15.4.2014 | 17:00
Risamannvirkjafíknin lifði Hrunið af.
Glöggur erlendur maður kom til Íslands árið fyrir Hrun, taldi byggingarkranana og spáði Hruninu.
Það var hlegið að honum og öðrum sem efuðust um dýrð risamannvirkjadýrkunarinnar.
Þeir voru ýmist taldir kverúlantar eða öfundsjúkir útlendingar og einn þeirra, sem taka hefði átt mark á vegna reynslu hans og þekkingar, var talinn þurfa að fara í endurhæfingu.
"Hálvitinn" stóri turninn við Höfðatorg, sem meðal annars eyðilagði notin af vitanum í Sjómannaskólanum, er eitt af minnismerkjunum um Hrunið og aðdraganda þess.
Nú kemur í ljós að risamannvirkjafíknin hefur lifað Hrunið af og jafnvel gott betur, og kannski væri gaman að fá aftur til landsins manninn, sem taldi byggingarkranana fyrir Hrunið til að kasta tölu á nýju kranana, svo að við getum aftur haft einhvern, sem "þarf að fara í endurhæfingu" eða er "alger vitleysingur" eða "öfundsjúkur útlendingur".
Ekki aðeins á að reisa turn við Skúlagötu þar sem fermetrinn kostar milljón, heldur er heil nefnd í starfi við að leggja drög að byggingu nýs flugvallar í Reykjavík upp á marga tugi milljarða.
Auðvitað verður enginn peningur til þess á sama tíma og við stefnum inn á brún þjóðargjaldþrots að nýju árið 2016 vegna stórfelldra afborgana af lánum okkar.
Líka er gælt við lagningu risasæstrengs til Evrópu til að selja þangað rafmagn á þeim tíma árs, sem minnst er þörf fyrir það þar og verðið því lægst.
Jafnframt er haldið áfram að þrýsta á um risaálver í Helguvík sem þarf alla orku hálfs landsins með ómældum náttúruspjöllum og ríkisstjórnin meira að segja "einróma í því að reisa álver í Helguvík."
Bætt er við meira en 20 nýjum virkjanahugmyndum til að fylla upp í þá draumsýn að meira en 120 virkjanir verði í landinu þegar upp verður staðið og íslenskum náttúruverðmætum endanlega rutt í burtu til að rýma fyrir draumsýnina "Ísland, örum skorið."
Ekki of seint að breyta háhýsinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nú ber skuggahverfið orðið nafn með rentu, þar skín nú aldrei sól vegna háhýsanna og kaldur vindurinn af hafinu blæs þarna á milli háhýsanna og viðheldur kælingunni.
Mikið svakalega verður þetta ljótt þegar upp verður komið. Skil ekki að nokkur vilji búa í þessum kumböldum.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 15.4.2014 kl. 17:27
Það ganga af því sögur að flestar íbúðirnar séu seldar nú þegar.
Risamannvirkjafíknin lifði nefnilega hrunið af.
Árni Gunnarsson, 15.4.2014 kl. 18:23
Arkitektar í pissukeppni? Eða verktakar?
Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 15.4.2014 kl. 20:17
Það væri nú harla einkennilegt ef ekkert mætti byggja hér á Íslandi og ég man ekki betur en að Ómar Ragnarsson hafi búið í háhýsi.
Þorsteinn Briem, 15.4.2014 kl. 20:51
Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands fjölgar þeim sem búa hér á Íslandi um 16 þúsund, eða 5%, á 5 árum frá 1. janúar 2013 en þá bjuggu hér um 322 þúsund manns.
Um 64% Íslendinga búa á höfuðborgarsvæðinu, frá Kjalarnesi til Hafnarfjarðar, og 64% af 16 þúsund eru 10.240 manns.
Og 10.240 manns á höfuðborgarsvæðinu búa í 3.400 íbúðum, miðað við að þrír búi að meðaltali í hverri íbúð, eins og í Hafnarfirði árið 2006.
Um 205.700 manns bjuggu á höfuðborgarsvæðinu 1. janúar 2013 og þar af 120 þúsund í Reykjavík, eða 58% af þeim sem þar búa.
Og 58% af 3.400 eru um tvö þúsund íbúðir í Reykjavík.
Lítið hefur hins vegar verið byggt af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu frá haustinu 2008 en íbúum þar fjölgaði um 4.500 á árunum 2009-2012.
Þeir íbúar þurfa um 1.500 íbúðir, sem bætast við ofangreindar 3.400 íbúðir á árunum 2013-2017, eða samtals 4.900 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu.
Og 58% af 4.900 íbúðum eru um 2.840 íbúðir í Reykjavík, jafn margar öllum íbúðum í 107 Reykjavík, Vesturbæ sunnan Hringbrautar.
Þorsteinn Briem, 15.4.2014 kl. 20:54
Kostnaður við flugvöll á Hólmsheiði var áætlaður árið 2006 um tíu milljarðar króna, eða 16 milljarðar króna á núvirði.
Og þennan kostnað gæti ríkið fengið greiddan að fullu og miklu meira til með sölu til Reykjavíkurborgar á því landi sem ríkið á nú undir austur-vestur braut flugvallarins á Vatnsmýrarsvæðinu en þar nægir ekki ein flugbraut.
"Kauptilboð vegna lóða sunnan Sléttuvegar í Fossvogi voru opnuð eftir að tilboðsfrestur rann út að viðstöddum áhugasömum bjóðendum.
Samtals bárust 1.609 tilboð frá 167 bjóðendum.
Hæsta tilboð í byggingarétt á lóð fyrir fjölbýlishús með 28 íbúðum var 369,6 milljónir króna.
Hæsta tilboð í byggingarétt tvíbýlishúss var 42,3 milljónir króna og hæsta tilboð í byggingarétt keðjuhúss (pr. íbúð) var 34,070 milljónir króna."
Þorsteinn Briem, 15.4.2014 kl. 21:20
Ekki held ég að Þorvaldur Gylfason prófessor á Lindargötu 33, Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra á Lindargötu 35 og Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur á Vatnsstíg 21 séu milljónamæringar, enda þótt þeir séu ekki fátæklingar.
Og varla nokkuð athugavert við það að einhverjir greiði eina milljón króna fyrir fermetrann eða fersentímetrann í íbúð í Reykjavík eða annars staðar í veröldinni.
Þorsteinn Briem, 15.4.2014 kl. 21:34
Ég hef aldrei haldið því fram að "ekkert mætti byggja á Íslandi." Háhýsið að Austurbrún 2 varpaði ekki skugga á neina byggð eða fjölfarna götu, af því að svæðið fyrir norðan blokkina er autt.
Athyglisvert er að sjá áhrif þeirra húsa við suðurhlið Laugavegar sem eru há. Þau varpa skugga á gangstéttina norðan megin og gera götuna kalda.
Heilmikil átök urðu um það að varðveita húsin að Laugavegi 5 og 7 sem voru kölluð "kofaræksni sem þyrfti að rífa".
Húsin voru varðveitt og eru til prýði. En mesta gagnið af þeim er það, að á gangstéttinni á mót skín sól og þar vill fólk vera og setjast jafnvel niður á stóla.
Sama hefur gerst á Austurvelli þar sem krökkt er af fólki sem situr úti á sumrin af því að sólar nýtur.
Ómar Ragnarsson, 16.4.2014 kl. 20:25
Ég hef ekkert á móti því að fólk fái að búa við þau skilyrði og í þeim húsum sem það kýs sér og hefur efni á. En það er ekki sama hvar háar blokkir og turnar standa og bygging þeirra í gamla miðbænum hefur ekki laðað að sér barnafjölskyldur og skapað fjölbreytt líf eins og til stóð að gera.
Ómar Ragnarsson, 16.4.2014 kl. 20:29
Ekki veit ég til þess að undirritaður hafi mært háhýsi í miðbæ Reykjavíkur, heldur þveröfugt.
Þorsteinn Briem, 16.4.2014 kl. 21:32
Ætli flestallir vilji nú ekki halda í eitthvað af bílunum, sem nú eru kallaðir fornbílar, sama hversu merkilegir eða ómerkilegir þeir þóttu í upphafi, og það kosti peninga að gera þá upp?!
Hér á Íslandi er nóg landrými, þrír íbúar á hvern ferkílómetra. Samt rembast menn eins og rjúpan við staurinn við að búa hér til meira land, bæði í Reykjavík og Kópavogi, trúlega vegna þess að þeim finnst þessi bæjarfélög vera asnaleg í laginu, sumsé aflöng í staðinn fyrir að vera kringlótt eins og öll bæjarfélög í heiminum eiga trúlega að vera.
Í miðbænum í Reykjavík er hins vegar nú þegar fjöldi hótela og um eitt hundrað veitingastaðir, sem moka inn gjaldeyri frá erlendum ferðamönnum árið um kring, svo og til að mynda skartgripa-, fata- og bókabúðir.
Í 101 Reykjavík eru einnig útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin Grandi og Fiskkaup, svo og tölvuleikjafyrirtækið CCP með sinn landburð af erlendum gjaldeyri í hverjum mánuði, jafnvirði um 600 milljóna íslenskra króna.
Ekkert póstnúmer á landinu aflar því eins mikils gjaldeyris og 101 Reykjavík, þrátt fyrir sína almennt frekar lágreistu byggð, og þar eru um 630 fyrirtæki, sem er svipaður fjöldi og í öllum Hafnarfirði og öllum Reykjanesbæ.
Vilji menn reisa hér svo stórar hallir að enginn komist yfir þær nema fuglinn ljúgandi geta þeir gert það í Laugarnesinu, þar sem nú stendur hús Hrafns Gunnlaugssonar, reist eitt háhýsi í hverju bæjarfélagi, sem rúma myndi alla íbúana og hækkað það jafnóðum og íbúunum fjölgaði.
Steini Briem, 20.10.2010 kl. 11:28
Þorsteinn Briem, 16.4.2014 kl. 21:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.