5.5.2014 | 19:54
Lítið dæmi um einstefnu hjá hinu opinbera.
Í hitteðfyrra varð til afar lítið mál og málarekstur þar sem einstaklingur lýtur í lægra haldi fyrir ofurveldi hins opinbera. Upphaflega var þetta 2500 króna mál, en nú komið upp undir 8000 krónur og snýst um tvenn prentuð gögn, þar sem aðeins önnur af tveimur sams konar gögnum hinnar opinberu stofnunar, þau sem eru hinu opinbera valdi í vil, eru tekin gild, en hin gögnin sem eru einstaklingnum í vil og sanna, að hann er saklaus af áburði, eru ekki virt viðlits.
Og ástæðan er einföld: Í reglum um þetta er harðbannað að taka slík gögn stofnunarinnar gild, nema þau sanni sekt sakbornings. Ef þau sanna hins vegar sakleysi hans má ekki taka þau gild!
Þetta þætti nú ekki góð latína í dóms- og réttarkerfinu. En skoðum málið aðeins nánar, þótt örsmátt sé, því að það er svolítið lýsandi fyrir það, hvernig "litli maðurinn" á ekki minnstu möguleika gegn "kerfinu" ef í brýnu slær.
Ég lagði bíl mínum í stæði við Tryggvagötu aprílmorgun einn í hitteðfyrra og skrapp inn á skrifstofu þar rétt hjá og kom síðan út eftir stutta stund.
Þá stendur stöðumælavörður við bílinn og er að skrifa upp sekt. Það þótti mér undarlegt því að ég hafði keypt mér mjög rúman tíma, langt umfram þann tíma sem liðið hafði frá því ég lagði bílnum.
Ég gekk því til varðarins og sagði honum þetta. Hann sagðist ekki geta séð á miðanum í gluggakistunni hve langan tíma ég hefði keypt af því að miðinn væri á hvolfi.
Ég sá þá að þegar ég hafði lokað dyrunum í norðangarranum hafði miðinn fokið á hvolf án þess að ég tæki eftir því. Ekki óraði mig þá fyrir því að þessi mistök mín yrðu eftir að vera verðlögð í lokin upp á tæplega 8000 krónur, því að þegar ég opnaði dyrnar og sýndi stöðumælaverðinum miðann, en á honum stóð greinilega, að tíminn sem ég hafði borgað fyrir, var ekki einu sinni hálfnaður, sagði hann að það skipti engu, hann hefði bara vald til að sekta en ekki til að leiðrétta sekt eða draga hana til baka þótt byggð séu á röngum forsendum.
Í þessum svifum komu sms-skilaboð um viðbúnaðarástand vegna jarðhræringa við Heklu og fór ég því að sinna því en fór ekki fyrr en síðar í það að fá leiðréttingu minna mála hjá Bílastæðasjóði.
Til að gera langa sögu stutta hefur málið nú velkst það lengi að bíllinn, sem ég lagði, verður seldur á uppboði nema ég borgi strax hinn heilaga sektarseðil.
Mér er tjáð af öllum þeim, sem ég hef leitað til með þetta mál hjá Bílastæðasjóði og innheimtuaðilum, að enginn mannlegur máttur geti breytt stöðmælasekt sem skrifuð hefur verið upp, og óleyfilegt sé að afturkalla hana, sama þótt á staðnum sé telft á móti skjali, sem sýnir að viðkomandi bíll hafi heimild til að standa í stæðinu á því augnabliki, sem sektarheimild er skrifuð niður, og raunar miklu lengur.
Ég spurði hvort ég mætti fá stöðumælavörðinn til að staðfesta sögu mína og var sagt að það væri af og frá, - miðinn sem hann hefði skrifað væri hið eina og endanlega sönnunargagn í málinu og ekkert annað gagn væri tekið gilt.
Þar með er ljóst að ekkert er við stöðumælavörðinn að sakast. Mér var sagt að honum væri algerlega óheimilt að afturkalla ranga sekt og teldist slíkt brot í starfi.
Sennilega er hægt að finna þá langsóttu skýringu að með því valdi væri honum mögulegt að hætta við að sekta vini sína og vandamenn, sem hefðu brotið af sér, ef þeir væru svo heppnir að ná í skottið á honum áður en hann væri farinn af stæðinu.
Mig grunar að þetta sé ekki eina dæmið um þá einstefnu, sem oft ríkir í viðskiptum þegnanna við þá sem eiga í orði kveðnu að þjóna almenningi, hinu heilaga og hágöfuga ríkisbákni.
Kerfið hefur yfirburði í viðskiptum við einstaklinginn. Það býr til lögin og reglurnar og ræður yfir túlkun þeirra, ræður yfir því hvaða sams konar sönnunargögn og hvaða vitnisburðir eru teknir til greina, ræður yfir niðurstöðu mála og valdinu, sem beitt er. Kyrfilega er frá því gengið að valdið komi svo algerlega að ofan að skynsömum starfsmönnum sé ekki treyst til að fara eftir bestu samvisku, sanngirni og dómgreind.
Athugasemdir
Þetta er eitt það furðulegasta sem ég hef lengi lesið. Ómanneskjulegt kerfi.Kafka lifir góðu lífi.
Eiður (IP-tala skráð) 5.5.2014 kl. 20:31
Verulega vísir mjór,
varð að stórum perum,
Ómar þar á uppboð fór,
út af verði þverum.
Þorsteinn Briem, 5.5.2014 kl. 20:33
Ég átti erindi á Landspítalann í fyrra. Ég setti hundraðkall í stöðumælinn, sem átti að duga vel fyrir þessa stuttu skoðun sem ég var að fara í.
Skoðunin varð meiri en búist var við, og þegar ég kom út 10 tímum seinna var kominn sektarmiði á bílinn.
Ég skrifaði Bílastæðasjóði bréf, og fékk sektina niðurfellda. Trúlega er ekki sama hvort karpað er við bílastæðavörð eða liðið á skrifstofunni.
Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 5.5.2014 kl. 21:26
Eg karpaði reyndar við alla, sem tengjast málinu, en án árangurs.
Ómar Ragnarsson, 5.5.2014 kl. 23:46
Þetta er óþolandi valdnýðsla.
Eyjólfur G Svavarsson, 6.5.2014 kl. 00:00
Er stöðusjóður ekki einfaldlega að taka sér vald sem hann hefur ekki og brjóta á þér með geðþótta sínum eins og mörgum starfsmönnum ríkisstofnana er svo tamt að komast upp með því fáir, ef nokkur, nennir að fara fyrir dóm með slík mál ?
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 6.5.2014 kl. 02:50
Þú ert með kvittun fyrir tímanum sem þú ert sektaður fyrir. Óréttmæt krafa.
Jón Logi (IP-tala skráð) 6.5.2014 kl. 07:20
Sama rökhugsun og beitt er við bréfaopnun hjá tollstjóra!
stefan benediktsson (IP-tala skráð) 6.5.2014 kl. 20:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.