10.5.2014 | 19:37
Mikil heppni í einstæðu loftbelgsflugi á Íslandi 1976.
Í júlí 1976 átti að fljúga fyrsta sinn með farþega í tveggja manna loftbelg frá Álftanesi og var mér boðið í þá ferð. Flugið með mig varð hins vegar stutt, rúmlega mínúta, því að mér tókst ekki að komast um borð í loftbelgskörfuna, heldur hékk utan á henni á leið belgsins eftir jörðinni um tón, gegnum girðinug og órækt, yfir Álftanesveginn og þar aftur eftir móa.
Þá lyftist belgurinn skyndilega upp með mig hangandi utan á körfunni.
Það var eitthvert skelfilegasta augnablik lífsins að hanga svona utan á, sjá jörðina fjarlægjast fyrir neðan sig og vita að útilokað var að komast um borð eða halda takinu áfram.
En heppnin var með, loftbelgurinn missti flugið og skall á jörðinni augnablik á fleygiferð undan vindinum, sem þarna var, svo að ég missti takið og losnaði frá án þess að lenda undir körfunni, sem var byrjuð að snúast og hefði getað kramið mig illa ef ég hefði hangið hlémegin á því augnabliki.
Loftbelgurinn hafði lést það mikið við þetta að hann náði flugi á ný og fauk með suðvestan vindi alla leið upp í Leirársveit. Lenti að vísu í vatni í stutta stund í Lamhústjörn en komst upp úr henni og stefndi á tímabili inn um gluggann á forsetasetrinu, en slapp yfir það á síðustu stundu.
Hann komst með naumindum yfir Akrafjall, en þá var Skarðsheiðin, mun hærra fjall, framundan og afar ógnandi.
Belgurinn lækkaði þá flugið, en í Leirársveit lenti hann á rafmagnslínu, heilmikill blossi gaus upp, rafmagninu í sveitinni sló út, en loftbelgurinn féll til jarðar og það kviknaði í neðsta hluta hans, svo að hann varð kolsvartur. Stjórnandinn slapp vel, marðist að vísu en brotnaði ekki.
Þarna var hvað eftir annað mikil heppni á ferð og það kemur upp í hugann nú þegar fréttist af hræðilegu loftbelgsslysi í Bandaríkjunum þar sem belgurin fuðraði upp í árekstri við háspennulínu og sprakk síðan.
Loftbelgur flaug á rafmagnslínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Bessastaðabóndans happ,
af belgnum féll allt rykið,
upp í loftið Ómar skrapp,
en ekki var það mikið.
Þorsteinn Briem, 10.5.2014 kl. 20:24
Ómar! Finnst þér í alvöru ekki komin ástæða til að endurskoða samskiptin sem fara fram á bloggsíðunni þinni? Hér vísa ég til þeirrar umræðu sem fram fer enn á bak við færslu þína frá 3.5.2014 | 09:38.
Það sem þar fer fram er löngu komið út yfir allan þjófabálk.
Þorvaldur Sig (IP-tala skráð) 10.5.2014 kl. 21:07
Gott að ekki fór eins illa og í Bandaríkjunum.
Þú kannast við þessa sögu: http://www.fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1368280/
FORNLEIFUR, 11.5.2014 kl. 00:04
Ég var á Hlíðardalsskóla í summarbúðum 1976 þegar sá sami loftbelgur fór á loft frá skólanum fyrir austan fjall. Ég á myndir af þessum viðburði sé ég 38 árum síðar.
Baldvin Nielsen
B.N. (IP-tala skráð) 11.5.2014 kl. 10:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.