60 ára pennavinátta grunsamlegt mál ?

Tengd frétt um sendibréf frá því fyrir 102 árum leiðir huga minn að bréfi, sem ég fékk frá Íslendingi í Bandaríkjunum í gær. Ég vil benda á að í lok þessa pistils eru nýjar upplýsingar sem ég tel að séu merkilegri en þetta mál mitt.

En áfram með bréfið sem ég fékk. Það er einkabréf þar sem bréfritari segir mér frá bílaáhuga sínum og bílum sem hann á. Erfitt er að sjá hvað geti verið hættulegt við það, en þegar ég fór að handleika bréfið sá ég, að á vegum Tollstjóra hafði það verið rifið upp og innihald þess kannað.

Ekki veit ég heldur hvort sá sem var að hnýsast í bréfið var hrifinn af fyrrgreindu yfirliti þess.  

Límdur hafðii yfir hinn opna enda bréfsins með svohljóðandi áletrun:

OPNAРVEGNA TOLLEFTIRLITS.

Opened for Customs Inpection.

Tollvörður/Customs Officer nr......................

Ég áttaði mig ekki alveg strax á eðli málsins, og eins og sést á meðfylgjandi myndum af umslaginu á facebook-síðu minni, rifnaði límdi miðinn í sundur við það að ég reif hann af umslaginu.

Í bókinni "Manga með svartan vanga - sagan öll" greinir frá sendibréfi sem mér áskotnaðist við ritun bókarinnar í fyrra. Bréfið sendir Ásdís Jónsdóttir, skáldkona frá Rugludal fyrir nærri öld til vinkonu sinnar í nokkurra bæja fjarlægð. Ásdís harmar að hafa ekki getað farið til hennar lengi því að hún vildi gjarna tala við hana um ýmislegt í trúnaði, sem hún þori ekki að segja frá í bréfinu, "því að það gæti verið hnýst í það", eins og hún orðar það.

Ég varð hugsi við að sjá þessi orð í bréfinu sem dæmi um það hvernig lítilmagnar þessa tíma óttuðust mannréttindabrot gegn sér. En jafnframt feginn yfir því að þetta væri löngu liðin tíð.

En nú sé ég að ég get sett annað og alveg nýtt bréf niður við hliðina á bréfi Ásdísar. Kannski geta fleiri gert það á okkar tímum.

Á límmiða Tollstjóra er ekkert getið um tilefni þess að rjúfa persónuleynd á mér né heldur þess getið númer hvað tilgreindur tollvörður er.

Mér er ekki kunnugt um nokkuð minnsta tilefni til þess að þetta sé gert.

Mér var heldur ekki kunnugt um nokkurt minnsta tilefni til þess að allt benti til þess síðsumars árið 2005 að sími minn væri hleraður.

Og heldur ekki nokkrum árum fyrr hvers vegna æfa þyrfti beitingu stórtækustu vígtóla mesta herveldis heims á hálendi landsins til að takast á við mestu hryðjuverkaógn, sem steðjaði að Íslandi: Umhverfis- og náttúruverndarfólki á hálendi Íslands.

Nú sýnist mér að hægt sé bæta persónulegum sendibréfum við, að minnsta kosti ef þau fara yfir landamæri Íslands.

Veit að vísu ekki um einka tölvupóst eða póst á facebook, en get svo sem vel ímyndað mér að verið sé að hnýsast í hann.

Og úr því að komið hefur í ljós að Angela Merkel og aðrir leiðtogar ríkja hafa verið hleraðir sundur og saman getur maður kannski verið ánægður með að vera í góðum félagsskap.   

Vil bara upplýsa þetta nú svo að þeir, sem senda mér sendibréf frá útlöndum eða eru í póst- eða fjarskiptasambandi við mig, viti um það.

Meðan engar upplýsingar eru gefnar um ástæður eða eðli opnunar bréfsins er allt galopið um það.

Aðalatriðið er það að þetta vekur spurningar um það, hvernig sé almennt farið, sem ég tel að upplýsingalög leyfi að séu settar fram og að þeim verði svarað:

Hvers vegna er þetta gert?

Hve oft er þetta gert, sjaldan eða afar oft?

Er það gert af handahófi eða er eitthvert úrval?

Er þetta frekar gert við bréf frá sumum ríkjum en öðrum?

Er þetta gert við bréf milli staða innanlands?  

Talin hefur verið ástæða til að upplýsa um símhleranir, sem dómarar leyfa. Er engin ástæða til að upplýsa um umfang þessa líka?

Er ekki eðlilegt að númer viðkomandi tollþjóns sé gefið upp, svo að viðtakandinn eða sendandinn geti snúið sér beint til hans og beðið um skýringar?

Í Leifsstöð er farangur opnaður að eigandanum viðstöddum. Af hverju er það ekki gert um póst?  

Hvaða álit hefur persónuvernd á þessu? Hefur hún vitað um þetta eða hefur hún áhuga á þessu?    

P. S.  Nú hefur verið upplýst á visir.is að reglur um tollaeftirlit gefi tollþjónustunni heimild til að opna póstböggla. Ekkert er þar minnst á venjuleg sendibréf.  

P.S. númer 2.  Í athugasemd við þennan pistil upplýsir Geir Guðmundsson að öldruð móðir hans hafi verið í bréfaskiptum við konu erlendis í 60 ár og að bréfin til hennar séu reglulega opnuð án þess að nokkur skýring sé gefin á því. Hún sé þó látin vita um númer tollþjónsins en það er allt og sumt. Mér sýnist mál gömlu konunnar vera orðið mun merkilegra en þetta eina tilfelli hjá mér.    

 


mbl.is Síðasta bréfið frá Titanic selt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Þetta er grafalvarlegt mál og mér finnst ástæða til að krefja Tollinn svara. Vilji þeir ekki tjá sig, fá lögfræðing til að skoða málið.

Okkur er sagt að voðaleg ógn steðji úr öllum áttum og að yfirvöld verði að vera á varðbergi, en persónunjósnir eru komnar út fyrir alla skynsemi.

Það er ekkert leyndarmál að rafpóstur (email), Google, Facebook og fleira er hlerað. Flest fer þetta gegn um Bandaríkin og þarlendar leyniþjónustur vista gögn og skanna eftir orðum og orðasamböndum sem eru þeim ekki þóknanleg.

Ef tollayfirvöld hafa rökstuddan grun um að þú, eða bréfsendandinn, sért stórhættulegur glæpa- eða hryðjuverkamaður, skil ég bréfaopnunina. En þá hlýtur tollstjórinn að gera skýrt sitt mál.

Villi Asgeirsson, 26.4.2014 kl. 20:35

3 identicon

Ég er sammála Villa um að krefja Tollinn svara, þó það beri eflaust lítinn árangur. Þeir opna oft böggla, og það er undir núverandi (ó)lögum eðlilegt, en þetta er bara bréf. Hvaða ástæðu hafa þeir til að opna það?

Það eina sem mér dettur í hug í fljótu bragði er að eiturlyfjaskimun hafi komið með einhverja svörun (annað hvort tæki eða hundur).

Örn Arnarson (IP-tala skráð) 26.4.2014 kl. 20:59

4 Smámynd: Hörður Þórðarson

Er þetta eftirlit ekki ólöglegt? Er þetta ísland eða Austur Þýzkaland?

Hörður Þórðarson, 26.4.2014 kl. 21:02

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Hægt er líka að taka annan pól í þessa hæð.

Að yfirvöld hafi fyrst og fremst verið að hugsa um velfarnað Ómars —sem er þekkt persóna sem Íslendingum finnst vænt um og vilja ekki missa— með því að ganga úr skugga um að ekkert eiturefni hafi verið í umslaginu.

Þetta er það sama og gert er á hverjum degi við þann farangur sem fer í gegnum flughafnir erlendis - til dæmis á leið til Íslands. Pappírar sonar míns í innritaðri ferðastöku voru rifnir upp af Toldinspektionen á Kastrup flugvelli. Hann komst að því er hann sá svona miða þegar hann opnaði töskuna sína þegar hingað heim var komið. Engin ástæða var gefin upp vegna þessa.

Sporar af efnavopnum í sendibréfi eru ekkert gamanmál. Því miður eru tímarnir tvennir.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 26.4.2014 kl. 21:07

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

Þú meinar, Gunnar.

Ég er fullkomlega sammála um að við viljum ekki missa Ómar, svo ég mæli með að matsmakkari verði ráðinn til að fá sér bita áður en Ómar gerir það. Þetta yrði að vera viðkvæm manneskja sem dræpist áður en Ómar tæki fyrsta bitann, færi svo illa að maturinn væri eitraður eða úldinn.

Villi Asgeirsson, 26.4.2014 kl. 21:14

7 Smámynd: Hörður Þórðarson

Mikið áttu það gott, Gunnar, að búa í Kardimommubænum.

Hörður Þórðarson, 26.4.2014 kl. 22:12

8 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já smakkarar eru sögulega þekkt fyrirbæri. Í dag heitir það líklega Matvælandistofnun eða eitthvað í þá áttina. Hlýtur að minnsta kosti að heita "stofnun" eða í það minnsta "stofa".

Í dag láta víst fleiri lífið af eitruðu kryddi en látast á ári vegna mengunar. Kardimommur eru krydd svo ég hlýt að vera í afar slæmum málum Hörður.

Ég stundaði milliríkjaviðskipti í Evrópu og víðar beint til neytenda í 20 ár svo ég hef upplifað eitt og annað í sambandi við sendingar á milli landa, og allt það óhjákvæmilega vesen sem alltaf hefur fylgt þannig sendingar-viðskiptum.

Þó svo að 600 þúsund manns vinni hjá US-Mail, þá eru það íslensk yfirvöld sem bera ábyrgð á því hvað kemur inn í landið okkar.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 26.4.2014 kl. 22:27

9 identicon

Sæll Ómar!

Það er ekkert leyndardómsfullt við þetta!

Tollurinn hefur fulla og ótakmarkaða heimild til
að skoða allan póst sem kemur til landsins sem og
þann sem sendur er frá landinu.

Þannig hefur það verið í tugi ára.

Húsari. (IP-tala skráð) 26.4.2014 kl. 22:42

10 identicon

"Er þetta eftirlit ekki ólöglegt? Er þetta ísland eða Austur Þýzkaland?"

D R I eða D D R?

Skuggi (IP-tala skráð) 26.4.2014 kl. 23:55

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samkvæmt reglugerð um tollaeftirlit er heimilt að opna póstböggla til að ganga úr skugga um að í pakkanum sé ekki meira verðmæti en gefið er upp.

Þetta sendibréf til mín getur engan veginn talist póstböggull heldur er þetta dæmigert sendibréf með aðeins þremur þremur A4 blöðum.  

Ómar Ragnarsson, 27.4.2014 kl. 00:03

12 identicon

Sæll Ómar.

Heimildir Tollsins um póst til og frá landinu
eru miklu víðtækari en þú virðist gera þér grein fyrir.
Lög og reglugerðir koma þar við sögu sem liggja
til grundvallar heimildum, eftirliti og gæzlu, -
sem í framkvæmd eru jafngildi þess að ekkert er
undanskilið.

Framburður um eitthvað annað byggist á misskilningi
á þeim lögum og reglugerðum sem í gildi eru.

Húsari. (IP-tala skráð) 27.4.2014 kl. 00:58

13 identicon

Þetta er nauðsinlegt eftirlit, kvort sem et kílóin eða grömm.

Bjõrgólfur (IP-tala skráð) 27.4.2014 kl. 01:04

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það þarf samt að fara að lögum og þau lög eða reglugerð verður að setja, sem felur í sér tilsvarandi heimild.

Ómar Ragnarsson, 27.4.2014 kl. 01:26

15 identicon

Öldruð móðir mín hefur verið í reglulegum bréfasamskiptum við pennavinkonu sína í Hollandi í yfir 60 ár. Flest öll bréf sem hún fær frá Hollandi eru opnuð af tollinum (alltaf sama númer á tollþjóninum). Engin skýring fæst uppgefin.

Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 27.4.2014 kl. 01:29

16 identicon

Sæll Ómar.

Tollurinn þarf ekki að gera grein fyrir einu eða
neinu í þessu efni, það hljóta allir að sjá en
ég geri ráð fyrir að athygli beinist jafnt að
viðtakanda og sendanda sem og öllu því er út af
stendur eftir að það hefur verið nefnt.

Gefðu þér tíma til að athuga þetta aðeins betur, Ómar.

Má ekki vera að þessari vitleysu, - Thurman og Diaz rétt við
að hefjast handa!!

Húsari. (IP-tala skráð) 27.4.2014 kl. 02:05

18 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Ég treysti á það Ómar að þú fáir fulllar og viðhlítandi skýringar á því að einkapóstur þinn hafi verið opnaður. Því eins og þú veist manna best þá er verið að brjóta á stjórnarksrárbundnum rétti þínum. Og endilega leyfðu okkur að fyljgast með framvindu málsins.

Baldvin Björgvinsson, 27.4.2014 kl. 07:30

19 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gamla konan fær þó að vita númerið á tollþjóninum. Sko hana!.

Ómar Ragnarsson, 27.4.2014 kl. 10:51

20 identicon

Tollurinn virðist opna bréf og böggla af handahófi, starfsmenn virðast ekki þurfa að rökstyðja sérstaklega hvers vegna þeir opna þenna böggul frekar en annan. Hef einmitt fengið til mín böggul sem innihélt töflubox með náttúrulækningajurtum og það var búið að skrúfa af tappan og rjúfa innsiglið. Mér stóð að sjálfsögðu ekki á sama þegar ég fékk pilluboxið með rofnu innsigli og glærum límmiða yfir, enda er þetta eitthvað sem maður lætur ofan í sig og ég veit ekkert um það hvort einhver hefur átt við pillurnar eða ekki. Utan á bögglinum stóð eitthvað um tollskoðun, en það var ekki ljóst hvort það var tollmiðlun sem opnaði pilluboxið eða hvort það hafði komið rofið frá framleiðanda. Svona vinnubrögð eru auðvitað fáránleg.

Tollvörður (IP-tala skráð) 27.4.2014 kl. 11:01

21 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér finnst málið hafa tekið nýja stefnu með mikilvægum upplýsingum Geirs Guðmundssonar um aldraða móður hans og samskipti tollsins við hana. Nokkrir menn heita þessu nafni og mér þætti vænt um ef Geir gæti sett sig í betra samband út af málinu. Nokkrar aðfeðir koma til greina, svo sem:

Að senda mér sent sms, tölvupóst á omarr@ruv.is póst á facebook, eða hringja í síma 5125250.

Ómar Ragnarsson, 27.4.2014 kl. 11:19

22 identicon

Ósköp einfalt Ómar. Þú er á sérstakri "skrá" það er ég líka, það er nær allt skoðað hjá mér og hefur verið svo s.l tuttugu og fimm árin og er ég bara "venjulegur" maður

Veru ekkert að hafa áhyggjur af þessu þótt óþægilegt sé, svona er island bara og hefur alltaf verið. Smáborgaraskapur, hnýsni og heimska, út í eitt.

Svo má ekki gleyma: Eftir höfðinu dansa limirnir...........

Kristinn J (IP-tala skráð) 27.4.2014 kl. 11:33

23 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ætli tollþjónar þurfi að sýna sakarvottorð þegar þeir eru ráðnir?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.4.2014 kl. 11:33

24 identicon

Sæll Ómar ég tel líklegast að tollurinn/lögreglan eru komnir í átak gegn vefsíðu sem kallast Silkroad, en á þeirri síðu geta menn ferðast um órekjanlegir og verslað sér fíkniefni, svo eru efnin send í venjulegum bréfum og látið líta út fyrir að vera ástarbréf eða eitthvað álíka, ég hef sterkar heimildir fyrir því að mikið af svona bréfum hafi veirð að berast til landsins og hefur þá tollurinn neyðst til þessa aðferða að opna bara nánast allan saklausan bréfapóst !

https://www.youtube.com/watch?v=G0LaYmRYrts

Marteinn R. (IP-tala skráð) 27.4.2014 kl. 11:58

25 identicon

Ábyrgðabréf sem ég fékk sent frá Frakklandi um daginn var opnað líka af Tollyfirvöldum. Ég var mikið undrandi en þar sem ég er á Íslandi núna þá ýtti ég þessu frá mér. Þetta hefur aldrei gerst hjá mér í öðru landi fyrir utan Marokkó þar sem flestir pakkar og bréf eru opnuð í afgreiðslunni fyrir framan viðtakanda.

Anna Björnsdóttir (IP-tala skráð) 27.4.2014 kl. 12:01

26 Smámynd: Halldór Jónsson

Þá er síðasta leyndarmálið úr sögunni á Íslandi. En hin þrjú leyndarmál eru: Ríkisleyndarmál(úr sögunni með Assange, Snowden, Manning, Birgittu osfrv) Bankaleyndarmál(aflagt hér með beintengingu Skattftofunnar við bankana) bréfaleyndarmól(aflagt af tollstjóra Íslands 2014)

Stóri bróðir átti líka að vera kominn 1984 var það ekki?

+

Halldór Jónsson, 27.4.2014 kl. 12:47

27 identicon

156. grein tollalaga segir: "Tollgæslu er heimilt að skoða og rannsaka allar vörur sem fluttar eru til landsins, hvort sem um er að ræða vörur á farmskrá, póstflutning, farþegaflutning eða annað."

H (IP-tala skráð) 27.4.2014 kl. 13:07

28 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Einkabréf er ekki vara.

Erlingur Alfreð Jónsson, 27.4.2014 kl. 14:36

29 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Tollalög eiga fyrst og fremst við vörur og varning sem er tollskyldur. Ef reikningur eða kvittun fylgir ekki sendingu biður tollurinn um að slíku sé framvísað. Einkabréf sem bersýnilega er ekki varningur fellur ekki undir tollalög að ég fæ best séð.

Ennfremur segir í 2.mgr. fyrrgreindrar 156.gr.: "Tollgæslu er heimilt að taka farangur farþega og áhafnar í sínar vörslur til skoðunar síðar. Getur viðkomandi krafist þess að farangurinn verði innsiglaður þar til skoðun fer fram. Skal hlutaðeigandi gefinn kostur á að vera viðstaddur skoðunina. Enn fremur skal honum látin í té fullnægjandi kvittun ef hann óskar þess." [Feitletrun er mín.] Kannski er kominn tími til að setja í lögin skilyrði að viðtakandi sendingar sé viðstaddur þegar pakki er skoðaður af tollverði, alla vega gefa viðtakanda kost á því að vera viðstaddur eða heimila skoðun að honum fjarstöddum.  Sé um ólöglegan varning að ræða næst þar með strax samband við innflytjanda og hægt að gera viðeigandi ráðstafanir ef um slíkt er að ræða.

En ég get ekki séð að tollverðir hafi heimildir til að opna einkabréf fólks og er líklega eðlilegast að slíkt framferði sé kært til lögreglu.

Erlingur Alfreð Jónsson, 27.4.2014 kl. 14:58

30 identicon

Farþegar eru ekki heldur vara en þetta er samt greinin sem leyfir tollinum að skoða eigur þínar á leiðini til landsins á keflavíkur flugvelli til dæmis.

En þetta er afar eðlileg afleyðing af því að almeningur hefur krafist þess að fíkniefni séu ófánleg á Íslandi. Það hafa verið búin til lög út af því og framkvæmdavaldinu falið að framfylgja þessu banni.

Elfar Aðalsteinn Ingvarsson (IP-tala skráð) 27.4.2014 kl. 15:14

31 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

@Elfar: Þetta eru 2 ólíkir hlutir. Farþegar flytja mögulega vörur til landsins þess vegna er heimilt að skoða eigur þeirra, að þeim viðstöddum vel að merkja. Póststarfsmenn mega einungis opna póstböggla til að leita að reikningi, að viðstöddum tollverði. Í reglugerð um póstsendingar segir í 13.gr.:

"Ef ástæða er til að ætla að aðrar lokaðar póstsendingar innihaldi vörur sem taka skal til tollmeðferðar, skal skora á viðtakendur að opna þær í viðurvist póststarfsmanns eða fá málið tollstjóra til ákvörðunar um málsmeðferð."

Að mínu mati falla örþunn einkabréf undir aðrar póstsendingar enda varla um vörur að finnist í þeim örþunnu umslögum. Þá á að biðja viðkomandi að opna sendinguna í viðurvist póststarfsmanns.  Annað er hnýsni og misbeiting valds sem ekki á neitt skylt við tollaeftirlit.  Slíkt framferði á að kæra enda óheimilt.

Erlingur Alfreð Jónsson, 27.4.2014 kl. 15:53

32 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

leiðrétting: ...varla um að ræða að vörur.... átti að standa í byrjun síðustu málsgreinar.

Erlingur Alfreð Jónsson, 27.4.2014 kl. 15:55

33 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Fyrst menn treysta ekki opinberum tollþjónum Lýðveldisins fyrir sendibréfi, þá ættu þeir varla að treysta einkareknum bankastarfsmönnum fyrir pappírum sínum.

Tollþjónar eru bundnir þagnarskyldu og þeir eru í þessu tilfelli forsendan fyrir því að Pósturinn geti sinnt störfum sínum um að koma sendingum til áfangastaðar. 

Víðtækar undantekningar frá bréfaleynd eru til staðar í mörgum löndum og enginn nema yfirvöld vita betur hvenær þær eiga við, því enginn nema yfirvöld hafa réttinn til að búa yfir þekkingu á þeim ástæðum sem notaðrar eru.

Lögum um varnarmál hefur til dæmis í Danmörku (paragraf 17) verið breytt í þinginu til að mæta "nýjum aðstæðum" sem gefa yfirvöldum rétt til að nota "sérstakar aðstæður" sem tilefni til að rjúfa bréfaleynd. Sendibréf frá útlöndum eru opnuð af tollþjónum og hefur það verið svo áratugum saman. Lögnu áður en þessar sérstöku aðstæður urðu til.

Gunnar Rögnvaldsson, 27.4.2014 kl. 18:06

34 identicon

Mér var kennt í póstinum og póstskólanum á síðustu öld að ekki mætti opna bréfasendingar - smápakka og böggla má opna. Ef grunur vaknaði um innihald bréfs væri ólöglegt eða tollskylt var sendingu haldið eftir og viðtakandi boðaður til fundar þar sem hann var beðinn um að opna sendinguna í viðvist tollvarða. Einu bréfasendingar sem mátti opna voru bréf sem komust ekki til skila til endursenda þau. Aðeins einn starfsmaður á landinu öllu mátti opna þær. Bréfasendingar má senda í gegnum gegnumlýsingartæki og þá er hægt að sjá ef einhver hefur laumað dufti eða öðru inn í bréfið.

Mér finnst skrýtið ef þetta hefur breyst.

Ásdís Bergþórsdóttir (IP-tala skráð) 27.4.2014 kl. 20:25

35 identicon

48. grein laga um pósþjónustu 19/2002:

48. gr. Undanþágur.

Þrátt fyrir ákvæði [47. gr.]2) er heimilt að opna án dómsúrskurðar þær póstsendingar sem ekki er unnt að koma til skila til þess að freista þess að komast að því hverjir sendendur eru svo að unnt sé að endursenda þær, enda sé það gert í samræmi við reglur sem ráðherra setur, sbr. 32. gr. Enn fremur er heimilt að leyfa að sendingar séu opnaðar þegar það er óhjákvæmilegt vegna flutnings þeirra eða til að kanna hugsanlegar skemmdir á innihaldi. Hið sama á við þegar rökstuddur grunur leikur á um að ekki hafi verið forsvaranlega búið um sendinguna vegna innihalds hennar eða að sending innihaldi hluti sem hættulegt getur verið að senda. Póstrekandi skal halda skrá yfir póstsendingar sem eru opnaðar án dómsúrskurðar í samræmi við reglur sem ráðherra setur, sbr. 32. gr.

Böggla sem fluttir eru til landsins frá útlöndum má opna ef nauðsynlegt er vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Aðrar lokaðar póstsendingar má ekki opna vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda nema í viðurvist viðtakanda.

Póstsendingar til einstaklinga sem úrskurðaðir hafa verið gjaldþrota má afhenda skiptastjórum eftir beiðni þeirra, enda beri þær með sér að varða fjárhagsmálefni þrotamanns. Sendingar til látinna manna skal á sama hátt afhenda skiptastjóra þegar um opinber skipti er að ræða. Þegar um einkaskipti er að ræða skulu allar póstsendingar afhentar forráðamanni dánarbús nema þær beri með sér að vera einkabréf. Skal sending þá endursend með viðeigandi skýringu áritaðri á sendinguna sjálfa.

Ásdís Bergþórsdóttir (IP-tala skráð) 27.4.2014 kl. 20:49

36 Smámynd: Hörður Þórðarson

Ef tollverði grunar eitthvað misjafnt og telja sig þurfa að opna einkabréf, þá er lágmark að viðtakandinn fái að vera til staðar meðan bréfið er opnað, að minnsta kosti í landi þar sem einhver virðing er borin fyrir frelsi og réttindum einstaklinga.

Ísland er því miður ekki þannig land, þó að sumum þyki gaman að ímyndi sér það á tyllidögum. Takk, Ómar fyrir að opna augu fólks.

Hörður Þórðarson, 28.4.2014 kl. 07:29

37 identicon

Þori að veðja að þú ert skráður sem Hryðjuverkamaðir (Terroristi) í Grunninum...☺

3ja Augað (IP-tala skráð) 28.4.2014 kl. 08:14

38 identicon

Þetta er alveg óþolandi kerfi þarna hjá tollinu. Virðist vera algjörlega handahófskennt. Ég og mínir vinir höfum verið mikið í samskiptum við erlenda aðila, bréfaskrif og gjafir, allt vegna áhuga á tónlist og öðrum listum. Þetta er í tugi ára. Oft koma pakkar með plötum (og jafnvel plötuspilara einu sinni) sem gjafir. Stundum sem einhver okkar hefur sjálfur átt þátt í að skapa og er að fá sín eintök. Oft er þetta stoppað og tollurinn prófar að rukka mann. Oft á tíðum er þetta eitthvað sem fólk sendir að óspurðu, maður veit kannski ekki hvað þetta er og ætlast er til maður borgi stórfé. Ég veit um mörg tilfelli þar sem móttakandi neitar að borga og segir þeim bara að stela þessu...eða senda þetta tilbaka. Og þá kemur þetta eftir nokkra daga og allt gleymt om neina borgun. Það er eins og þeir reyni bara og sjái hvað gerist. Taka pakkann í gíslingu og fara fram á lausnargjald. Láta þetta svo sleppa ef maður lætur ekki kúga sig...furðuleg vinnubrögð / reglur.

Runar (IP-tala skráð) 29.4.2014 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband