4.3.2007 | 00:09
Ó, AÐ FRAMSÓKN VERÐI GRÆN Á NÝ !
Einkennileg eru þau örlög mín að hafa aðeins einu sinni getað kosið Framsóknarflokkinn eða fylgt honum í þau 57 ár sem liðin eru síðan ég fékk brennandi áhuga á stjórnmálum. Allan tímann hefur samt mér líkað nokkuð vel hvar flokkurinn hefur staðsett sig í litrófi flokkanna, - nálægt miðjunni. Flokkurinn hefur reynt að sía frá helstu öfgar til vinstri og hægri og velja það skásta. Hitta gullinn meðalveg.
Þegar fasismi og kommúnismi riðu samtímis yfir heiminn á fjórða áratug síðustu aldar reyndi Framsóknarflokkurinn að finna farveg til jöfnuðar með Alþýðuflokknum og saman stóðu þessir flokkar að mörgum góðum umbótamálum fyrir alþýðuna.
En allar götur frá 1927 til 1959 barðist flokkurinn fyrir ranglátri og skaðlegri kjördæmaskipan, þannig að engin leið var fyrir mann að játast honum. Og uppfrá 1950 stóð hann fyrir haftakerfi og þjónkun við kaupfélagsveldi sem breyttist smám saman úr umbótahreyfingu í staðnað veldi einokunar í dreifðum byggðum landsins.
Mér hefur gefist kostur á að nota kosningaréttinn í 13 Alþingiskosningum og 12 borgarstjórnarkosningum eða 25 sinnum alls og kosið alls fimm flokka, eða fimm sinnum hvern að meðaltali. Suma þó oftar en aðra.
En aðeins einu sinni kaus ég Framsókn. Það var árið 1974 þegar ég óttaðist að eftir "Varið land" yrði keyrt of hart í það að efla hersetuna. Ég þóttist sjá fyrir samstjórn Sjálfstæðísflokks og Framsóknar og vildi að Framsókn héldi svoítið aftur af Sjálfstæðisflokknum.
Í kosningunum 1978 gat ég ekki kosið Framsókn aftur, en eftir að SÍS-veldið leið undir lok var ég farinn að vona að nú gæti ég loksins átt samleið með Framsókn. En, - æ, þá gerðist flokkurinn tákngervingur stóriðjustefnunnar. Flokkurinn hefur alltaf haft lag á að taka upp eitthvert eitt mál sem hefur gert mig fráhverfan honum.
Þetta finnst mér synd því margt af því sem flokkurinn stendur fyrir eru ágætis mál. Nú hefur til dæmis verið samþykkt á flokksþingi hans ýmislegt sem vert er að gefa gaum s. s. um málefni aldraðra, fæðingarorlof, þjóðlendumál, auðlindarákvæði í stjórnarskrá, breytingar á kosningalögum o. s. frv.
Nú er maður orðinn 66 ára og þeim tækifærum fer að fækka að ég geti kosið Framsókn aftur. Ég á mér samt þann draum að flokkurinn láti af stóriðjustefnunni. Það er ekki útséð um það, - rúmlega helmingur þeirra sem segjast myndu kjósa hann nú segjast vera á móti stækkun álverins í Straumsvík
Mér finnst svolítið leiðinlegt að hafa kosið þennan flokk sjaldnar en aðra flokka og hafa hálfséð eftir því í þetta eina skipti sem ég kaus hann. Og það er ekkert skemmtilegt ef maður neyðist til að fara út í framboð til þess að gefa því ágæta fólki, sem vill að virkjana- og álverafíkninni linni og er ekki úti á vinstri kanti stjórnmálanna, tækifæri til að láta það í ljós í kjörklefanum.
En ef sá draumur minn rætist að allir flokkar á Alþingi verði eðalgrænir er aldrei að vita nema ég muni eftir því að einu sinni þegar ég var ungur var Framsókn græn og þá var Eysteinn Jónsson einhver einlægasti umhverfisverndarsinni landsins. Kannski kemur nýr Eysteinn með nýjan Framsóknarflokk, - hver veit? Flokk sem ég get kosið með góðri samvisku.
Athugasemdir
Er það ekki svolítil einföldun á söguskoðuninni Ómar að Framsóknarflokkurinn hafi staðið fyrir haftastefnunni? Það voru nú held ég efnahagsleg rök fyrir henni á sínum tíma. Þjóðfélagið reis hratt úr öld torfbæjasamfélagsins, sérstaklega eftir seinni heimsstyrjöldina og útflutningur var einhæfur og lítill (gærur og fiskur). Uppbygging var hröð og mikill fólksflótti var úr dreifbýlinu á mölina. Sauðsskinnsskórnir dugðu illa þar og sprenging varð í innflutningi á allskyns neysluvörum og tækjum. Helstu efnahagssérfræðingar landsins komust að þeirri niðurstöðu að ef ekki yrðu sett á innflutningshöft þá færi samfélagið á hausinn. En svo var þetta auðvitað misnotað og allt of lengi haldið í haftastefnuna þegar frá leið og SÍS veldið átti sjálfsagt stóran þátt í því. Þar kemur Framsóknarflokkurinn auðvitað sterkur inn. En ég á erfitt með að sjá lógígina í að refsa Framsókn fyrir það í dag.....löngu fyrnt
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.3.2007 kl. 10:32
Ég er að spá í að vera góður við Framsókn í viku. Það er ljótt að vera vondur við minni máttar, alla vega til skemmri tíma litið.
Steini Briem (IP-tala skráð) 4.3.2007 kl. 14:12
Sæll Ómar
Ágætis söguskoðun. Ég legg til að þú skoðir gaumgæfilega það sem er að gerast í Framsókn þessa dagana, já, flokkurinn er að verða grænni og er það vel. Hinsvegar skulum við ekki gleyma því að við verðum ávallt að hafa jafnvægi í hlutunum, þannig að það er nauðsynlegt að á þingi séu bæði stuðningsmenn frjálshyggju og félagshyggju því að ef ekki hefði verið stutt jafn vel við atvinnulífið og gert hefur verið síðasta áratuginn að þá værum við svo sannarlega ekki í jafn gríðarlega öfundsverðum sporum og við erum.
Varðandi það að Framsókn lofi á fjögurra ára fresti þá vísa ég því til föðurhúsanna Guðlaugur. Ég legg til að þú skoðir kosningastefnuskrá Framsóknar fyrir síðustu kostningar og hakir við það sem framkvæmt hefur verið, það er nánast allt. Það eina sem er öncool í þessu landi eru bjánar eins og þú sem hafið þá flugu í höfðinu að Framsókn sé upphaf alls þess illa í heiminum þegar staðreyndin er sú að við fremst á svo mörgum sviðum að aðrar þjóðir öfunda okkur.
Ómar, ég vona að þú fylgist með okkur, sérstaklega þann 27-28 mars.
Kv.
Snæþór S. Halldórsson
Snæþór S. Halldórsson (IP-tala skráð) 4.3.2007 kl. 17:14
Sæll Ómar.Sjálfur er ég gamall framsóknarmaður að norðan þó sé ekki nema rúmlega 40 vetra,ég hef reyndar alltaf kosið framsókn,nema í eitt sinn og það var síðast vegna stríðsins í Írak gamla Babilon,því ég er alfarið á móti hernaði þjóðanna. Og auðvitað hef ég aldrei kosið valdníðsluflokkinn Sjáfstæðis.
Mig langar að benda ykkur öllum á merkingu Samfylkingin,í mínum huga er það fylking fólks allsstaðar í pólitík sem ber hag mannsins fyrir brjósti,mikið leiðist orðið allur þessi klofningur sem er að brjótast fram nú sem svo oft áður,ég veit ekki betur en það hafi gengið vel með borgina þegar allir voru saman,og sjálfstæðisflokkur einn á móti,reyndar með frjálslyndum.Ég stið nú Samfylkinguna og vona auðvitað að við förum nú í vor í átt til manngildis og ég óska ykkur öllum velfarnaðar og að náttuvernd og bræðralag muni verða ofaná að þessu sinni.
Virðingafyllst Úlfar B Aspar.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 5.3.2007 kl. 06:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.