144 þúsund ferðamenn árið 2011 að Fjallabaki.

Á góðu málþingi að Tunguseli í Skaftártungu um virkjanir, ferðaþjónustu og landbúnað í kvöld kom það fram í erindi Önnu óru Sæþórsdóttur, dósents í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, að sumarið 2011 fóru 144 þúsund ferðamenn um slóðirnar á því svæði sem kalla má Stór-Fjallabak, en það eru Fjallabakleiðir nyrðri og syðri og aðrar leiðir á svæðinu.

Þetta voru álíka margir ferðamenn og komu samtals til landsins fyrir ekki mörgum árum og ferðamönnum hefur fjölgað verulega síðan 2011.

Anna Dóra skýrði frá athyglisverðurm niðurstöðum af vandaðri rannsókn á ferðamannastraumnum og viðhorfum ferðamanna og ferðaþjónustuaðila, sem sýndi að yfirgnæfandi meirihluti ferðafólksins taldi virkjanir og virkjanamannvirki, svo sem miðlunarlón og háspennulínur skemma mjög fyrir ásýnd svæðisins og aðdráttarafli þess og jafnvel eyðileggja það.

Einnig kom fram á þessu málþingi, að ef stýra eigi vaxandi ferðamannastraumi af skynsemi um landið verði að dreifa honum meira og að við eigum enn lítið þekkt svæði og ferðaleiðir, sem gefa hinum rómaða og vinsæla Laugavegi lítið eða ekkert eftir.

Þannig voru aðeins rúmir 20 þúsund ferðamenn á syðri hluta Fjallabaks 2011 en rúmlega 120 þúsund á nyrðri hlutanum. Því er ljóst að á ýmsum leiðum á syðri hlutanum, eins og til dæmis Öldufellsleið, eru miklur möguleikar, enda fjölgar þeim sem búnir eru að ganga Laugaveginn og hafa áhuga á nýjum leiðum.  

En nú er þrýst hart á að reisa virkjanir á þessum svæðum en það myndi draga verulega úr og jafnvel eyðileggja möguleika á að stýra ferðamönnum þannig að ekki valdi náttúruspjöllum.

Er skondið að heyra þegar þeir sem þrýsta á virkjanir vilja um leið skemma fyrir nýtingu landsins fyrir skynsamlega ferðamennsku.  

Landvernd og náttúruverndarsamtökin Eldvötn stóðu fyrir þessu málþingi, og rétt er að minna á Grænu gönguna, sem er á dagskrá á morgun klukkan 13:00, en hún hefst við Hlemm.  


mbl.is Svisslendingar verðmætustu gestirnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ferðaþjónusta varð stærsta útflutningsgreinin hér á Íslandi í fyrra, 2013.

Tekjur af erlendum ferðamönnum
voru þá 275 milljarðar króna, eða 26,8% af heildarverðmæti útflutnings vöru og þjónustu, og um 16% meiri en árið 2012, en þá voru útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra fyrirtækja samtals 238 milljarðar króna.

Og miðað við að tekjur af erlendum ferðamönnum verði einnig 16% meiri nú í ár en í fyrra verða tekjurnar um 319 milljarðar króna á þessu ári, tæplega einn milljarður króna á dag.

Þorsteinn Briem, 1.5.2014 kl. 02:28

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um 800 þúsund erlendir ferðamenn dvöldu hér á Íslandi í fyrra, 2013, og þá voru tekjur af erlendum ferðamönnum um 275 milljarðar króna.

Meðaltekjur
af hverjum erlendum ferðamanni sem dvaldi hér í fyrra voru því um 344 þúsund krónur og miðað við að útgjöld hjóna hafi verið tvöfalt meiri voru þau því þá tæplega 700 þúsund krónur til íslenskra fyrirtækja.

Þorsteinn Briem, 1.5.2014 kl. 03:28

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um 70% erlendra ferðamanna komu hingað til Íslands árið 2007 til að njóta náttúru landsins og 40% nefndu íslenska menningu og sögu en um 10% nefndu aðra þætti, til dæmis ráðstefnur.

Ferðaþjónusta hér á Íslandi í tölum - Október 2009, bls.12

Þorsteinn Briem, 1.5.2014 kl. 03:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband