19.5.2014 | 09:07
"Ég hef aldrei áður flutt flugvöll."
Jón Gnarr borgarstjóri varð þjóðþekktur fyrir það að vera orðheppinn maður með frumlega sýn á hlutina sem oft var þó svo einstaklega einföld.
Þegar hann tók við borgarstjórastöðunni voru fyrstu viðbrögð hans við hugmyndinni um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður og flytja starfsemi hans annað fólgin í ummælum um það að hann skorti reynslu í að flytja flugvelli.
"Skrifaðu flugvöll" var fleyg setning frambjóðanda eins fyrir um 70 árum á framboðsfundi, sem hann sagði við fylgdarsvein sinn þegar talið barast að skorti á flugsamgöngum í héraðinu.
Sú setning lýsti þó mun einfaldari gerningi en þeim, sem Jón Gnarr taldi sig standa frammi fyrir í upphafi borgarstjóratíðar sinnar.
Því að hugmyndirnar um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður og reisa annan eru þrefalt flóknari en að reisa nýja íbúðabyggð, sem sé þær að rífa í fyrsta lagi heilan flugvöll með allri þeirri flugtengdu starfsemi sem þar er, byggja í öðru lagi annan flugvöll á einhverjum öðrum stað sem enginn veit, hvort er til, og reisa síðan í þriðja lagi heila íbúðabyggð þar sem hinn rifni flugvöllur stóð.
Má merkilegt heita að hjá borg, sem ræður yfir óbyggðum svæðum nær þungamiðju byggðarinnar, skuli það ekki blasa við, að þrefalt einfaldara og hagkvæmara er að reisa íbúðabyggðir á þeim svæðum, heldur en að bæta því við að rífa flugvöll og byggja annan í ofanálag.
Ég fór að gamni mínum um Hólmsheiði í fyrradag og undraðist enn meira en fyrr hvernig mönnum dettur í hug að veifa því að reisa flugvöll þar, miðað við það hóla- og hæða-landslag sem er á svæðinu.
Um svæðið liggja hitavatnsleiðsla til borgarinnar og raflína, auk þess sem þar er stærsta spennistöð Reykjavíkursvæðisins og reisa á risafangelsi, sem er bráðnauðsynlegt, þar sem nú þegar ríkiri mismunun á milli þeirra sem hafa fengið fangelsisdóma, sem er fólgin í því að tugir þeirra þurfa ekki að afplána dómana vegna þess að þeir fyrnast.
Aðal aðflugflugið að Hólmsheiðarflugvelli yrði yfir þrjú stór íbúðahverfi í Reykjavík og í öllum áætlunum um þennan óra flugvöll er ekkert hugsað um þann tugmilljarða kostnað sem fylgir því að reisa allar þær byggingar og vegatengingar sem svona flugvöllur kallar á.
Síðan kóróna óhagstætt veðurfar og flugskilyrði vitleysuna.
Nýtt mat á afkastagetu dreifikerfis Orkuveitunnar, sem nú er upplýst um að fylgi nýrri íbúðabyggð, er aðeins eitt af mörgum framkvæmdaatriðum, sem hrúgast munu upp með því að rífa núverandi flugvöll og demba þar niður íbúðahverfum, sem kalla á aukna umferð og vaxandi umferðarteppur á sama tíma og búið er að samþykkja að engar nýjar vegaframkvæmdir verði í Reykjavik næstu tíu ár vegna fjárskorts.
Í áætlunum um þessi íbúðahverfi gefa menn sér þá gölnu forsendu að enginn íbúi þeirra muni nota bíl, heldur allir hjóla eða ganga og að það muni draga úr umferð og fækka umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu um 40% !!
Meira að segja í kommúnistaríkjum Austur-Evrópu gengu svona formúlur og ímynduð miðstýring ekki upp.
Ný byggð kallar á mat á afköstum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Og hvað segir þetta okkur? Forðast Samfó sem auglýsir "excess" (ofgnótt?)...
