi, töfum og óhöppum í umferðinni en virðist ætla að lifa góðu eilífu lífi hér á Klakanum. Enginn græðir á þessu, allir tapa og allir eru óöruggir, ringlaðir og pirraðir, en samt heldur það áfram.   


mbl.is Myndaði brot 139 ökumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ánægður er ekki par

er það nema von?

Eiður Svanberg umferðar

Ómar Ragnarsson! 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 28.3.2014 kl. 07:17

2 identicon

Ég er einn af þessum leiðinlegu, sem aldrei gefur stefnuljós ... af hverju?

Hefurðu einhvern tíman orðið fyrir því, að þú sást þennan bíl á móti með stefnuljós og hélst hann ætlaði að beigja, en komst að því að hann hafði gleimt að taka þau af frá síðustu gatnamótum, af því að automatið virkaði ekki.  Eða verið í hringtorgi, þar sem gefið var stefnuljós inn í hringinn, og of seint gefið út?

Þegar ökumaðurinn á móti, ekki gefur stefnuljós hefur það í för með sér að þú ert sjálfur meir á varðbergi, og það eykur öryggi umferðinni.

Ekki er öll báran stök, segir máltækið.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 28.3.2014 kl. 08:52

3 identicon

Ég gef stefnuljós til vinstri í hringtorgum, til að láta umferð á móti vita að ég ætla EKKI að beygja út úr hringtorginu á þeim gatnamótum.  Þetta leggur mér auðvitað þær skyldur á herðar að láta vita með hægri stefnuljósi þegar ég ætla að beygja út úr hringtorginu.

Þetta er reyndar orðið erfitt vegna þess að hringtorg eru mun minni en áður var.

Má ég bæta því við að mér þykir stórhættuleg sú regla að innri hringur hafi forgang, þegar beygja á út úr hringtorgi.

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 28.3.2014 kl. 09:08

4 identicon

"Ytri hringurinn" er í raun ekki hringur, heldur frárein; ætluð til að beygja til hægri. Ætli maður sér ekki að beygja til hægri heldur aka áfram, þarf maður að gefa það til kynna með stefnuljósi og GÆTA VEL AÐ SÉR enda er maður að aka yfir aðra akrein. Þetta sést vel ef máluðu línurnar eru skoðaðar (þ.e.a.s. meðan þær sjást svona rétt eftir að þær eru málaðar...).

ls.

ls (IP-tala skráð) 28.3.2014 kl. 09:52

5 identicon

Er innbyggjurum ofviða að nota stefnuljós og keyra hringtorg samkvæmt reglum?

Þessari stórustu þjóð í heimi og þótt víðar væri leitað!

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.3.2014 kl. 11:00

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hér að ofan virðist ljóst að skoðanir á því hvernig eigi að gefa stefnuljós í hringtorgum virðast vera jafn margar og ökumennirnir.

Ómar Ragnarsson, 28.3.2014 kl. 13:13

7 identicon

Það er svo sem ekki furða vegna þess að akstur í hringtorgi lýtur lögmálum frumskógarins. Hvergi í umferðarlögum er minnst á hringtorg og umferð þar. Réttur innri hrings t.d. styðst ekki við umferðarlög. Skv. umferðarlögum er heimilt að skipta um akrein. Því liggur ljóst fyrir að í hringtorgi hlýtur því að vera heimilt að gjöra svo. Þó gefur Umferðarstofa út leiðbeiningar um að svoleiðis hegðun sé bönnuð en styðst þar við eigin geðþótta.

Reyndar er ekki alveg rétt hjá mér að hvergi sé minnst á hringtorg í lögunum. Í hringtorgi er nefnilega bannað að stöðva eða leggja ökutæki.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 28.3.2014 kl. 15:31

8 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Þegar græna örin kemur og gefur .þeim semætla að beygja forgang og þeir bíða þá eiga þeir sem á eftir slíkum slóða eru að flauta á hann svo hann átti sig á þessum mistökum sínum og getur orðið til þess að hann verði betur vakandi næst þegar hann er í þessari stöðu,

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 28.3.2014 kl. 21:13

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú síðast í dag fór ég daglega leið mína austur úr Grafarvogshverfinu í átt að Grafarholtinu.

Þar er einfalt hringtorg sem þarf að fara inn í smá spöl og svo strax til hægri út úr því áleiðis vestur Vesturlandsveg.

Í dag lenti ég í biðröð við hringtorgið af því að enginn, ekki einn einasti ökumaður í bílaröð, sem kom á móti okkur, gaf stefnuljós um það að hann ætlaði út úr torginu og koma þannig á móti okkur að við gætum haldið för okkar áfram.

Þetta er nánast regla en ekki undantekning. Reynsla mín er sú að æstum því hver einasti ökumaður, sem ekur inn í þetta hringtorg telur það vera hið sjálfsagðasta mál að stöðva umferðina á móti sér gersamlega að óþörfu.

Síðan bölva ökumenn öðrum í sand og ösku sem gera þetta sama við þá.  

Ómar Ragnarsson, 29.3.2014 kl. 02:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband