Sóknarfæri og orðspor.

Hlutur Íslendinga í því að nýta vistvæna orku í þróunarlöndunum felur bæði í sér sóknarfæri fyrir okkur og færir okkur gott orðspor. Í fátækum og vanþróuðum löndum fela tiltölulega litlir hlutir í sér byltingu í kjörum fólksins, sem þarna býr, og einnig er þetta þáttur í að sporna gegn of hröðum og miklum breytingum á lofthjúpi jarðar.

Þrjú atriði verður samt að hafa í huga:

1. Segja verður sannleikann um það ef þessar jarðvarmavirkjanir fela í sér rányrkju eins og víðast er hér á landi og helst að forðast svo ágenga nýtingu.

Það á að vera hægt með góðri yfirsýn og gætni í nýtingunni að gera hana sjálfbæra ef á heildina er litið, en því miður skortir mikið á að þetta sé gert hér á landi. Þegar ég spurði um þetta atriði á ráðstefnu Isor í haust var mér svarað út í hött.

2.  Í öðru lagi ættum við að hafa í huga að í löndum eins og Kenía og Eþíópíu verða yfirleitt margfalt minni óafturkræf neikvæð umhverfisspjöll af virkjunum en á hinum eldvirka hluta Íslands, sem er eitt af helstu náttúruundrum veraldar.

3.  Í þriðja lagi er það ósiðlegt af okkur að selja okkar orku á svo lágu gjafverði til erlendra fyrirtækja, að við séum að keppa við örfátækar þjóðir og taka í raun frá þeim þá nýju lífsbjörg sem falist getur í nýtingu nýrrar lífsbjargar í löndum þeirra.


mbl.is Virkja í Kenía fyrir 12 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

19.3.2012:

"Stefán Arnórsson, prófessor við jarðfræðideild Háskóla Íslands, segir fullyrðingar sem stjórnmálamenn vilji gjarnan ýta undir um að jarðvarmi sé endurnýjanleg auðlind ekki standast og í raun sé rennt blint í sjóinn með stærð sumra svæða sem til standi að nýta, svo sem á Hellisheiði."

"Í þessu togast á þrennt, pólitík, hagsmunir og fagmennska," segir Stefán og kveður allt faglegt mat segja að auðlindin sé ekki endurnýjanleg."

Þorsteinn Briem, 9.4.2014 kl. 11:26

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hver voru svörin nákvæmlega hjá ISOR?

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.4.2014 kl. 15:37

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eftir að forseti Íslands hafði á á ráðstefnunni flutt blaðlaust frábærlega vel saman sett og vel flutt erindi um það, hvernig Íslendingar hefðu komist í forystu í heiminum varðandi nýtingu jarðvarmans, var opnað á spurningar til hans og ég spurði:

"Fyrir liggur að eina forsendan sem við gefum okkur varðandi endingu jarðvarmavirkjananna er sú að þær endist í 50 ár og að komið hefur í ljós að um rányrkju er að ræða. Guðni Axelsson og Ólafur Flóvens, forstjóri Ísor, upplýstu í Morgunblaðsgrein að þeir teldu að hægt væri að breyta þessu með því að fara miklu varlegar í nýtinguna, fylgjast náið með afköstum svæðanna og ná jafnvægi með því að minnka nýtinguna þangað til jafnvægi næðist þannig að um sjálfbæra þróun og endurnýjanlega orku væru að ræða. Því spyr ég: Er ekki kominn tími til að við Íslendingar förum að ráðum þeirra og verðum fyrirmynd annarra þjóða í sjálfbærri nýtingu jarðvarmans?

Forsetinn svaraði: 

"Þegar ég var eitt sinn á ferð í Grænlandi sagði danskur landkönnuður við mig: "Indíáninn Sitting bull fékk viðurnefni sitt vegna þess að hann var eini indíánahöfðinginn, sem aldrei vildi gera neina samninga við hvítu mennina og þótti mörgum þetta sérstakt hjá honum. Ég er farinn að hallast að því að þetta hafi verið rétt hjá Sitting bull."

Fleiri svör fengust ekki á þessar ráðstefnu sem stóð í á fimmta klukkutíma. Í kaffihléinu skömmu síðar spurði ég nokkra ráðstefnugesti hvort þeir hefðu skilið þetta svar og sögðust þeir ekki hafa gert það og að svarið hefði að þeirra mati verið út í hött.

Það hefur mér fundist líka.    

Ómar Ragnarsson, 9.4.2014 kl. 18:08

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nú, hélt að einhver á vegum Ísor hefði svarað út í hött.

Ísor stendur fyrir þróun á nýjum aðferðum til að meta jarðhitakerfi. Reynslan er þar veigamikið atriði, eða "Learning by doing" aðferðin. Án hennar er þetta erfitt og umhverfisverndarsamtök standa í vegi fyrir framförum á þessu sviði.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.4.2014 kl. 18:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband