9.5.2014 | 00:12
Einsdæmi að starfsmannafélag vildi ekki nýtt húsnæði.
Líklega er það einsdæmi, að starfsmannafélag opinberrar stofnunar hafi frekar viljað starfa áfram í óhentugu húsnæði, sem ekki var hannað fyrir stofnunina, heldur en að smíðað yrði nýtt og sérhannað hús yfir starfsemin eins og gerðist með smíði Útvarpshússins á sínum tíma.
Ég var í samráðsnefnd vegna þessa og man nokkuð vel eftir þessu. Ástæðan fyrir andstöðu starfsmanna var einföld: Við sáum blasa við að nýja húsið yrði ekki aðeins of stórt, heldur var það í ofanálag ekki hannað fyrir sameiginlega byggingu yfir útvarp, sjónvarp og tækjageymslu, heldur aðeins fyrir starfsemi hljóðvarpsins og skrifstofuhluta stofnunarinnar !
Sjónvarpið átti að vera í annarri byggingu og tækjahlutinn í þeirri þriðju !
Þegar "nefnd um opinberar framkvæmdir" sá þessi ósköp sem átti að þekja mestallt svæðið á milli fjögurra gatna, hafnaði hún þessari yfirþyrmandi stóru og og fáránlega dýru hugmynd að sjálfsögðu.
Þá hefði verið eðlilegt að sest yrði niður að nýju og hæfilega stórt hús hannað upp á nýtt fyrir allar þrjár deildirnar.
En nei, í staðinn fannst þeim sem að þessari vitleysu stóðu, hugmyndin vera svo heilög, að í staðinn yrði sjónvarpinu og tækjadeildinni troðið inn í það hús, sem upphaflega átti bara að hýsa skrifstofuhlutann og hljóðvarpið !
Ég man að Emil Björnsson, þáverandi fréttastjóri Sjónvarpsins, lagðist strax eindregið gegn þessu, enda blasti við að þessi hrákalausn fáránleikans yrði að mörgu leyti verri en ef við værum áfram í Bílasmiðjuhúsinu við Laugaveg.
Hrafn Gunnlaugsson orðaði þetta vel síðar þegar hann kom til starfa síðar sem dagskrárstjóri Lista- og skemmtideildar Sjónvarpsins: "Útvarpshús á ekki að vera dýrt og hátimbrað minnismerki um glæsi-arkitektúr, heldur einungis hagkvæm bygging verksmiðju þar sem framleitt er menningarefni."
Þrátt fyrir baráttu gegn þessum ósköpum tókst ekki að afstýra þessu stóra menningarslysi, því auðvitað er það stórfellt menningarslys þegar fjármunum er eytt í bruðl og vitleysu áratugum saman í stað þess að nýta það til þess eina, sem menning byggist á, sköpum menningar og listar.
Það var erfitt um vik fyrir okkur, sem andæfðum, að koma sjónarmiðum okkar á framfæri, af því að okkur var málið skylt og "of nálægt okkur, og því viss lömun í gangi.
Sem dæmi má nefna, að til þess að forsóma ekki alveg að Ríkisútvarpið sjálft fjallaði þó um þessar deilur, varð niðurstaðan sú að aðeins yrði flutt ein sjónvarpsfrétt þar sem gagnstæð sjónarmið fengju að vegast á.
Gerð var ein frétt og ég fékk það verkefni að rekja rök andófsmanna og varð að klára það á 40 sekúndum !
Ég man enn hve erfitt það var fyrir mig að pakka þessu stóra máli niður í svo stuttan tíma, enda gæti ég skrifað langt og skrautlegt mál um þetta endemi sem Útvarpshúsið er.
Borgin skoðar Efstaleiti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fróðlegt, hef ekki vitað af þessu fyrr. Þið hafið greinilega verið mjög kúguð þarna í þessu máli, skil ykkur vel.
Haraldur (IP-tala skráð) 9.5.2014 kl. 05:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.