24.4.2014 | 00:51
Birnirnir, Boeing B-52 og Boeing 747, ódrepandi jálkar.
Hún virkar gamalkunnug, myndin af Tupolev 95 sprengjuflugvélinni, sem fylgir frétt um flug slíkra véla rétt utan við lofthelgi Bretlands. Þessir jálkar eru búnir að vera eitt af táknum Kalda stríðsins síðan fyrir hálfri öld.
Allt fram yfir miðja síðustu öld urðu griðarlegar og hraðar framfarir í gerð sprengjuflugvéla. Á tímabili úreltust þær á nokkurra ára fresti.
Þannig héldu Þjóðverjar á árunum 1936-38 að Heinkel He-111, Dornier Do-17 og Junkers Ju-88 væri svo hraðfleygar að þær gætu flogið orrustuflugvélar af sér.
Annað kom í ljós í orrustunni um Bretland sumarið 1940 þegar Supermarine Spitfire lék sér að því að fljúga þýsku sprengjuflugvélarnar uppi og Hurricane skaut raunar niður fleiri vélar heldur en Spitfire skaut niður.
Nauðsynlegt varð fyrir Þjóðverja að senda orrustuflugvélar til að verja sprengjuflugvélar sínar og berjast við Spitfire og Hurricane.
Svipað gerðist, en bara með öfugum formerkjum með sprengjuflugvélar Bandamanna gagnvart orrustuflugvélum Þjóðverja, Messershmitt Me-109 og Focke-Wulf Fw 190.
Gagnstætt því sem margir héldu þegar Bandaríkjamenn sendu B-17 "fljúgandi virkin" í árásarferðir á Þýskaland, að árangurinn væri mikill, lét árangurinn á sér standa allt fram til haustsins 1943, þegar loksins var komin til skjalanna North American P-51 Mustang, fyrsta orrustuvélin sem galt fylgt sprengjuflugvélum alla leið til Berlínar.
Hermt er að Hermann Göring hafi fölnað þegar þessar snilldarflugvélar sáust í fyrsta sinn yfir Berlín og gert sér grein fyrir þeirri ógn sem tilvist þeirra táknaði.
Til eru þeir, sem telja að Mustanginn hafi verið besta orrustuflugvél allra tíma miðað við aðrar samtíðarvélar. Það voru til liprari samtíma orrustuvélar eins og Yak 3 og kraftmeiri flugvélar eins og Thunderbolt, en fjölhæfni P-51 var einstök hvað snerti það hve langfleyg hún var, jafnframt því að vera hraðfleyg og hve miklu minna hreyfilafl og eldsneyti hún þurfti en aðrar vélar, miðað við getu, en þetta gerði rekstur hennar afar hagkvæman.
Þegar þotuöldin gekk í garð vaknaði gamalkunnur draumur um að hanna sprengjuþotur sem gætu flogið svo hátt og hratt að orrustuþotur gætu ekki ógnað þeim.
Bandaríkjamenn hönnuðu átta hreyfla þotuna B-52 og Sovétmenn Tupolev 95, "Björninn", sem var og er reyndar skrúfuþota en flýgur samt næstum því jafn hratt og B-52.
Þegar í ljós kom að bæði Rússar og Bandaríkjamenn áttu auðvelt með að smíða orrustuþotur, sem gætu haft við B-52 og Birninum var leitað að þeirri lausn að smíða enn stærri, öflugri, hraðfleygari og háfleygari sprengjuflugvélar og var Valkyrie þota Bandaríkjamanna á sjöunda áratugnum gott dæmi um slíka hljóðfráa stóra sprengjuþotu.
En í ljós kom að þessar "framtíðarsprengjuþotur" voru alltof dýra. Aftur og aftur var "kynslóðaskiptunum" frestað og smám saman kom upp úr dúrnum, að skást væri að halda endurbættum B-52 og Birninum gangandi áfram, en þróa frekar öflugar og hraðskreiðar orrustuþotur, sem fljótlega urðu hvort eð var blanda af smærri sprengjuþotum og orrustuþotum.
Þess vegna er gömlu jálkarnir enn í notkun 60 árum eftir að þær voru hannaðar og sést ekki enn fyrir endann á þjónustu þeirra. Ævinlega er kynslóðaskiptunum frestað.
Það er einnig athyglisvert að Boeing 747 breiðþotan, skuli enn vera samkeppnishæf í flokki stærstu farþegaþotnanna, nærri hálfri öld eftir að hún kom fyrst fram.
Hún var sannkallað risastökk fram á við þegar hún kom fram og undra vel heppnað risastökk þar að auki.
Höfðu afskipti af rússneskum herflugvélum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
16.3.2013:
"Birnirnir voru helstu sprengjuflugvélar Sovétríkjanna, sífellt á ferðinni meðfram landamærum hins mikla ríkis og báru iðulega kjarnorkuvopn.
Og sjálfsagt hafa kjarnorkuvopn stundum verið með í för þegar Björninn brá sér út á Atlantshaf til að sveima í kringum landið."
Var treyst fyrir atómbombum Sovétríkjanna en afgreiðir nú á McDonald's
Þorsteinn Briem, 24.4.2014 kl. 01:11
Einn helsti gallinn við Björninn er, hvað skrúfurar átta, sem snúast hvor á móti annarri, eru háværar. Hávaðinn er slíkur, að kjarnorkukafbátar Bandaríkjamanna, staðsettir djúpt í Suður- Atlantshafi heyrðu ágætlega í þeim í tækjum sínum, þar sem þær flugu hér nálægt Íslandi.
Vilhjálmur Eyþórsson, 24.4.2014 kl. 01:19
Eitt skemmtilegasta atriðið sem fylgdi Kalda stríðinu voru hleranir sovésku kafbátanna allt upp undir landsteina á Íslandi. Fyrir bragðið fylgdust áhafnirnar vel með tónlistinni, sem leikin var í Kananum og á íslensku útvarpsstöðvunum og kunnu mörg íslensku lögin utanað !
Ómar Ragnarsson, 24.4.2014 kl. 22:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.