Eðlileg tilfærsla.

Það skapar ávalt vandamál þegar bílaumboð er með mjög marga bíla á sínum snærum frá framleiðendum, sem berjast á markaðnum með bíla í svipuðum verðflokkum og af svipaðri gerð og stærð.

Þetta hefur ágerst hér á landi eftir Hrunið. Opel_Adam_1.4_Glam_–_Frontansicht,_15._Januar_2014,_Düsseldorf[1]

Einn af þeim bílaframleiðendum, sem hefur haft greinilega minni hlutdeild á íslenskum bílamarkaði síðustu árin en í öðrum Evrópulöndum er hið gróna fyrirtæki Opel.

Hér á síðuna set ég tvær myndir af nýrri gerð Opel, Adam, sem gaman verður að sjá hvort verði flutt til landsins. Opel_Adam_1.4_Glam_–_Heckansicht,_15._Januar_2014,_Düsseldorf[1]

Hjá B og L hefur Opel þurft að keppa við Nissan, Renault, Subaru, BMW og Landrover og öll þessi merki bjóða upp á bíla, sem keppa við Opel í öllum stærðar- og verðflokkum.

Opel hefur allt síðan smábíllinn Opel Kadett sló í gegn rétt fyrir stríð og var síðar framleiddur sem Moskwitch eftir strið, verið einn af þeim "þremur stóru" og síðar "fjóru stóru" í Þýskalandi.

Opel Kadett var merkilegur bíll 1936-40, einkum vegna útlitsins, sem þótti svo flott, að aðrir bílaframleiðendur stældu það, svo sem í Renault Juvaquatre (Hagamús á Íslandi) og fleiri bílum. Opel Kadett 37

Í Þýskalandi var Ford hluti af þeim verksmiðjum á heimsvísu og Opel í eigu GM .  

Þrátt fyrir gott gengi  hafa allar tilraunir Opel í meira en 60 ár til að ná góðri fótfestu í flokki dýrustu bílanna misheppnast og má það merkilegt heita, því að í fyrstu var það aðeins Mercedes Benz sem þurfti að keppa við, en síðan komust BMW og Audi inn á þann markað án þess að Opel tækist það.Opel Record

En Opel hefur oft átt býsna góðu gengi að fagna hér á landi sem erlendis. Opel Record, þó aðallega skutbíls útgerð hans, Opel Caravan urðu mjög vinsælir hér á landi frá og með árinu 1955 en Opel Admiral og öðrum bílum í dýrari verðflokkunum mistókst að ná almennilegri fótfestu.

Nýr Opel Kadett var framlag verksmiðjanna til smábíla á sjöunda áratugnum, og á tíunda áratugnum seldist nokkuð af smábílnum Opel Corsa og af Opel Astra í stærðarflokki, sem kenndur hefur verið við Golf en hér á landi kannski alveg eins við Toyota Corolla.

Opel Corsa var skemmtilega hannaður bíll og réðu konur ferðinni í þeim efnum.  

Fjölnotabíllinn Opel Zafira var tímamótabíll um síðustu aldamót og seldist nokkuð vel hér á landi, en keppinautarnir flýttu sér að teikniborðunum til að koma með samkeppnishæfa bíla.

Síðan þá hefur sól Opel sigið hér á landi, enda þótt boðið sé upp á áhugaverða bíla.

Sá nýjasti er Opel Adam, sem fær nafn sitt af stofnanda verksmiðjanna, spennandi smábíll á milli minnstu bílanna, Toyota Aygo/Peugeot 102/Citroen 1, Kia Picanto, Volkswagen Up!/Skoda Citigo og nýjasta Hyondai i10 og bílanna þar fyrir ofan í Yarisflokknum.

Árum saman var mikil samlegð með verksmiðjum GM í Evrópu, Opel og Vauxhall, en á síðustu árum hefur öll framleiðslan víða um heim verið byggð á sameiginlegum grunnum bíla fyrirtækisins í Ameríku, Evrópu og fleiri heimsálfum.

Þetta á eftir að koma sér vel þegar tvær gerðir, svo ákaflega líkar, eru hjá sama umboðinu í stað þess að vera á boðstólum hjá sitt hvoru umboðinu.

Þannig eru jepplingarnir Chevrolet Captiva og Opel Antara nánast sami bíllinn.  

Innrás Chevrolet inn á markaðinn í Evrópu hefur gengið misvel. Minnsti bíllinn, Chevrolet Spark, seldist vel í Danmörku og fleiri löndum, en keppinautarnir hafa verið fljótir að svara með Kia Picanto, Volkswagen Up!/Skota Citigo og Hyondai i10 og samkeppnin hefur harðnar.

Stærri gerðirnar af Chevrolet hafa átt erfiðara uppdráttar í Evrópu en selst sæmilega vel hér á landi. Nú gæti farið svo að Chevrolet muni draga að sér hendina nema kannski varðandi minnasta bílinn, Chevrolet Spark.

Fyrir GM og Bílabúð Benna er það góð tíðindi að sameina Opel og General Motors umboðin á Íslandi undir einum hatti og nýta vel hve mikið bílar undir þessum merkjum eiga sameiginlegt.

Hinn nýi Opel Adam er til dæmis mjög áhugaverður bíll, og sportgerðirnar af honum og fleiri gerðum af Opel eru spennandi..  

 

 

 


mbl.is Bílabúð Benna tekur við Opel umboðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Man ekki til að Opel hafi verið sérlega góðir. Astran var víst þolanleg uppúr 1992. Annars ekki.

Áströlum ku hafa gengið betur við smíðina, og í seinni tíð, kóreingum.

Opel Chevy er hisnvegar bara of nýtt fyrirbæri til að ég geti tjáð mig um það. Kóreiskt, held ég, svo þá ætti að vera betra en Euro-trashið.

Ásgrímur Hartmannsson, 31.3.2014 kl. 20:38

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er orðið miklu erfiðara en áður að ákveða hvar bílar eru framleiddir. Þannig er japanski bíllinn Suzuki Swift framleiddur í Ungverjalandi og Alto í Indlandi.

Ómar Ragnarsson, 31.3.2014 kl. 20:59

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þýskir bílar eru sem sagt rusl.

"Hvað er það við þýska bíla sem höfða allra bíla mest til bílakaupenda? Bílar eins og Audi, BMW, Mercedes Benz og Porsche.

Þessu tók Fortune blaðið að sér að svara og setur fram tíu helstu ástæður þess."

Af hverju eru þýskir bílar bestir?

Þorsteinn Briem, 31.3.2014 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband