30.3.2014 | 04:13
Hvað sögðu ekki Norðmaðurinn og Svisslendingurinn hér um árið?
Eftir að snjóflóð féll í Seljalandsdal við Ísafjörð 1994 voru fengnir tveir erlendir sérfræðingar til að veita ráðgjöf, annar frá Noregi og hinn frá snjóflóðavarnastöðinni í Davos í Sviss.
Ég var fréttamaður Stöðvar 2 á þessum tíma og reyndi að fylgjast með, og man að ein setning Norðmannsins fól í sér aövörun: "Þar sem getur fallið þykkur snjór í hallandi landi getur fallið snjóflóð."
Þetta fannst mér útskýra hvers vegna snjóflóð féll í tiltölulega lágri brekku á Blönduósi 1993 og "kom mönnum að óvörum" eins og snjóflóðið, sem nú hefur fallið í Bláfjöllum.
Ég hafði af því spurnir að svissneski sérfræðingurinn hefði aðvarað vegna þeirra byggða á Vestfjörðum þar sem hættulegar aðstæður væru, en verið sagt að hann hefði aðeins verið fenginn til að líta á snjóflóðið sem féll niður Seljalandsdal og niður í Tungudal, en ætti ekki að vera að skipta sér af öðru.
Mér tókst ekki að fá þetta staðfest hér heima, því miður, og hefði betur farið þá til Davos og fengið þetta staðfest hjá honum og flutt um það sjónvarpsfréttir.
Menn uggðu ekki að sér, vegna þess að ekki voru sagnir um sérstaka mannskaða af völdum snjóflóða í gegnum aldirnar, hvorki á Blönduósi, Seljalandsdal, Súðavík eða Flateyri.
Ég tók fréttauppistand á Urðarvegi á Ísafirði þar sem ég sýndi, hvernig annar fótur minn væri á skilgreindu snjóflóðahættusvæði en hinn ekki og fékk mjög bágt fyrir.
Fólk hringdi í mig og spurði sárt og reitt hvort ég væri ekki ánægður með að hafa eyðilagt ævistarf þess með svona fréttaflutningi, sem verðfelldi húsin þeirra, og áhrifamenn vestra reyndu að stöðva hann með því að þrýsta á fréttastjórann.
Það sem menn áttuðu sig ekki á þá og ekki heldur fyrir snjóflóðin í Neskaupstað 1972 var það, að ef snjóflóð hefðu fallið áður á þessum stöðum meðan ekki var þar byggð, þóttu þau auðvitað ekki sæta tíðindum þá. Þess vegna "komu þau að óvörum."
Þó mátti sjá í jarðabók frá 18. öld að fé væri hætt við flóðum í fjörubeit í Súðavík og hefði það átt að hringja bjöllum.
Eftir snjóflóðið á Flateyri hitti ég þann, sem heitast hafði fordæmt fréttaflutning minn og þegar ég bað hann afsökunar á því að hafa valið ranga götu, Urðarveg, í stað þess að standa á Ólafstúni á Flateyri, varð fátt um svör hjá honum.
Ég fór síðan sérstaka ferð til Davos til að ræða við sérfræðinginn, sem hafði verið á Ísafirði 1994 og koma heim með fréttaskýrslu um verkefnið sem hlaut að bíða varðandi snjóflóðavarnir á Íslandi.
Sú ferð gerði mig enn daprari yfir því að hafa ekki farið þangað tveimur árum fyrr.
Ekki fannst mér þó að hér heima væru skoðaðar nógu vel ýmis ódýrari ráð og einfaldari svissnesk ráð en hér hefur verið ráðist í.
Svissneski sérfræðingurinn sagði að miða þyrfti við langan tíma í hættumati og að eitt snjóflóð á 100 ára fresti ætti að vera nóg til að setja ekki niður byggð á því svæði án nægilegra varna.
Þegar menn verða hissa á snjóflóðum hér og þar, svo sem í Bláfjöllum, gleyma menn því að hafi snjóflóð fallið þar á árum áður, hafa þau ekki komist í fréttir af því að enginn var þar þá, á slóðum þar sem oft er krökkt af fólki nú.
Snjóflóðið kom að óvörum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vantar ekki aðalatriðið í þetta snjóflóðablogg þitt Ómar?
Snjóflóð falla ekki nema mikill snjór hafi safnast upp!
Hvernig væri að þú færir nú í alvöru að velta því fyrir þér hvers vegna tíðni skráðra snjóflóða á Íslandi hefur aukist til muna síðustu tvö ár?
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.3.2014 kl. 09:12
Það þykir nú ekki tíðindum sæta hér á Íslandi að snjói til fjalla á veturna, enda snjóar þá oft þó lofthiti sé fyrir ofan frostmark.
Þorsteinn Briem, 30.3.2014 kl. 09:24
Á Akureyri mældist úrkoman í febrúar síðastliðnum 101,3 mm, meiri en tvöföld meðalúrkoma þar á bæ og sú mesta í febrúar frá árinu 1990.
Sérlega snjólétt var austast á landinu í janúar síðastliðnum.
Á Dalatanga var þá enginn dagur alhvítur, sem er einstakt í janúar, en snjóhuluathuganir hófust þar árið 1939.
"Á Vattarnesi við Reyðarfjörð var frostlaust allan janúar, lægsta lágmark var 0,4 stig, og það hefur aldrei gerst áður hér á landi í janúar svo vitað sé."
Þorsteinn Briem, 30.3.2014 kl. 09:39
Þá byrjar alter ego Ómars Ragnarssonar (les: Steini Briem) á copy-paste færslunum :)
Það væri nú ekki úr vegi að sýna Veðurstofu Íslands smá virðingu með að geta heimilda!
Reyndar hefur þessu öllu verið svarað hér: http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1367496/
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.3.2014 kl. 09:57
"Í veðurfræði kallast það úrkoma þegar vatn á fljótandi eða föstu formi, snjókoma, fellur til jarðar úr skýjum."
Þorsteinn Briem, 30.3.2014 kl. 10:02
"Árið [2013] var hlýtt og hiti var á bilinu 0,4 til 1,0 stigi yfir meðallagi á árunum 1961-1990.
Hlýjast að tiltölu var austanlands en kaldast suðvestanlands."
"Í Reykjavík var árið það átjánda í óslitinni röð ára þar sem árshitinn hefur verið yfir meðallagi og það fimmtánda á Akureyri."
Tíðarfar árið 2013 - Veðurstofa Íslands
Þorsteinn Briem, 30.3.2014 kl. 10:05
"Árið [2012] var mjög hlýtt, sérstaklega um landið vestanvert.
Meðalhitinn í Reykjavík var 5,5 stig, sem er 1,2 stigum ofan meðallags áranna 1961-1990.
Á Akureyri var meðalhitinn 4,3 stig, sem er 1,1 stigi ofan meðallags."
"Í Reykjavík var árið 2012 það sautjánda í óslitinni röð ára þar sem árshitinn er yfir meðallagi og það fjórtánda á Akureyri.
Tíðarfar árið 2012 - Veðurstofa Íslands
Þorsteinn Briem, 30.3.2014 kl. 10:09
"Í janúar síðastliðnum var meðalhitinn í Stykkishólmi 1,0 stig, sem er 2,4 stigum ofan meðallags áranna 1961-1990.
Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 4,1 stig og -3,0 stig á Hveravöllum.
Meðalhiti hefur aldrei orðið svo hár á Höfn – en mælingar þar hafa ekki verið samfelldar. Þetta er samt trúlega hlýjasti janúar í Hornafirði frá 1947 að telja.
Við Berufjörð hefur hiti verið mældur samfellt frá árinu 1873, lengst af á Teigarhorni, og hefur janúar aðeins einu sinni orðið þar hlýrri en nú og það var 1947."
Tíðarfar í janúar 2014 - Veðurstofa Íslands
Þorsteinn Briem, 30.3.2014 kl. 10:13
"Meðalhiti í Reykjavík í janúar síðastliðnum var 2,4 stig, sem er 2,9 stigum yfir meðallagi áranna 1961-1990 og 1,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára (2004 til 2013)."
"Meðalhiti á Akureyri var 1,6 stig, sem er 3,8 stigum ofan meðallagsins 1961-1990 og 1,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára."
Þorsteinn Briem, 30.3.2014 kl. 10:16
Hafa snjóflóð fallið áður í Reykjavík?:
(Innlent | mbl | 15.1.2014 | 18:20 | Uppfært 19:00)
"Snjóflóð við veginn að Bauhaus
Síðastliðinn sunnudag lokaðist vegurinn fyrir ofan Bauhaus vegna fannfergis um fjögurleytið þegar lítið snjóflóð féll á veginn. Þá var lögð vinna í að halda veginum opnum á meðan bílastæðið við Bauhaus tæmdist.
Eftir það var veginum lokað og hann svo opnaður á ný fyrir klukkan átta á mánudagsmorgni. Að sögn Jóns Halldórs Halldórssonar, upplýsingafulltrúa framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, þótti ekki ástæða til að halda þessum vegkafla opnum eftir að versluninni var lokað, heldur var settur aukinn kraftur í að halda öðrum leiðum opnum."
> http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/01/15/snjoflod_vid_veginn_ad_bauhaus/
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.3.2014 kl. 10:17
Var nauðsynlegt að fara til Davos til að fá þetta staðfest hjá sérfræðingnum? Hví hringdirðu ekki bara í manninn og fékkst svör við spurningum og fluttir um það sjónvarpsfréttir?
jón (IP-tala skráð) 30.3.2014 kl. 10:40
Í Valhöll sjalla vont og kalt,
vindbarðir í frosti,
taflið nú er tapað allt,
tunglið þar úr osti.
Þorsteinn Briem, 30.3.2014 kl. 11:09
"Var nauðsynlegt að fara til Davos" spyr þessi Jón.
Það hefur án efa verið lærdómsríkt fyrir Ómar að heimsækja "Das WSL-Institut für Schnee- und Lawinenforschung SLF, Davos, Sviss, eitt það besta í heiminum.
Tala við menn, skoða þeirra bækistöðvar etc. Hefur kostað ríkið brotarbrot af þeirri upphæð sem forseta kjáninn eyðir nær árlega í Davos.
En minn ágæti Steini Briem, ekki eyða þínum tíma í orðaskak við fíflið hann Hilmar Hafsteinsson.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 30.3.2014 kl. 11:32
Við vitum vel að símtal við einhvern mann úti í heimi skilar litlu í sjónvarpi. Alger þöggun ríkti varðandi það hvað sérfræðingurinn þar hafði sagt og sögusagnir um annað taldar ósannur hræðsluáróður. Ef fólk fær ekki að sjá þetta almennilega og ef ekki er stunduð alvöru rannsóknarblaðamennska verður árangurinn eftir því.
Meira að segja þótt ég færi til Davos eftir snjóflóðin miklu og sýndi í sjónvarpinu myndir af ýmsum úrræðum Svisslendinga gegn snjóflóðavá í áratugi, sem eru margfalt ódýrari, einfaldari og sum með nánast engum umhverfisáhrifum og útlitsbreytingum á heilu fjöllunum, - jafnvel þótt ég sýndi í sjónvarpi hvernig húsið á Norðureyri við Súgandafjörð stóð af sér snjóflóð þar, virtust íslenskir ráðamenn uppteknir af ást sinni á sem allra stórkarlalegustu og verktakavænustu aðgerðum sem mögulegar voru.
Skrímslið fyrir ofan Bolungarvík er ágætt dæmi. Hægt var að beita einföldum breytingum á húsunum sem þar eru ef menn endilega vildu halda byggðini þétt upp við hlíðina, en þar var líka hægt að nýta nóg landrými á flatlendi til að reisa nýja byggð í staðinn.
En rökin gegn þessu voru þau, að með því að borga fólkinu á hættusvæðinu peninga til þess að það gæti flutt í burtu, væri verið að mismuna íbúum á þann hátt, að þetta fólk fengi frelsi til að flytja úr "átthagafjötrunum" sem landsbyggðarfólk er í vegna óseljanlegra fasteigna !
Ómar Ragnarsson, 30.3.2014 kl. 11:48
Snjóflóðin falla ekki bara í Reykjavík:
(feykir.is | Skagafjörður | 17.3.14 | 9:00)
"Snjóflóð féll á Siglufjarðarveg
Snjóflóð féll á Siglufjarðarveg og er vegurinn því lokaður frá Hrauni í Fljótum að Siglufirði. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni féll flóðið Siglufjarðarmegin við strákagöng, nánar tiltekið á Ströndinni fyrir þá sem til þekkja. Ákveðið hefur verið í samráði við snjóflóðaeftirlitsmann að hefja mokstur.
Samkvæmt Vegagerðinni liggur ekki nákvæmlega fyrir hvenær snjóflóðið féll um er að ræða nokkur flóð. Starfsmaður Vegagerðarinnar hætti við að ryðja veginn þegar hann sá að flóð hafði fallið þar í nótt."
> http://www.feykir.is/archives/81172
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.3.2014 kl. 11:57
Það er rétt. Snjóflóð geta myndast þar sem er ákveðinn halli og ákveðin snjóþekja er til staðar. Miklu skiptir á hve skömmum tíma snjórinn fellur. þ.e. mikil aukning á snjó á stuttum tíma getur aukið verulega flóðahættu.
Jafnframt eru til nokkrar gerðir snjóflóða. Hengjur eru ekkert aðalatriði varðandi tilkomu snjóflóða eins og fólk heldur oft. Frekar ákveðinn halli, mikið snjómagn sem kemur ofan á hallann og það myndast spenna eða óstöðgugleiki með þeim afleiðingum að snjór skríður af stað.
Skiptir líka máli hvort um þurr eða blaut snjóflóð er að ræða. Þetta í Bláfjöllum virkar frekar blautt.
Þurr flóð geta farið hraðar yfir og stundum myndast mikill loftþrýstingur á undan þeim, nokkurskonar höggbylgja, sem rústar eða laskar því sem fyrir er á undan sjálfu snjóflóðinu.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 30.3.2014 kl. 12:40
Ómar hér fyrir ofan skrifa mikklir gáfu menn, svo það er best að segja sem minnst
Eyjólfur G Svavarsson, 30.3.2014 kl. 13:08
Snjóflóðin falla ekki bara í Reykjavík:
"Norðfjarðargöng: Snjóflóð sem hefði getað skemmt mannvirki
(SKRIFAÐ: 25 MARS 2014 HÖFUNDUR: GUNNAR GUNNARSSON)
Kraftmikið snjóflóð féll í Fannardal í nótt rétt við afhafnasvæði Metrostav sem vinnur að gerð nýrra Norðfjarðarganga. Mikil úrkoma virðist hafa komið flóðinu af stað.
Flóðið er af stærðargerðinni 3 en þau flóð geta skemmt hús. Það stöðvaðist um tíu metra frá veginum að gangaopinu."
> http://www.austurfrett.is/frettir/1627-nordhfjardhargoeng-snjoflodh-sem-hefdhi-getadh-skemmt-mannvirki
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.3.2014 kl. 13:53
Ps. og náttúrulega vindátt skiptir máli sem leiðir til skafrennings með eim afleiðingum að snjómagn á svæði aukist á skömmum tíma.
Með halla sérstaklega, að þá geta flekaflóð farið af stað niður í 25 gráðu halla.
Líke er vel þekkt að menn geta komið snjóflóði af stað og sú hætta hefur aukist með auknum ferðalögum að vetrarlagi. Þeir geta skorið snjóþekju o.s.frv.
Snjóflóð fara hinsvegar ekki af stað við hljóð bíla eða vélsleða oþh. sem sumir telja.
Í gamla daga tengdu sumir að snjóflóð við sjávarföll og/eða stórstreymi og vildu meina að meira hætta væri þá. Efa að það haldi vatni vísindalega.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 30.3.2014 kl. 14:12
Nú er sérfræðingurinn svissneski orðinn "einhver maður útí heimi". Okei.
Þú lýstir því sem aðkallandi að fá einn tiltekinn fréttapunkt staðfestan. Ég er þeirrar skoðunar að sú litla fyrirhöfn að taka upp símtólið og kvóta manninn á þessum mikilvægu atriðum hefði verið góður kostur í þeirri þröngu stöðu sem þú varst í. Óþarfi að drepa frétt bara af því maður kemst ekki til útlanda. Sem hefði auðvitað verið best - en ekki í boði á þessum tímapunkti.
Þessu svari er einnig beint að þessum Hauki Kristinssyni og færi ég þessum Hauki þakkir fyrir að þylja upp merkingu skammstafana. Þessi Haukur skal vita það að að er frábært að fara til útlanda og ég hefði helst kosið að Ómar hefði komist.
Jón (IP-tala skráð) 30.3.2014 kl. 16:47
Snjóflóðin falla ekki bara í Reykjavík:
"Snjóflóð féllu í Súðavíkurhlíð
(INNLENT KL 16:48, 26. MARS 2014)
Tvö lítil snjóflóð féllu skömmu eftir klukkan fjögur í Súðavíkurhlíð og er vegurinn þar um lokaður. Að sögn lögreglunnar á Ísafirði var um „tvær litlar spýjur“ að ræða."
> http://www.visir.is/snjoflod-fellu-i-sudavikurhlid/article/2014140329116
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.3.2014 kl. 18:26
Eins og ég heyrði sögusögnina 1994 var Davos-manninum bannað að tjá sig um annað en Seljalandsdal á þeim forsendum að honum væri bara borgað fyrir þá úttekt og ætti ekkert með það að tala um önnur svæði.
Maðurinn var farinn og hafði farið án þess að segja orð um neitt annað en það, sem honum var borgað fyrir. Ég var ekki viss um að hann segði neitt þótt ég reyndi að hafa uppi á honum í símtali, en hefði auðvitað samt átt að reyna.
Hefði samt ekki haft neitt í höndunum af myndum og upplýsingum miðað við það sem ég fékk við að fara sérstaka ferð til Davos.
Þremur árum síðar voru aðstæður breyttar, fallinn fjöldi snjóflóða og hægt að nýta sé það til að fá allt upp á borðið.
En ég endurtek, að tregðan var svo mikil heima, þrátt fyrir öll gögnin sem ég lagði þá á borðið um mismunandi aðferðir til snjóflóðavarna, að flestum þeirra var hafnað samt.
Ómar Ragnarsson, 31.3.2014 kl. 00:15
Því miður er það svo að ótti yfirvalda við að Sveitarfélög tapi aðdráttarafli sínu ef hreinskilnislega er fjallað um hættur sem sveitarfélögum stafar af náttúruhamförum, hefur orðið til þess að einskonar þöggun hefur átt sér stað. Það má vera að þessu sé ekki eins farið í dag eins og var, en ég óttast að það hafi ekki mikið breyst. Annað sem mig langar að benda á er að snjóflóðin í Neskaupstað féllu 1974.
Kristján T. Högnason (IP-tala skráð) 31.3.2014 kl. 15:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.