13.5.2014 | 11:42
Er á þingi vegna þingmannseiðsins.
Pétur Blöndal hefur setið óvenju lengi á þingi miðað við umrót síðustu sjö ára. Þetta hefur honum ekki tekisti vegna þess að hann sé leiðitamur forystu síns flokks eða öflugum valdahópum innan hans heldur vegna þess, að nógu stór kjósenda hefur treyst honum í öll þessi ár til þess að efna þingmannseiðinn um að fara eingöngu eftir eigin sannfæringu.
Það getur varla verið neitt annað sem viðheldur fylgi hans, vegna þess skoðanir hans á mörgum málum eru bæði sérstakar og oft umdeilanlegar, bæði meðal almennings og meðal ráðandi afla í flokki hans.
Við Hrunið hrundi ekki aðeins bankakerfið, heldur traust fólks á stjórnmálamönnum og stjórnmálastarfi.
Traust almennings á Alþingi hefur farið vel niður fyrir 20% og er með því lægsta, sem nokkur opinber stofnun má sæta.
Í ýmsum efnum er ég innilega ósammál Pétri, til dæmis varðandi sum atriði umhverfis- og náttúruverndarmála.
Hef þó tekið eftir því að það stafar oft af því að hann virðist ekki hafa sökkt sér nægilega niður í þann málaflokk og í flestum málum erum við þó í raun sammála.
En um Pétur er hægt að segja það sem einhvern tíma var sagt um stjórnmálamann: "Ég er þér innilega ósammála um sumar þeirra skoðana, sem þú heldur fram og hef á þeim skömm, en ég mun berjast með kjafti og klóm fyrir því að þú fáir tækifæri til að láta þær í ljósi."
Ég held að það séu fáir ef nokkrir sem setið hafa á þingi jafn lengi og Pétur að því er virðist fyrir það eitt að sýna í verki að hann hefur fyrst og fremst þingmannseið sinn í heiðri.
Fyrir það á hann heiður skilinn.
Felur í sér óásættanlega mismunun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"...að hann hefur fyrst og fremst þingmannseið sinn í heiðri. Fyrir það á hann heiður skilinn."
Jæja, eiga menn nú heiður skilinn fyrir það eitt að halda gefinn eið.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.5.2014 kl. 12:48
Ekki síður en þeir ofurlaunamenn sem fá borgað með sér þegar þeir eru settir af.Svokallaðan bónus fyrir störf sem þeir fengu góð laun fyrir að skila af sér, það er ekki heiglum hent að standa upp úr í Gaugshreiðrinu við Austurvöll.
Eyjólfur G Svavarsson, 13.5.2014 kl. 14:40
Það mun seint gleymast þegar Pétur Blöndal fullyrti við troðfullan sal í Háskólabíói á borgarafundi Hagsmunasamtaka heimilanna, að hann væri þrátt fyrir allt alls ekki hlynntur verðtryggingu. Þess verður ekki síst minnst fyrir það með hvaða hætti hann fylgir svo þeirri (meintu) sannfæringu sinni eftir með verkum sínum í kjölfarið.
Guðmundur Ásgeirsson, 13.5.2014 kl. 16:29
Ekki gleyma hrokanum þegar hann sagði að það væri ekkert mál
að lifa af á 100.000 kr, á mánuði. Maður sem aldrei hefur þurft að
hafa áhyggjur reikningum og framfærslu á ævinni.
Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 13.5.2014 kl. 19:57
Guðmundur, verkin tala?
Pétur er sannfærandi og raunhæfur þegar hann talar um tölur. T.d. í síðdegisútvarpinu í dag er hann hélt því fram að laun hefðu hækkað í takt við aukinn hagvöxt. Óraunhæfar launahækkanir hefðu alltaf gengið til baka þegar litið er til lengri tíma.
Sjálfstæðismenn tala öðrum þræði um að verkfallsrétturinn sé heilagur. Jafnvel hjá stéttum sem hafa margföld verkamannalaun. Dæmið gengur ekki lengur upp. Fámennir sérhagsmunahópar geta rústað heilu atvinnugreinarnar.
Pétur og Vilhjálmur eru töluglöggir og sjá sýndarveruleikann.
Ótrauðir við að halda fram sannfæringu sinni. Gáfumenn, en þar með ekki sagt að þeir geri ekki mistök. Hvað olli framhlaupi og falli sparisjóðanna? Því er ekki haldið á lofti, öðrum til viðvörunar.
Sigurður Antonsson, 13.5.2014 kl. 20:19
Pétur hefur sagt ýmislegt sem ég er ósáttur við. Hann sagðist á þingi vera hlynntur virkjunum á hálendi Íslands með "snyrtilegum miðlunarlónum." Ekki var ég par hrifinn af þessum ummælum, sem byggðust á almennu þekkingarleysi á því hvers eðlis "snyrtileg miðlunarlón" eins og Hálslón eru.
Fyrri part sumars er meginhluti lónstæðis Hálslóns þurrt, þakið fíngerðum jökulleir upp á nokkur milljón tonn, sem jökullinn ber í lónið á hverju sumri.
Ekki þarf nema strekkings hnjúkaþey á hlýjustu og björtustu dögum sumarsins til þess að af þessum ca 35 ferkílómetrum af lausum leirsandi myndist leirstormar af verstu gerð, skyggnið nánast ekkert og ekki líft á foksvæðinu.
Eftir því sem lónið fyllist minnkar leirstormasvæðið en það er ekki fyrr en í lok ágúst eða miðjum september sem það fer loks allt undir drulluskólpið, sem Hálslón er, - en skyggni ofan í vatninu er aðeins örfáir sentemetrar.
En engu að síður er það svo, að Pétur virðist óhræddur við að viðra sínar fjölbreytilegu skoðanir án þess að falla fyrir freistingunni til lýðskrums. Þeir eru ekki margir slíkir, í stjórnmálunum núna.
Ómar Ragnarsson, 13.5.2014 kl. 23:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.