13.5.2014 | 20:34
Löngu úrelt skipting og skipulag höfuðborgarsvæðisins.
Ef litið er á kort af höfuðborgarsvæðinu sést að hverfin þrjú, Grafarvogur, Árbær og Breiðholt ættu miklu frekar að vera saman í sérstöku, stóru sveitarfélagi því að Kópavogur liggur nær Reykjavík.
Þyngdarmiðja íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins er aðeins nokkur hundruð metra fyrir norðvestan Skemmuhverfið í Kópavogi.
1954 gafst gullið tækifæri til að sameina Reykjavík og Kópavog en eingöngu þröngir pólitískir hagsmunir tveggja flokka, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins, komu í veg fyrir það.
Í Reykjavík voru Sjálfstæðismenn með meirihluta í bæjarstjórn en "kommarnir" voru í meirihluta í Kópavogi.
Sameining hefði þýtt að báðir þessir flokkar hefðu misst bæjarstjórnarmeirihluta, kommarnir vegna þess að þeir réðu ekki lengur sem meirihlutaafl í sérstöku sveitarfélagi, og Sjallar hefðu misst meirihlutann í Reykjavík við það að fá hina vinstri sinnuðu kjósendur í Kópavogi inn á kjörskrá í Reykjavík.
Að vísu hefði verið hægt að koma í veg fyrir þau skipulagsslys, sem síðan hafa orðið á þessu svæði með því að drífa í því að nota lagasetningu til að skapa sérstakt sameiginlegt skipulagsvald fyrir höfuðborgarsvæðið, en það var aldrei gert.
Gott dæmi um ruglið er það, að til þess að komast á bíl hundrað metra vegalengd milli húsa, sem eru annars vegar í Salahverfinu í Kópavogi og hins vegar í Seljahverfinu í Breiðholtinu, þarf að aka fjögurra kílómetra vegalengd !
Milli landamerkjum þessara tveggja hverfa liggur sem sé á stærstum kafla svæði, sem líkist helst einskis manns hlutlausu svæði á milli tveggja óvinaríkja !
Í græðgisbólunni í aðdraganda Hrunsins ríkti stjórnlaus og skipulagslaus keppni milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um sölu lóða og byggingu nýrra hverfa.
Raunar hefur þetta ástand verið að miklu leyti viðvarandi árum saman á svæðinu. Þannig hefur Garðabær byggt blekkingar sínar varðandi Álftanesveg á þeirri draumsýn að reisa með hraði 20 þúsund manna byggð á Álftanesi með tilheyrandi hraðbraut og lengi vel var það draumsýn á Seltjarnarnesi að reisa stórbyggð þar til að geta selt nógu mikið af lóðum til að auglýsa "lægsta útvar á Íslandi."
Hugsunin á bak við er sú, að ef byggðin haldi ekki áfram að vaxa hratt, fækki þar yngra fólkinu og þar með myndu tekjurnar af því fyrir bæjarfélagið minnka.
Allir sjá, að á Seltjarnarnesi hlýtur að koma að því að ekki verði hægt að fjölga fólki og raunar er komið að því þegar.
En ef Seltjarnarnes væri hluti af Reykjavík og íbúar þar borguðu útsvar til Reykjavíkur, væri engin ástæða fyrir því kröfunni um hinn endalausa vöxt byggðarinnar þar.
Klaufagangur hlýtur að ráða því að framboð til borgarstjórnar í Reykjavík setji upp auglýsingu í Kópavogi og tali í henni um "hverfi borgarinnar".
Væri hins vegar höfuðborgarsvæðið eitt sveitarfélag með 3-5 nokkuð sjálfstæðum einingum drjúgrar sjálfsstjórnar, væri svona auglýsing hins vegar fullkomlega eðlileg.
Er þetta upphaf óvinveittrar yfirtöku? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sum nágrannasveitarfélög Reykjavíkur leigja íbúðir í borginni fyrir undirmálsfólkið sitt.
stefan benediktsson (IP-tala skráð) 13.5.2014 kl. 21:23
Í hvaða íbúð er þessi meinti þyngdarpunktur?
Þorsteinn Briem, 13.5.2014 kl. 21:57
Kópavogsmærin Kata Júl
kann í bakkann klóra,
úr Skítalæknum frekar fúl
flæmdi aftur Dóra!Þjóðólfur í Frekjuskarði (IP-tala skráð) 13.5.2014 kl. 22:14
Sæll Ómar. Ég skil ekki alveg þetta tal þitt um "einskismannsland" milli Seljahverfis og Linda- og Salahverfis. Á korti ( http://www.openstreetmap.org/#map=15/64.0979/-21.8465 ) sést augljóslega að þarna á milli er einn göngustígur, Landamærastígurinn svokallaði, sem að ætti að vera af hinu góða. Þú kannski sérð ofsjónum yfir auða svæðinu sem er allt í Reykjavík við Reykjanesbrautina, fyrir neðan ÍR-svæðið?
Ég tel að íbúar ystu hverfa Reykjavíkur ættu að stofna sitt eigið sveitarfélag sem hefur þeirra hagsmuni í huga, "miðsækni" (eða lækjarsækni kannski réttari) virðist mjög sterk í embættiskerfinu þar og sést vel á lokun opinberrar þjónustu í þeim hverfum.
Sem Kópavogsbúa vil ég halda Kópavogi áfram sjálfstæðum. Þetta er yfir 30.000 manna sveitarfélag og einhverjar rannsóknir vilja meina að 30-50 þúsund manna sveitarfélög séu hagkvæmari en stærri eða minni einingar en það.
Jóhannes Birgir Jensson, 14.5.2014 kl. 09:38
Reykjavík er stjórnað af borgarstjórn Reykjavíkur og Grafarvogur, Árbær og Breiðholt geta ekki orðið sjálfstætt sveitarfélag eða hluti af öðrum sveitarfélögum en Reykjavík án þess að borgarstjórn samþykki það.
Íbúar í þessum þremur hverfum geta átt fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur ef þeir vilja, til dæmis með sérstökum framboðum, og nær að fækka sveitarfélögum hér á Íslandi en að fjölga þeim.
Hins vegar er ólíklegt að flestir Kópavogsbúar vilji verða Reykvíkingar eða öfugt og einnig ólíklegt að meirihluti Seltirninga vilji verða Reykvíkingar, enda þótt þeir starfi í Reykjavík og einungis rúmlega 4 þúsund búi á Seltjarnarnesi.
Alls áttu 40.295 lögheimili í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar 1. janúar 2013, rúmlega þriðjungur Reykvíkinga, þar af 15.708 í 101 Reykjavík, 16.067 í 105 Reykjavík og 8.520 í 107 Reykjavík.
Fá fyrirtæki eru í Grafarvogi, Árbæ og Breiðholti en um 630 fyrirtæki eru í 101 og um 640 í 105 (Hlíðum og Túnum).
Í þessum tveimur póstnúmerum eru því um 1.300 fyrirtæki, jafnmörg og í samanlagt öllum Hafnarfirði og Reykjanesbæ.
Þorsteinn Briem, 14.5.2014 kl. 11:45
Stærra er ekki alltaf betra Herra Briem, það er vel þekkt að of stórar stjórnsýslueiningar verða svifaseinar og óhagkvæmar.
1505 fyrirtæki (hf og ehf) skráð í Kópavogi.
Jóhannes Birgir Jensson, 14.5.2014 kl. 13:34
Það er nýtt fyrir mér að göngustígar einir nægi sem samgönguæðar í þéttbýli eins og sagt er í athugasemd hér að ofan að nægi sem tenging á milli Seljahverfis og Salahverfis.
Meðan bílum hefur ekki verið útrýmt munu þeir verða notaðir, þótt ekki sé nema til þess að flytja varning. Og ég hélt að það teldist vera akkur í því að stytta leiðir í gatnakerfinu.
Ómar Ragnarsson, 14.5.2014 kl. 13:54
Hvorki Reykjavík né Kópavogur eru stór sveitarfélög.
Auk fyrirtækja er fjöldinn allur af stofnunum í 101 Reykjavík, háskólar og fjölmennasti vinnustaður landsins, Landspítalinn.
Og ekkert annað póstnúmer á landinu skapar meiri gjaldeyristekjur en 101 Reykjavík.
Þorsteinn Briem, 14.5.2014 kl. 13:59
Þessi Open street map mynd frá Jóhannesi sýnir hversu slæmt þetta skipulag er á höfuðborgarsvæðinu. Svona botnlangaskipulag er algjör martröð þegar kemur að samgöngum í samanburði við rúðustrikað skipulag. Þetta sést ágætlega hér hversu langt þú kemst á sama km fjölda í báðum kerfum:
http://urbanist.typepad.com/.a/6a00d83454714d69e20133ed8303be970b-800wi
Kommentarinn, 14.5.2014 kl. 15:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.