LÝÐRÆÐIÐ OG TRAUST Á ALÞINGI

Hvað myndi gerast ef aðeins 29 prósent hluthafa á hluthafafundi fyrirtækis bæru traust til stjórnarinnar? Hún yrði að segja af sér. En þetta á við um Alþingi. Samkvæmt skoðanakönnun hefur fólk aldrei borið jafn lítið traust til þess og nú, - aðeins 29 prósent. 71 prósent landsmanna vantreystir þinginu og það þykir ekki lengur frétt.

Ef þetta væri fyrirtæki væri ekki aðeins búið að reka stjórnina heldur væri líka erfitt að fá starfsfólk til að vinna hjá því. Það er ekki að undra að fólki ói við því að gefa kost á sér til að fara inn á slíkan vinnustað.

Þetta er alvarlegt mál lýðræðisins vegna. Alþingi er samkoma fulltrúanna sem þjóðin hefur valið til að fara með mál sín, elsta löggjafarsamkoma heims. Þetta bendir til alvarlegrar brotalamar á lýðræðinu á Íslandi en er þó ekki sú eina.

Undanfarin átta ár hef ég kynnst því hvernig reynt var á alla lund beint og óbeint að hamla upplýsingagjöf um mikilsverðasta mál okkar samtíma. Íslensk stjórnvöld eru hin einu í okkar heimshluta sem ekki vilja skrifa undir Árósasamkomulagið sem kveður á um það að leitað sé jafnræðis milli mismunandi skoðana um stórmál eins og umhverfismálin.

Það þýðir að enn reyna ráðandi öfl að beita ofurvaldi aðstöðu, fjármagns og valda til að hamla upplýsingagjöf og koma í veg fyrir jafnræði ólíkra sjónarmiða.   

Störf og virðing æðstu stofnunar landsins og upplýsingagjöf og jafnræði milli sjónarmiða eru meðal hornsteina lýðræðisins. Það er áhyggjuefni að þeir skuli ekki vera traustari.

Ef til framboðs umhverfissinnaðs umbótafólks kemur verður lýðræðið og efling þess þar ofarlega á blaði, - til dæmis ákvæði um aukið persónukjör sem og þjóðaratkvæði eða kröfur um stóraukinn meirihluta í málum sem varða alla þjóðina mest, -einkum þau mál sem snerta munu beint hagsmuni milljóna ófæddra Íslendinga.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ibba Sig.

Þetta þykir mér bara eðlileg útkoma miðað við hvernig þingið hefur starfað undanfarin kjörtímabil. Svo virðist sem við búum ekki lengur við þingræði heldur ráðherraræði, þingið bara afgreiðir það sem kemur úr ráðuneytunum. 

Til hvers Alþingi ef það eina sem það gerir er að stimpla lögin sem koma úr ráðuneytunum? Getum við ekki bara fengið nokkrar skrifstofumanneskjur sem afgreiða málin á fljótan, einfaldan og ódýran hátt? 

Ibba Sig., 5.3.2007 kl. 11:30

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Omar vantraustið kemur með kostningum eftir 5 vikur/Mikð eru fleiri orðljótir en þeir i þinginu/ TD. Keli GROUP/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 5.3.2007 kl. 11:53

3 Smámynd: Snorri Hansson

Ég næ ekki því sem þú ert að segja. Meinar þú að þitt atkvæði ætti að vega margfalt á við mitt ? Eða að þín skoðun verði að ráða vegna þess að hún sé merkilegri ? Eða ef það er til 200 manna hópur “umhverfissinna” þá heiti það líðræði að hann ráði þeim málaflokki?(Flokki uppistöðulóna og virkjana) Bara vangavelta.   

Snorri Hansson, 5.3.2007 kl. 12:35

4 identicon

Ómar.

Virðing fyrir Alþingi hefur aldrei mælst minni og það er að vonum.

Á fyrsta þingi eftir síðustu alþingiskosningar tóku formenn stjórnarandstöðuflokkanna, alþingismennirnir Guðjón Arnar Kristjánsson, Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon sig saman og ráðgerðu heimulega frumvarp um eftirlaun. Nánar tiltekið, Frumvarp til laga um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Það gerðu þingmennirnir í samráði við handhafa framkvæmdavaldsins, þá Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Málið snerist sem sagt um eftirlaun handhafa þriggja þátta ríkisvaldsins, utan eitt höfuðatriði þess, sem kvað á um 50% álag á þingfararkaup þeirra formanna stjórnmálaflokka á Alþingi sem ekki væru ráðherrar. Hverjir eru það? Stjórnmálaforingjarnir höfðu upp úr þessu hver um sig jafnvirði tuga milljóna.

