20.4.2014 | 00:29
Bauð ástandið á Íslandi upp á þetta?
Arkitektinnn á bak við ólöglegar pyndingaraðferðir sem CIA notaði í kjölfar árasarinnar á Tvíburaturnana og Pentagon 11. september 2001 réttlætir þær nú með því að vísa til þess að ástandið í landinu, hugarfar ráðamanna og almennings, hafi ekki aðeins boðið upp á notkun þeirra, heldur beinlínis krafist þeirra.
Það eina sem vantar í þessa vörn er það sem sumir segja enn hér á landi þegar reynt er að réttlæta meðferðina á sakborningunum í Geirfinnsmálinu: "Þetta voru svosem engir kórdrengir".
En þessum tveimur málum svipar mjög saman. ´
Á tímum mannshvarfanna á árunum 1973-75, sem voru fleiri en hvörf Guðmundar og Geirfinns, reis vaxandi óánægjualda almennings og fjölmiðla með það hve illa lögreglunni gengi að upplýsa þau.
Ofan á þetta bættist óvenjulega mikill órói í þjóðfélaginu í kjölfar þess að uppreisnargjarnar og jafnvel byltingarkenndar hugmyndir hippabyltingarinnar bárust til landsins, til dæmis áður óþekkt útbreiðsla á neyslu nýrra vímu- og fíkniefna með tilheyrandi vandamálum.
Þetta voru ár óvenjulegra umbrota í þjóðlífinu, og þarf ekki annað en að skoða stórfelldar breytingar á fatatísku og tónlist til að sjá merki um þau. Lítið dæmi um áhrifin á ytra borði var það að á aðeins örfáum árum var þéringum algerlega útrýmt.
Þau öfl í þjóðfélaginu sem höfðu komið sér vel fyrir og vildu öryggi og óbreytt ástand, voru uggandi og kröfðust viðbragða gegn lausung og uppivöðslu nýrra þjóðfélagsafla, sem sagt var að væru að sumu leyti í slagtogi við glæpalýð og undirheima landsins og jafnvel skuggalegra anga stjórnmálaaflanna.
Miklar tröllasögur gengu um ískyggilegstu fyrirbrigði. Nýtilkomin samkeppni á fjölmiðlasviðinu um krassandi stórfyrirsagnir ýtti undir þær. ´
Í þessu andrúmslofti skapaðist andrúmsloft nornaveiða, kannski ekki svo mjög ólíkt galdrafárinu á 17. öld og í þeirri herferð gegn hryðjuverkamönnum, sem mestu herveldi heims hófu á fyrsta áratug þessarar aldar.
Að minnsta kosti var í öllum þremur tilfellunum uppi krafan um að finna hina seku og refsa þeim hart.
Aðferðirnar sem nota þyrfti til að ná árangri, skiptu ekki öllu máli. Tilgangurinn helgaði meðalið og í öllum þessum herferðum áttu hinir sakfelldu ekkert gott skilið, "þetta voru engir kórdrengir".
Nú eru Bandaríkjamenn að reyna að ná áttum í þessu efni, en okkur Íslendingum hefur gengið seint að gera upp málin frá áttunda áratugnum.
Því hefur sést haldið fram á netinu að það þjóni engum tilgangi að vera með uppgjör við fortíðina.
En þá er grunnt hugsað, því að ef við lærum ekki af sögunni og gerum upp við hana, getur hún endurtekið sig.
Heilinn á bak við pyntingar tjáir sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Karl Schütz kom hingað til lands fyrir nokkrum vikum að ósk ríkisstjórnarinnar í þeim tilgangi að veita aðstoð við rannsókn Geirfinnsmálsins og Guðmundarmálsins."
Alþýðublaðið 15.9.1976
Ráðuneyti Geirs Hallgrímssonar 1974-1978
Þorsteinn Briem, 20.4.2014 kl. 03:33
Karl Schütz var að eigin sögn sérfræðingur í að "vernda æðstu ráðamenn Sambandslýðveldisins og upplýsa mál sem vörðuðu öryggi ríkisins".
Þegar hann var farinn af landi brott lýsti hann því yfir í viðtali við þýskt síðdegisblað að meðferð gæsluvarðhaldsfanganna hafi minnt sig á blómatíð nasismans í Þýskalandi og að hlutdeild hans í málinu hafi bjargað íslensku ríkisstjórninni."
Hliðverðir dómsmorðs? - Greinasafn Sigurfreys
Þorsteinn Briem, 20.4.2014 kl. 03:36
Er Karl Schutz fyrirmyndin af fyrsta íslenska skýrslufræðingnum? Skírskotun Steina Briem í Alþýðublaðið 1976. Ekki gamansaga en raunveruleg mynd sem birtist hinum þýska lögreglumanni. "Engar myndbirtingar"
Geirfinns og Guðmundarmálið er og verður tákn um umkomuleysi og smæð íslenska samfélagsins. Tákn um embættismannastétt sem telur að hún eigi að vera hin alsjáandi augu regluveldisins.
Sigurður Antonsson, 20.4.2014 kl. 09:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.