12.4.2014 | 19:14
Athyglisverð flugatvik 2005. "Draugaflugvélin".
Tvö athyglisverð flugatvik urðu í ágúst 2005, sem koma upp í hugann í sambandi við dularfullt hvarf malasískku þotunnar.
1. ágúst 2005 var malasísk þota af sömu gerð, Boeing 777 að klifra líkt og gerðist um daginn, þegar bilun í tölvu olli því að sjálfstýring vélarinnar fór að klifra henni á fullu.
Sem betur fór var hægt að slökkva á sjálfstýringunni og handfljúga vélinni, en það er býsna krefjandi í mikilli hæð.
Enn athyglisverðara er flugslys sem gengur undir nafninu "Draugaflugvélin" og gerðist 14. ágúst 2005.
Nánar tiltekið var heiti vélarinnar hjá flugfélaginu "Helios 522". Hún var af gerðinni Boeing 737 og var á leið til Aþenu.
Þessi þota flaug með áhöfnina og farþegana meðvitundarlausa í þrjár klukkustundir þangað til hún varð eldsneytislaus og hrapaði til jarðar í fjallendi nálægt Aþenu.
Ef þotan hefði flogið út yfir haf og farist þar án þess að finnast hefði orsök slyssins aldrei verði upplýst.
En í ljós kom að algert smáatriði hafði hrundið af stað atburðarás sem olli stórslysi.
Flugvirkjar, höfðu verið fengnir til að athuga hvort afturdyrnar væru þéttar, en til þess þurftu þeir að svissa takka sem stjórnaði loftþrýstijöfnunarkerfinu af "auto" á "manual."
Eftir þessa athugun, slógu þeir takkanum aftur til baka.
Það olli því að þegar þotan var komin í ellefu þúsund feta hæð, kviknaði aðvörunarljós í flugstjórnarklefanum, en vegna mikillar birtu þar er ljóst að flugstjóranrir sáu það ekki.
Skömmu síðar féllu súrefnisgrímur niður yfir farþegana, en flugstjórarnir tóku ekki eftir því vegna þess að samtímis heyrðist aðvörunarhringing frammi í klefanum sem gat táknað fleira en það að ekki væri nóg súrefni í flugvélinni.
Flugþjónarnir biðu í fyrstu rólegir en súrefnisbirgðir fyrir farþega endast aðeins í 12-15 mínútur og þegar sá tími var liðinn leið yfir þá.
Vaxandi súrefnisskortur er afar lúmskur einkum vegna þess að skynjun og dómgreind brenglast.
Þegar flugstjórinn áttaði sig loks á því súrefnismissinum var það of seint því að hann örmagnaðist og hné niður í dyrunum.
Einn flugþjóninninn áttaði sig um síðir og náði í súrefniskút, en var svo aðframkominn og ruglaður að hann komst ekki til þess að taka stjórn þotunnar í sínar hendur, enda ómögulegt nema með utanaðkomandi leiðbeiningum.
Um síðir komust orrustuþotur upp að þotunni, og þá tókst þjóninum að staulast í flugstjórasætið og stynja upp ofurveiku neyðarkalli en leið síðan út af.
Skömmu síðar varð þotan eldsneytislaus og fórst.
Oftast verður lærdómur af svona slysum en það byggist á því að flakið og orsök slyssins finnist.
Meðan malasíska þotan finnst ekki verða örlög hennar óráðin gáta.
En atvikið varðandi "Draugaflugvélina" vekur óneitanlega upp spurningar um hvort sú malasíska hafi verið slík flugvél þar til hún fórst í hafi.
Reyndi að hringja í miðju flugi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er langlíklegast að eitthvað í stíl við þetta hafi gerst. Þessir flugmenn voru engir terroristar.
Vilhjálmur Eyþórsson, 12.4.2014 kl. 19:28
Þetta símtalsmál er borið til baka af malaysískum yfirvöldum. Þeir segjast ekkert hafa heyrt af þessu.
Að öðru leiti um hvernig umræðan hefur þróast að hluta til um hvarfið, að þá segir sína sögu að Bandaríkin þurftu að neita því opinberlega bara í dag að vélin hefði lent á eyjunni Diego Garcia.
http://www.mirror.co.uk/news/world-news/mh370-diego-garcia-united-states-3402879
Þetta er með ólíkindum. jú jú, að vísu sendiráð BNA í Kula Lumpur - en í raun bara Bandarísk stjórnvöld á bakvið sendirráðið náttúrulega.
Með súrefnisleysi og hvað það getur verið lúmskt, þá ættu íslendingar vel að þekkja það því hörmuleg slýs hafa orðið vegna súrefnisleysis á Íslandi þegar menn fara inní afmörkuð rými eða rými með takmörkuðu súefni.
Getur alveg komið upp sú staða að menn finni aldrei neitt en sofni bara eða líði útaf.
En maður skildi ætla að viðvörunarkerfi væri öflugt í vélum sem þessum.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 12.4.2014 kl. 20:04
Það var viðvörunarkerfi í "Draugaflugvélinni" en samt gerðist þetta magnaða atvik.
Ómar Ragnarsson, 12.4.2014 kl. 22:15
Er kannski skýringuna að finn hér;
http://www.wired.com/2014/03/mh370-electrical-fire/
Kjartan (IP-tala skráð) 13.4.2014 kl. 01:04
Það hefur ítrekað komið fram að flugvélin breytti margöft um stefnu og flughæð eftir að hún "hvarf". Því til viðbótar þá slökknaði á þeim senditækjum sem mannleg hönd getur slökkt á(transponder/acars) en ekki þeim sem eru ósnertanleg(acars ping-ið).
Líklegasta skýringin er að flugstjórinn, sem eiginkonan hafði flutt út frá deginum áður, hafi læst flugmanninn úti og ætlað að fremja sjálfsmorð á stað þar sem vélin myndi aldrei finnast.
Karl (IP-tala skráð) 13.4.2014 kl. 08:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.