Hvumpinn, 19.5.2014 kl. 10:24
Allt satt og rétt hjá Ómari. Og ég vona að menn leggi við hlustir enda er hann eini núlifandi íslendingurinn sem hefur upp á eigin spýtur "smíðað" heilan flugvöll á hálendi Íslands.
Magnús (IP-tala skráð) 19.5.2014 kl. 10:27
Flugvöllur á Hólmsheiði:
Þorsteinn Briem, 19.5.2014 kl. 15:37
"Flestir flugfarþegar eru karlmenn á aldrinum 30-35 ára, sem nota flugið vegna vinnu eða viðskipta.
Tæplega helmingur ferða er greiddur af einkafyrirtækjum og opinberum aðilum.
Keflavíkurflugvöllur er vel í stakk búinn til að taka við innanlandsflugi, reisa þyrfti nýja flugstöð eða finna henni stað í húsnæði sem til staðar er á vellinum."
Innanlandsflug um Keflavíkurflugvöll, möguleikar og samfélagsleg áhrif - Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, janúar 2014
Það er stefna Reykjavíkurborgar að flugvöllurinn verði fluttur af Vatnsmýrarsvæðinu á annan stað í Reykjavík en ef menn vilja það ekki endar það sjálfsagt með því að innanlandsflugið verði flutt til Keflavíkurflugvallar fyrir árið 2022, eftir átta ár, þegar flugvöllurinn verður farinn af Vatnsmýrarsvæðinu.
Þorsteinn Briem, 19.5.2014 kl. 15:43
En hver er stefna meirihluta Reykvíkinga? Og Landsmanna? Alþingis?
Jón Logi (IP-tala skráð) 19.5.2014 kl. 21:06
26.3.2014:
"Samfylkingin mælist með 28% atkvæða og fengi fimm borgarfulltrúa ef kosið yrði nú.
Björt Framtíð fengi tæp 25% og Sjálfstæðisflokkurinn 24,4%.
Báðir þessir flokkar fengju fjóra borgarfulltrúa en Píratar og Vinstri grænir einn hvor."
Samfylkingin stærst í borginni - Sjálfstæðisflokkurinn þriðji stærstur
Þorsteinn Briem, 19.5.2014 kl. 21:32
"Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur í vikunni var að nýju lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar.
Var hún samþykkt með sex atkvæðum fulltrúa Besta flokksins, Páls Hjaltasonar, Elsu Hrafnhildar Yeoman og Karls Sigurðssonar; fulltrúa Samfylkingarinnar, Hjálmars Sveinssonar og Kristínar Soffíu Jónsdóttur; sem og fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs, Sóleyjar Tómasdóttur."
Þorsteinn Briem, 19.5.2014 kl. 21:33
Þar að auki eru sumir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fylgjandi því að Reykjavíkurflugvöllur fari af Vatnsmýrarsvæðinu.
Þorsteinn Briem, 19.5.2014 kl. 21:34
Nær allt landið undir norður-suður braut flugvallarins á Vatnsmýrarsvæðinu er í eigu Reykjavíkurborgar og einkaaðila.
Og ein flugbraut nægir ekki á Vatnsmýrarsvæðinu.
Þorsteinn Briem, 19.5.2014 kl. 21:36
Undirskriftir í fyrra um Reykjavíkurflugvöll voru um 29% af þeim sem voru á kjörskrá í síðustu alþingiskosningum.
Þar að auki voru þessar undirskriftir langt frá því að vera eingöngu undirskriftir Reykvíkinga og undirskriftasafnanir eru ekki kosningar, sem hafa nú þegar farið fram um Reykjavíkurflugvöll.
Og ekki er kosið um nákvæmlega sama mál þar til einhverjir verða ánægðir með niðurstöðuna.
Þorsteinn Briem, 19.5.2014 kl. 21:40
"demba þar niður íbúðahverfum, sem kalla á aukna umferð og vaxandi umferðarteppur" Það er nú einmitt málið, íbúðahverfið í mýrinni eykur ekki umferð heldur dregur úr umferð, umferðaslysum og umferðarmengun svo nemur um 11 milljörðum á verðlagi ársins 2007.
Stefán Benediktsson (IP-tala skráð) 19.5.2014 kl. 23:48
sýndarmennska að þykjast ætla að flytja flugvöll þegar þeir meina til Kef., http://en.wikipedia.org/wiki/File:Kansaiviewfromplane.JPG
GB (IP-tala skráð) 20.5.2014 kl. 09:53
Hafðu þakkir Ómar fyrir þennan rökfasta og vandaða pistil
Það er vinsæl upphrópun að innanlandsflugi sé haldið uppi af opinberum starfsmönnum. Þetta var kannað árið 2006 fyrir samgönguráð og í ljós kom að opinberir starfsmenn telja 11% farþega. Flestir svarenda eða 49% fljúga á eigin vegum og 40% á vegum einkafyrirtækis. Á vegum ríkisins fljúga 6% og svo 5% á vegum sveitarfélaga. (mynd 13) Þannig að 89% fargjalda eru greidd af einkaaðilum.
http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/2006_konn_far_flug/$file/Far%C3%BEegar%20innanlandsflug%202006_L2_.pdf
Hagrfæðideild Oxford háskóla rannsakaði árið 2012 efnahagsleg áhrif flugrekstrar á samfélagið. Niðurstöðurnar komu mörgum á óvart. Efnahagslegur ábati af flugrekstri á Íslandi gríðarmikill. Atvinnugreinin skapar alls 20.600 störf og þjóðhagsleg áhrif á verga landsframleiðslu eru kringum 12,9% Það er margfalt hærra hlutfall en í nágranalöndunum. Einnig skiptir máli að framleiðni er mikil í störfum tengdum flugrekstri. Þannig er árleg verðmætasköpun hvers starfsmanns 16 milljónir króna, en það er 74% meira en meðalstarf á Íslandi. Þetta er það sem er að gerast m.a. á Reykjavíkurflugvelli. Það er engum blöðum um það að fletta að flugrekstur er einn af undirstöðu atvinnuvegum þjóðarinnar.
http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27962
Í skýrslu samráðsnefndar samgönguráðuneytisins og Reykjavíkurborgar frá árinu 2007 segir á bls. 23 að innanlandsflug verði ekki flutt til Keflavíkurflugvallar öðruvísi en að varaflugvöllur verði byggður á suðvesturlandi. Það vekur mann óneitanlega til umhugsunar. Hvaða 300.000 manna þjóð getur leyft sér þá ráðstöfun, að rífa stráheilan flugvöll, til þess eins að byggja nýjan á öðrum stað? Milljónaþjóðir hafa leyft sér slíkt. Bankahrunið 2008 ætti að hafa kennt okkur að sníða okkur stakk eftir vexti.
http://www.innanrikisraduneyti.is/media/rvkflugvollur-skyrslur/Flugvollur_uttekt.pdf
Í dag fer allur viðskiptaafgangur íslands í vexti. 300 þúsund manna þjóð sem þarf að endurfjármagna 2.700 milljarða, hefur ekki efni á því að rífa stráheilan flugvöll, til þess eins að byggja nýjan á öðrum stað. Þjóðin þarf að einbeita sér að raunverulegri verðmætasköpun, eins og fer fram t.d. á Reykjavíkurflugvelli.
Bestu kveðjur
Ingvar Tryggvason (IP-tala skráð) 23.5.2014 kl. 15:45
Best að fylla upp Löngusker og ryðja nýjar flugbrautir þar. Nota svo tækifærið og vegtengja Skerjafjörð, Kársnes og Álftanes saman. Allir sáttir.
Hafsteinn Árnason (IP-tala skráð) 24.5.2014 kl. 00:54
"Atvinnugreinin skapar alls 20.600 störf og þjóðhagsleg áhrif á verga landsframleiðslu eru kringum 12,9%."
Ertu í alvöru að haldaþví fram að innanlandsflugið skapi 20.000 störf Ingvar Tryggvason? Það er ekki nema von að þetta flug sé verulega niðurgreitt af almenningi.
Anna Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 24.5.2014 kl. 10:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.