4.5.2014 | 14:08
Svör sem kalla á fleiri spurningar.
Ýmislegt hefur komið fram vegna rúmlega vikugamals umræðuefnis hér á bloggsíðunni um það að Tollurinn opni sendibréf að vild sinni.
Ég kallaði í bloggpistlinni eftir svörum við ýmsum atriðum og er það vel, að þeim hefur sumum verið svarað. Komið hefur fram að um 6000 sendingar séu gegnulýstar eða þuklaðar í hverjum mánuði og að á síðustu fjórum mánuðum hafi fundist fíkniefni í 30 bréfum.
Einnig sagði fulltrúi Tollstjóra í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að "ótvíræð heimild" sé til að opna hvaða bréf sem er og að smyglarar sendi oft bréf á "þekkt nöfn" manna, sem síðan opnuðu bréfin.
En svörin, sem gefin eru, kalla á fleiri spurningar heldur en svarað er.
1. Fundust fíkniefnin einungis í bréfum, sem voru opnuð? Fundust engin fíkniefni við gegnumlýsingu eða notkun fíkniefnahunds?
2. Í tollalögum er aðeins talað um póstböggla og vörusendingar, - ekki bréf. Í útvarpsviðtali við fulltrúa frá persónuvend í síðustu viku kom fram að heimild til að opna bréf til fanga sé túlkuð þröngt af því opnun einkabréfs sé brot á stjórnarskrárákvæði um friðhelgi einkalífs. Vitnaði fulltúinn í dóm, sem hefði fallið í slíku máli með þröngri túlkun, yfirvöldum í óhag. Þetta rímar ekki við fullyrðinguna um "ótvíræða heimild".
3. Þótt einkabréf til mín, sem opnað var án aðvörunar og ekki að mér viðstöddum, á þeim forsendum að það sé ekki framkvæmanlegt, hefði sýnt mér í fyrsta sinn, að slíkt tíðkaðist, var aðalatriði bloggskrifa minna ekki þetta eina bréf heldur stórfelldar opnanir bréfa hjá sumu fólki.
Aðalatriði boggskrifanna var að bréf sumra eru opnuð reglulega og stundum árum og áratugum saman og virðist engu skipta þótt aldrei finnist neitt misjafnt í bréfunum, samt er haldið áfram að opna bréfin. Í þeim tilfellum, sem nefnd voru á bloggsíðu minni, höfðu viðtakendur aldrei komist í kast við lögin. Áttræð kona, sem hefur staðið í samfelldum bréfaskiptum við pennavinkonu sína erlendis í 60 sætir þessari meðferð. Er hún komin í hóp fanga í fangelsum sem eins konar ævifangi?
4. Haft var eftir fullrúa Tollstjóra í útvarpsfréttinni áðan að bréf, sem innihéldu fíkniefni væru send á "þekkt nöfn" og að það fólk tæki síðan bréfin upp. Þið fyrirgefið en þetta skil ég ekki. Skiljið þið það, sem lesið þetta? Eru þetta nöfn sem eru sérstaklega "þekkt" hjá Tollinum eða er þetta almennt það fólk í þjóðfélaginu sem er með "þekkt nöfn". Það er málvenja að slíkt fólk er þekkt meðal almennings og kallað "þekkt nöfn".
Eru "þekkt nöfn" nú orðin ígildi fanga í fangelsum landsins? Tekur fólkið með þessum "þekktu nöfnum" virkilega á móti fíkniefnunum og leynir því? Hvers vegna? Af því að það að gera uppskátt um fíkniefnasendinguna felli kusk á hvítflibbann? Og er þetta fólk með "þekktum nöfnum" sem tekur bréfin upp í samsæri með fíkniefnainnflytjendum? Lætur fíkniefnakrimmana vita að sending hafi borist?
Þið, sem lesið þetta, getið þið aðstoðað mig við að skilja við hvað er átt?
Athugasemdir
4.5.2014 (í dag):
Ótvíræð heimild til að opna sendibréf
2.5.2014 (síðastliðinn föstudag):
Sendibréf og eftirlit
Ég myndi hafa samband við Umboðsmann Alþingis vegna þessa máls.
Þorsteinn Briem, 4.5.2014 kl. 15:12
Ég skildi þetta þannig að bréfin væru stíluð á þekkt nöfn sem engin grunaði um græsku til að koma í veg fyrir að þau væru opnuð. Tollurinn hefði hins vegar séð við þessari aðferð og þess vegna opnar hann slík bréf.
Ég skil hins vegar ekki hvernig móttakandi fíkniefnanna kemst yfir slík bréf áður en þau ná til skráðs móttakanda nema hann sé starfsmaður Póstsins.
Ásmundur (IP-tala skráð) 4.5.2014 kl. 15:31
Það er væntanlega auðvelt að vakta það hvenær pósturinn Páll ber út bréf til Ómars Ragnarssonar og taka þá strax viðkomandi bréf úr póstkassa hans.
Þorsteinn Briem, 4.5.2014 kl. 15:44
Ég las/skildi þetta líka eins og #2 - þekkt nöfn sem enginn grunaði um græsku og kannski vissu þeir ekki einu sinni að þetta væri THE Ómar Ragnarsson! Hvað vitum við svosem hvernig verið er að smygla fíkniefnum - kannski eru einhverjir að senda á áttræðar konur (ömmur sínar eða langömmur??) út í bæ??
Baldur (IP-tala skráð) 4.5.2014 kl. 15:45
Kominn á svartan lista, svo sættu þig bara við eineltið elsu kallurinn..,
H. Friðriksson (IP-tala skráð) 4.5.2014 kl. 16:32
Þetta bréf til mín er skítur á priki og ekkert atriði í málinu heldur það hvernig sumt fólk árangurslaust og þar með að ástæðulausu. Þegar sagt er í útvarpsfrétt að gætt sé meðalhófs í þessu er það alveg á skjön við dóminn í bréfmáli fangans hér um árið.
Það má með sanni segja að mikið sé fyrir þessu haft af hálfu sendanda bréfanna, að liggja í leyni og vakta það hvenær borið sé út til hinna "þekktu nafna" og fiska þá væntanlega bréfin upp úr póstkassa þeira og stela þeim.
Ómar Ragnarsson, 4.5.2014 kl. 17:22
Sammála þér Ómar, þetta er allt hið undarlegasta mál, sú aðferð að ná í bréf áður en þau eru borin út, beinast að mínu mati eingöngu að þeim sem vinna á pósthúsunum. Ég er nú alls ekki viss um að það góða fólki vilji liggja undir grun um slík vinnubrögð.
Það fer um mig kaldur hrollur að vita til þess að fólk vinnur við að káfa, gegnumlýsa og opna bréf almennings, hvar er persónuvernd? Og ég spyr aftur, hvaða kröfur eru gerðar til starfsmanna sem hafa leyfi til að opna hvaða bréf sem er?
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.5.2014 kl. 17:31
Menn hafa nú lagt mun meira á sig til að flytja fíkniefni hingað til Íslands en að vakta það hvenær pósturinn ber út bréf stíluð á menn sem eiga í raun ekki að fá bréfin, enda eru þau yfirleitt borin út á sama tíma í viðkomandi götu.
Og trúlega lítill vandi að ná í bréf í póstkössum í fjölbýlishúsum.
Þar að auki er væntanlega hægt að senda fíkniefni í böggli eða umslagi og hvert gramm af fíkniefnum er nú ekki beinlínis gefið.
Og hugsanlega hægt að plata fíkniefnahunda með því að senda eitthvað með fíkniefnunum sem brenglar lyktarskyn hundanna.
Þorsteinn Briem, 4.5.2014 kl. 17:58
Ég fæ nú ekki séð að það ætti að fara heitur eða kaldur hrollur um neinn að vita til þess að "fólk" (tollurinn!!) vinni við að leita að einhverju ólöglegu í póstsendingum. Er virkilega einhver sem veit ekki af því?? óþarfi að mála skrattann á alla veggi
Baldur (IP-tala skráð) 4.5.2014 kl. 18:01
Hverskonar fíkniefni eru send í bréfi? er ekki hægt að vera með hund, til að lykta?Og svo eru fullt af bréfum opnuð, þó einhver þeirra innihaldi einhverskonar óæskileg efni.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.5.2014 kl. 18:31
Fíkniefni eru vörur, enda þótt þær séu ólöglegar, og hægt að senda fíkniefni í pósti í bögglum eða umslögum.
Tollalög nr. 88/2005:
"156. gr. Skoðun og rannsókn á vörum sem fluttar eru til landsins.
Tollgæslu er heimilt að skoða og rannsaka allar vörur sem fluttar eru til landsins, hvort sem um er að ræða vörur á farmskrá, póstflutning, farþegaflutning eða annað. ..."
"Tollgæslu er heimilt að taka farangur farþega og áhafnar í sínar vörslur til skoðunar síðar. Getur viðkomandi krafist þess að farangurinn verði innsiglaður þar til skoðun fer fram. Skal hlutaðeigandi gefinn kostur á að vera viðstaddur skoðunina."
Og farangur farþega er ekki póstflutningur.
Stjórnarskrá Íslands:
"71. gr. Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.
Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.
"Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra."
Þorsteinn Briem, 4.5.2014 kl. 18:50
Ómar, talaðu við Persónuvernd og spurðu hvort þú getir vísað málinu þangað. Röksemd tollsins um að sendibréf séu vörusendingar er bara fyndin. Það tekur vissulega tíma að fá úrskurð Persónuverndar en það er þess virði. Svo er líka afbragðs starfsfólk þar og bara mjög þægilegt að eiga samskipti við það.
Ásdís Bergþórsdóttir (IP-tala skráð) 4.5.2014 kl. 18:55
Fyrirgefðu, ég var að hlusta og heyrði að Þórður vísar þessu frá sér og vísar þessu á Umboðsmann Alþingis. Það er líka góð þjónusta þar og ég hvet þig til að leita þangað. Hins vegar tekur slíkt mjög langan tíma.
Ásdís Bergþórsdóttir (IP-tala skráð) 4.5.2014 kl. 19:07
Hér er langt viðtal við yfirmann lögfræðisviðs Persónuverndar um þetta mál og þar vísar hann á Umboðsmann Alþingis:
Sendibréf og eftirlit
Og að sjálfsögðu er hægt að senda fíkniefni og ýmsar aðrar vörur, til að mynda minnislykla, í umslögum og til eru margar stærðir af þeim.
"Karen Bragadóttir forstöðumaður tollasviðs hjá Tollstjóra segir að heimild tollayfirvalda til að opna sendibréf sé ótvíræð."
"Hún segir það færast mjög í aukana að eiturlyfjum sé smyglað til landsins með sendibréfum: "Á þessu ári höfum við fundið um þrjátíu sendibréf með fíkniefnum.""
Ótvíræð heimild til að opna sendibréf
Þorsteinn Briem, 4.5.2014 kl. 19:34
Ég fékk um daginn pakka sem ég pantaði frá Kína, lítið breytistykki á hleðslutæki, það kom í venjulegu umslagi með póststimpli - þetta var svo lítið að ég hélt fyrst að umslagið væri tómt - hvort er það sendibréf eða vörusending?? Hefði tollurinn mátt opnað það (það var ekki opnað)? Ef samskonar bréf kæmi t.d. frá Hollandi eða Kólumbíu - þyrfti tollurinn leyfi frá mér til að opna??
Baldur (IP-tala skráð) 4.5.2014 kl. 21:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.