Þarna var sjálfu löggjafarvaldinu misbeitt í þeim tilgangi að búa alþingismönnum – sérstaklega þeim sem um véluðu – forréttindi langt handan við veruleika almennings. Þarna var stigið stórt skref í þá átt að fulltrúar almennings búi við önnur og betri réttindi en umbjóðendur þeirra; að um leið og þingmaður taki sæti á alþingi þá hverfi hann jafnframt úr röðum almennings.

Maður spyr sig hvaða fyrirstaða eða hvað bit sé í slíkri stjórnarandsstöðu, sem byrjar á því að draga úr sér allar tennur í samvinnu við framkvæmdavaldið sem hún á að veita aðhald. Hitt er mikilvægt fyrir nýtt framboð að það taki af öll tvímæli um það að frambjóðendur þess komi úr röðum almennings í landinu og geti hugsað sér að búa áfram við sömu grundvallarréttindi og almenningur eftir að þeir taka sæti á alþingi.

Gömlu flokkarnir keppast við að þegja um málið. Þeir eru áfram samstiga í spillingunni. Nýja framboðið verður að skera sig úr hvað þetta varðar:


Frambjóðendur nýja framboðsins líta á sig sem fulltrúa almennings á Alþingi og hafna forréttindahyggju. Forréttindi ganga gegn réttlætis- og lýðræðishugmyndum landsmanna, sérstaklega forréttindi kjörinna fulltrúa. Sameiginlegt eftirlaunafrumvarp stjórnarandstöðuflokka og ríkistjórnarflokka sem varð að lögum í desember 2003 er mjög ámælisvert. Lögin á að afnema hið fyrsta með það fyrir augum að alþingismenn búi við sömu lífeyrisréttindi og aðrir opinberir starfsmenn. Stefna ber að því að jafna og bæta lífeyrisréttindi allra landsmanna.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 12:38

5 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Því miður er það ekki svo einfalt að það sé bara stjórninni að kenna að almenningur hefur ekki lengur trú á alþingi, þar á stjórnarandstaðan jafn stóran hlut af sökinni.

Ég tel að trú á alþingi hafi stórlega minnkað með t.d. málþófi stjórnarandstöðunnar í RÚV málinu. Það að alþingismenn geti tekið eitt mál fyrir og tafið það endalaust og gert það að verkum að mikilvægari mál fái ekki afgreiðslu gerir þingið ekki trúverðugra í mínum huga.

Lýðræði hlýtur alltaf að byggjast á því að meirihlutinn stjórni og er þá ekkert óeðlilegt að meirihluti þings stjórni þar. Það að segja að það ríki þá eitthvað ráðherraræði á ekki við rök að styðjast. Andstaða stjórnarandstöðunnar við hin ýmsu mál hafa oft breytt þeim í meðförum þingsins og er það vel en stjórnarandstaðan á aldrei að stjórna.

Ágúst Dalkvist, 5.3.2007 kl. 12:43

6 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Það er ekki einu sinni hægt að stilla útvarpið á Alþingi ef maður skyldi hafa áhuga.  Enda fór ekki mikið fyrir stuðningi við þingmenn vinstri grænna þær vikur sem Kárahnjúkavirkjun var til umræðu í þinginu.  Umhverfisráðherra samþykkti virkjunina 20.desember 2001 og þingmenn samþykktu svo 8.apríl 2002 með, eins og Alcoakarlarnir sögðu, "overwhelming majority" og "a matter of public record", gulltryggt af nær öllum þingmönnum Samfylkingarinnar.

Pétur Þorleifsson , 5.3.2007 kl. 13:17

7 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Sem betur fer er stutt í kosningar og ríkisstjórnin kemur sínum málum á framfæri og fylgið bólgnar út.

Við kjósendur verðum að tyggja að sundurleit afturhaldsöflin nái ekki meirihluta á Alþingi Íslendinga.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 5.3.2007 kl. 14:56

8 identicon

Skylt og óskylt:

Mikil samstaða er um það hjá stjórnmálaflokkum í Danmörku að grafa níu þúsund kílómetra af raflínum í jörðu, aðallega til þess að losna við risastór möstur og línur sem eru lýti á umhverfinu. Að sögn Jótlandspóstsins er meirihluti fyrir því á þingi að grafa línurnar.

Danska orkuveitan segir að ef þingið taki ákvörðun um að grafa allar raflínur í jörðu, sé hún tilbúin til þess að hefja verkið. Það verði gríðarlegt verkefni og ýmisleg tæknileg atriði sem þurfi að leysa, en ekkert sé óyfirstíganlegt.

Orkuveitan segir að ef ákvörðun verði tekin um að grafa allar gamlar línur og leggja allar nýjar línur í jörðu á næstu tuttugu árum muni það kosta 300 til 500 milljarða íslenskra króna.

Steini Briem (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 15:58

9 Smámynd: Kristján Pétursson

Þrjú kjörtímabil undir ríkisstjórn Framsóknar og íhaldsins hafa náttúrlega mótað störf og virðingaleysi almennings á þinginu.Stjórn - og dugleysi ríkisstjórnarinnar einkanlega á yfirstandandi þingi hefur gengið gjörsamlega  fram af þjóðinni.Hæsta verðbólga,hæsta matarverð,hæstu vextir,skuldugustu heimili veraldar o.fl.gefur alþingi samk.Gallup könnun aðeins 29% einkun,sem er  lægri en nokkur önnur viðmiðunarstofnun fékk í könnuninni.Löggjafarvaldið undir stjórn núverandi ríkisstjórnarfl.er rúið öllu trausti.

Kristján Pétursson, 5.3.2007 kl. 18:06

10 identicon

Æ, æ, æ, æ Ómar, Kristján og þið hinir sem reynið að túlka allt ykkur í hag.

Sko, Alþingi er stofnun sem sett er saman af þjóðinni, þar sitja 63 þingmenn úr fimm flokkum.  Þingmennirnir 63 skiptast í tvo hópa, stjórn og stjórnarandstöðu.  Þessi stofnun, Alþingi, nýtur í heild sinni lítils trausts hjá þjóðinni.  Er þar helst um að kenna orðljótum mönnum (sem virðast aðallega koma úr stjórnarandstöðu) og allskyns furðu uppákomum eins og t.d. málþófinu í kringum RÚV ohf. sem þjóðin hafði algjörlega engan áhuga á. (það tók bara orðljóta liðið í stjórnarandstöðunni 2-3 vikur að fatta það)

Svo erum við með aðra "stofnun" sem kölluð er Ríkisstjórn, sá hópur fólks naut trausts og stuðnings ca. 50% þjóðarinnar, allavega í síðustu Gallup könnun.

Skiljið þið þetta?

 Kveðja

Snæþór S. Halldórsson

Snæþór S. Halldórsson (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 20:38

11 identicon

Ræfildómur 

"Löggjafarvaldið undir stjórn núverandi ríkisstjórnarfl. [...]", segir Kristján Pétursson. Þetta hittir reyndar í mark þótt meiningin sé að ríkisstjórnin sé þingbundin, það er starfi í umboði þingsins en ekki öfugt.

Í raun er málum þannig komið að meirihluti Alþingis er bara handbendi framkvæmdavaldsins og aðhaldið sem þingið á að veita framkvæmdavaldinu aðeins á hendi stjórnarandstöðunnar.  Þeim mun svívirðilegra er að hún skuli bregðast og láta kaupa sig til óhæfuverka líkt og gerðist í eftirlaunamálinu.

Sá skaði er reyndar afturkræfur og hann verður að bæta. Það jaðrar við trúnaðarbrest milli þings og þjóðar. Spurninginn er bara sú hve lengi ræfildómur stjórnarandstöðunnar ætlar að endast. Hún verður að taka sig saman í andlitinu. Í öllu falli má nýja framboðið ekki detta strax í upphafi niður á sama plan.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 21:00

12 Smámynd: Anton Þór Harðarson

Ómar það er eins með þingið og stjórn fyrirtækja, fólk er kosið þangað inn eftir ákveðnum reglum í ákveðin tíma og það er alveg eðlilegt að þegar menn þurfa að taka umdeildar og erfiðar ákvarðanir að vinsældir falla á meðan það gengur yfir. Hvernig reksur heldur þú að yrði á t.d einhverju stórfyrirtæki ef yfirstjórnin þyrði aldrei að taka neinar áhvarðanir sem starfsfólk yrði óánægt með, það fyrirtæki yrði varla langlíft

Anton Þór Harðarson, 5.3.2007 kl. 22:17

13 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ómar ...sorry en með Jakob Frímann munt þú ekki fá marga punkta frá harðri kvennalistakonu, eins og mér...en það er nú sjálfsagt ekki ætlunin!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 5.3.2007 kl. 23:31

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Anna mín Benkovic Mikaelsdóttir. Á flestum þeim fundum sem ég á með fólki vegna hugsanlegs framboðs eru konur í meirihluta. Þær eru í lykilstöðum. Ef af þessu verður átt þú eftir að sjá margar frábærar konur í listum með glitrandi grasrót.

Ég á erfitt með að sjá hvernig einn maður, Jakob Frímann, sem vinnur með okkur ásamt fjöldanum öllum af góðu fólki,  - getur breytt þeirri jafnréttisímynd sem þetta framboð stefnir í að verða. Ég bið þig um að hinkra eftir því að sjá það sem verður úr þessu áður en þú dæmir það úr leik.  

Ómar Ragnarsson, 5.3.2007 kl. 23:59

15 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

ok Ómar...geri það!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 6.3.2007 kl. 00:49

16 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Já Ómar , svara þér hér einu sinni enn varðandi þennan þinn pistil, þar sem þú segist hafa barist átta ár með stjórnvöld á móti þér að sjá má í andstöðu þinni við virkjanaframkvæmdir á hálendinu, einmitt..... efa það ekki.

Hins vegar gerist fleira í voru þjóðfélagi og til eru þeir sem barist hafa í 15 ár fyrir umbótum á réttindalegu sviði til handa þegnum þessa lands í framtíðinni og að ég tel áorkað umbótum og breytingum til bóta á þeim tíma að hluta til í samvinnu og samstarfi við hið háa Alþingi eftir háværa umfjöllun um málin í samfélaginu. Alla flokka Ómar, alla flokka, sökum þess að alls staðar er að finna gott og réttsýnt fólk sem sorglegt er að sjá aðra kasta steinum í.

Mér dettur ekki í hug að mínir kraftar einir munir breyta heiminum en ég legg mitt á vogarskálarnar, gagnvart mesta óréttlæti Íslandssögunnar nú um stundir sem er kvótakerfi sjávarútvegs ásamt því að sinna enn störfum til handa þolendum læknamistaka hér á landi sem nú eiga tryggingar en áttu ekki.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 6.3.2007 kl. 02:20

17 identicon

Þrennt þarf til: a) Traustvekjandi mannskap á listum b) skýr og vel rökstudd stefnumál sem snerta við fólki c) hugvitssamlega  kosningabaráttu.

Liður a) má ekki klikka. Rétt hjá Önnu Benkovic.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 09:46

18 identicon

Nei, endilega ræða framboðslistann áður en búið er að negla hann niður. Það er mikilvægt að vel takist til og útstrikanir eru svo að segja alveg áhrifalausar, enda hentar það flokkunum sem nú einoka Alþingi. Allt miðast við að takmarka völd almennings.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 10:40

19 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ef litið er yfir sviðið og skoða, hve mikið bull kemur frá hinu háa Alþingi er ekki nema von, að svona venjulegt fólk fái upp í kok.

Málefnin virðast ekkert flækjast fyrir kjörnum fulltrúum okkar.  Marg svarnir ,,vinir lítilmagnans", bólgna upp í vandlætingu yfir því, að stjórnvöld huggðust setja mörk á fákeppni í fjölmiðlun.  Jafnvel fyrrum Stalínistar fóru í ham og vörðu einokunarstöðu stórfirirtækja.  Hvernig í ósköpunum er hægt, að bera snefil af virðingu fyrir svoleiðis fólki?

 Verkalýðssinnar fóru á límingunum yfir þeirri gerð stjórnvalda, að hafa stjórna á og hugsanlega hemil á innflæði útlendra starfsmanna og að stjórnvöld hugðust nýta sér ákvæði um húsbóndavald í slíkum málum í höndum landsmanna. 

Ekki var mikið verið að hugsa um niðurboð á vinnulaunum, aðbúnaði, réttindum og öðru því, sem Verkalýsðhreyfingin hafði barist fyrir í áratugi.  Nei nú hét það rasismi og jafnvel verri nöfnum beitt í umræðum á þessu blessaða þingi.

 ÞEgar almennignur horfir á, svona mikin mun á því sem áður er sagt og hvernig fulltrúarnir bregðast við, bara til að búa til ímyndaðan höggstað á meirihlutanum, fer sem fer.

 Hvernig er hægt, að bera virðingu fyrir fólki, sem beitir í sífellu málþófi við hin aðskiljanlegu mál, bara vegna þess, að þeim þykir svo gaman að hluta á sjálfan sig flytja ræður eða bulla eins og mér fynst oftar vera raunin.

Blessaða Íhaldið mitt hefur einnig gerst sekt um, að brjóta sumt, sem hefur verið á skildi okkar grafið til margra ára, til dæmis Kvótakerfið og of mikil eftirlátsemi við Framsóknarmenn, sem virðast aðallega líta á stjórnarsetu sem aðstæður til að koma eign sumra sinna gæludýra á fyrrum opinberum og hálf opinberum eigum, svo sem eigum Samvinnufélagana og nú síðast banka.

 Ég vona, að Landsfundurinn verði vetvangur hreinskiptra skoðanaskipta um GRUNDVALLARATRIÐI Sjálfstæðisstefnunar, Flokknum til hagsbóta og okkur til hressingar.

Kærar kveðjur

með ósk um, að þér vegn vel í vern þess sem hald er í en í Guðsbænum,--ekki meiri túrisma takk, umgengni svona margra er skelfileg, það höfum við báðir séð.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 6.3.2007 kl. 10:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband