Áfram deilt um gildi öflugra hervarna.

Svisslendingar og Svíar halda fram hlutleysisstefnu og hafa ekki átt aðild að striðsátökum í um tvær aldir.

Í báðum löndunum hefur því verið haldið fram að engin leið sé að verja hlutleysi nema með nógu öflugum herviðbúnaði.

Hlutleysi Dana, Norðmanna, Finna, Íslendinga, Hollendinga, Belgíumanna og Lúxemborgara dugði ekki í síðustu heimsstyrjöld, en Svíar og Svisslendingar sluppu og töldu það vera ávöxt öflugra hervarna.

Um þetta má deila.

Bent hefur verið á að Öxulveldin réðu lögum og lofum umhverfis Sviss og þurftu hvort eð er ekki á því að halda að ráðast inn í landið.

Á móti koma rök þeirra, að ef litlar sem engar hervarnir hefðu verið í Sviss hefði verið óvissa um þetta.

Svipað er að segja um Svíþjóð. Meðan griðasamningur var í gildi milli Þjóðverja og Sovétmanna 1939-41 gátu þeir síðarnefndu í rólegheitum knésett Finna með hervaldi veturinn 1939 til 1940 og Eystrasaltslöndin í júní 1940 eftir að Þjóðverjar höfðu lagt Danmörku og Noreg undir sig.

Þjóðverjar höfðu upphaflega engar áætlanir um að taka Noreg en þegar þeim þótti líklegt í byrjun árs 1940 að Bretar myndu beita flota sínum og her til að stöðva flutninga járns frá Narvik til Þýskaland, drifu þeir í að taka landið.

Grunur þeirra var á rökum reistur, því að Bretar voru með áætlun sína tilbúna og meira að segja að leggja undir sig járnbrautarleiðina frá járnnámunum í Svíþjóð til strandar Svíþjóðarmegin.

Þeir reiknuðu með því að hvorki Svíar né Norðmenn myndu leggja í bein hernaðarátök gegn breskum flota og landher, heldur sætta sig við orðinn hlut og að þar með yrði engin ástæða fyrir Breta að hernema löndin, heldur aðeins járnnámurnar og flutningaleiðirnar frá þeim.  

 Þeir hófu að leggja tundurdufl í siglingaleiðina við Narvik kvöldið fyrir innrás Þjóðverja, án þess að vita um hana, og brjóta þannig gegn hlutleysi og sjálfstæði Noregs. 

En Þjóðverjar gerðu það sem Bretar töldu óhugsandi, að nota þúsund flugvélar til að ná yfirráðum í lofti yfir Noregi og hernema landið í krafti þess. Ótruflaðir flutningar járns frá námunum í Svíþjóð var forsenda fyrir stríðsrekstri Þjóðverja og máttlítill herafli Norðmanna mátti sín einskis þrátt fyrir hetjulega baráttu.    

Þar með var Svíþjóð innilokuð eins og Sviss og Þjóðverjar þurftu ekki að eyða púðri í að leggja landið undir sig.

Þegar Finnar gengu í lið með Þjóðverjum í stríði gegn Rússum voru Svíar áfram umkringdir og urðu að beygja sig fyrir kröfum Þjóðverja um að leyfa lokuðum lestum að fara með þýska hermenn frá Narvik í Noregi austur í gegnum Svíþjóð til hernaðar í Rússlandi.

Þeir voru í vonlausri stöðu til að fara í stríð, urðu að sætta sig við þetta og Þjóðverjar voru bara fegnir því að þurfa ekki að gera neitt meira gagnvart þeim.   

Alveg sama rökræðan hefur verið í Svíþjóð um gildi öflugs herbúnaðar og í Sviss og að það sé öflugum her Svía að þakka að landið hefur ekki verið hernumið eða tekið beinan þátt í hernaði í tvær aldir.

Hergagnaiðnaður Svía er afar þróaður og Svíar selja samkeppnishæfar þotur, Saab Gripen, á alþjóðamarkaði.

Samkvæmt handbókum um órrustuvélar eru þessar þotur í fremstu röð eins og er í heiminum og vegna hlutleysis beggja landa, Sviss og Svíþjóðar, eðlilegt fyrir Svisslendinga að eiga viðskipti við Svía um herþotur ef á annað borð á að halda svissneska flugflotanum samkeppnishæfum.

Northrop F-5 Tiger orrustuþoturnar þeirra voru hannaðar fyrir meira en hálfri öld og standa nútíma herþotum langt að baki. Þeir sem vilja endurnýja þær benda á reynslu þeirra þjóða í seinni heimsstyrjöldinni, sem áttu fáar og úreltar flugvélar, sem reyndust gagnslitlar gegn fullkomnum flugvélum Þjóðverja.

Tiger þoturnar eru að vísu liprar og einfaldar en nýju þoturnar fljúga 500 km/klst hraðar og klifra tvöfalt hraðar.  

 En nú hafa Svisslendingar hafnað því, að vísu með tæpum meirihluta í atkvæðagreiðslu að endurnýja flugflotann. Það mun koma í veg fyrir að þeir ráði yfir bestu fáanlegum herþotum og þar með vekja spurninguna um það, hvort úreltar þotur muni nýtast til að verjast eða hafa fælingarmátt gegn því að lenda í stríðsátökum og viðhalda sjálfstæði og fullveldi landsins.

Raunar er erfitt að sjá hverjir það ættu að vera, sem vildu fara með hernaði á hendur Svisslendingum.

Landið er umlukið vinveittum ESB þjóðum sem hafa lítt haft sig í frammi við beitingu hervalds, að minnsta kosti verið það slappar í þeim efnum, að innan NATO eru uppi raddir um að ósanngjarnt er að Bandaríkjamenn beri hitann og þungann af hernaðarmætti NATO.   


mbl.is Greiddu þjóðaratkvæði um kaup á orrustuþotum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það var kannski atriði út af fyrir sig fyrir Þjóðverja að halda Sviss fríu. Þetta gat jú verið fjármálalegur lykill þeirra að heiminum.
Og Svíar, - þeir framleiddu fyrir Þjóðverja og seldu þeim. Reyndar Bretum líka.
Það urðu skærur milli Svisslendinga og þjóðverja, og ein merkileg. Þýskar flugvélar slæptust yfir landamærin og réðust Svisslendingar á þær og skutu eitthvað niður.
Göring varð óður og sendi meiri styrk yfir, viljandi, daginn eftir. En Svisslendingar höfðu betur.
Þarna tókust á Me 109 vélar úr báðum herjum!
Annað var merkilegt seinna í stríðinu. Borgin Konstanz er Þýskalandsmegin, en bara smá krókur yfir í Sviss.
Nú fóru Bandamenn að sprengja niður Þýskar borgir, og framan af bara að nóttu. En alltaf slapp Konstanz.
Annað var, að borgin er jú mjög langt inni í landi, en hitt var betra.
Það ríkti ekki myrkvun í Sviss, og með því að hafa passlega lýsingu í Konstanz var engin leið að segja til um "hvað" hún var, úr lofti í myrkri.
Borgin ber þess greinileg merki, - gömul og heilleg, - flott borg.

Jón Logi (IP-tala skráð) 20.5.2014 kl. 07:30

2 Smámynd: Róbert Björnsson

Logi, bestu kveðjur í Garðsauka!

Átti leið um Bodensee fyrir rúmri viku síðan og rétt er það að Konstanz er flott borg og ekki er síðra um að litast í Sviss. Þar sá ég einmitt auglýsingaskilti meðfram öllum vegum með mynd af Saab Gripen í svissnesku fánalitunum og á stóð "Sicherheit Zuerst, Ja zum Gripen". Sú herferð skilaði greinilega ekki tilætluðum árangri enda sjálfsagt sniðugra hjá Alpfellingum að nota frankana sína í eitthvað arðbærara.

Annars notaði ég tækifærið og skoðaði Dornier safnið í Friedrichshafen ásamt því að fara í flugtúr á Zeppelin NT loftskipi. Heilmikil og heillandi flug-saga þarna við vatnið. :)

Róbert Björnsson, 20.5.2014 kl. 08:35

3 identicon

Sæll Róbert!
Og pjakkurinn, - náðir túr á blippinu! Ætlaði að taka ferð þegar ég var þarna í fyrra, en það var aflýst vegna veðurs, og ekki hægt að fljúga aftur fyrr en ég var kominn til Heidelberg. Jæja, maður á þetta eftir. Komst þó í siglingu til Mainau....

Jón Logi (IP-tala skráð) 20.5.2014 kl. 09:23

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Pacifisminn og uppgjafarhyggjan í Bretlandi og Frakklandi er einhver afdrifaríkasta heimska 20. aldar. Með honum var opnað á framgang þýzka hernaðarveldisins.

Þú gerir ekki pacifisma í Svíþjóð og Sviss neitt ásættanlegri með þessum skrifum þínum, Ómar. En þetta er svo sem í anda þinnar vitlausu Samfylkingar.

En sósíaldemókratinn Tage Erlander, sem lengi ríkti í Svíþjóð, var alveg með það á hreinu, að í tilfelli stríðsátaka eða innrásar úr austri tækju Svíar afstöðu með NATO gegn Sovétríkjunum. Og lengi reyndu sovétmenn að finna glufur á hervörnum Svía.

En þú hefðir náttúrlega bara viljað láta afvopna landið!

Jón Valur Jensson, 20.5.2014 kl. 10:58

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það sem er athyglisvert í þessu, að meira hringl virðist vera að færast í þjóðaratkvæðagreiðslur í Sviss. Og jafnframt geta áhugamenn um þjóðaratkvæðagreiðslur séð gallana við þær. Það virðist vera orðið auðveldara að hringla með afstöðu fólks en oftast var áður í Sviss.

Jafnframt sést þarna eða lemur fram stóra spurningin: Hvað er þjóðin?

Það er 52% - 48%.

Er þá 48% ekki svissneska þjóðin?

Að mínu mati er ótækt að láta svona mál ráðast alfarið í þjóðaratkvæði, á kannski 1-2% til eða frá.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 20.5.2014 kl. 11:33

6 identicon

The Truthseeker: NATO false flags in Ukraine

 http://www.youtube.com/watch?v=5tVelO21F9w

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 20.5.2014 kl. 11:58

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Finnland og Svíþjóð eru ekki í Atlantshafsbandalaginu (NATO), en hafa átt samvinnu við NATO og bæði ríkin fengu aðild að Evrópusambandinu árið 1995.

Mörg Evrópuríki vilja hins vegar vera bæði í Evrópusambandinu og NATO, til að mynda Eistland og Lettland, sem eins og Finnland eiga landamæri að Rússlandi.

Lettland og Eistland fengu aðild að Evrópusambandinu og NATO árið 2004.

Og Úkraína á landamæri að Póllandi, Slóvakíu, Ungverjalandi og Rúmeníu, sem öll eru bæði í Evrópusambandinu og NATO.

Úkraína er sjálfstætt ríki sem þarf ekki að spyrja Kremlarherra að því frekar en Lettland og Eistland hvort það megi ganga í NATO og Evrópusambandið.

Fjórðungur af íbúum Eistlands og Lettlands
eru af rússnesku bergi brotnir en 17% af þeim sem búa í Úkraínu.

Hins vegar þurfa ríkin í NATO og Evrópusambandinu að samþykkja aðild Úkraínu og það verður nú ekki á morgun.

Þorsteinn Briem, 20.5.2014 kl. 16:09

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorsteinn Briem, 20.5.2014 kl. 16:12

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Alveg er ótrúlegt hvernig hægt sé að lesa það út úr pistli mínum að mín skoðun sé sú að Sviss og Svíþjóð eigi að afvopnast, þótt ég greini að sjálfsögðu frá báðum skoðunum á málinu.

Í pistlinum kemur greinilega fram að úreltar og fáar flugvélar þjóðanna, sem Þjóðverjar réðust á, réðu því fyrst og fremst að þessar þjóðir biðu afhroð og þetta átti við fleiri þjóðir sem Þjóðverjar réðust á, eins og Pólverja.

Ennig kemur skýrt fram að bæði Svisslendingar og Svíar telja sig hafa búið við frið og sjálfstæði í tvær aldir vegna þess að herbúnaður þeirra var öflugur.

Og ég get um það hve gersamlega ófærar F-5 Tiger þotur Svisslendinga er um að veita nokkra mótspyrnu gegn nýrri og öflugri þotum.  

Ómar Ragnarsson, 21.5.2014 kl. 00:01

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Óbeint svar til þín er hér, Ómar minn: Langvarandi landvarnir eru nauðsynlegar.

Og þakka þér og dótturinni bráðskemmtilegar ferðastiklurnar! (og vinsælli en fréttir Sjónvarpsins nú um stundir).

PS. Ég er ekkert að reyna að berja á þér sem pacifista, og má vera, að ég hafi misskilið þig að einhverju leyti og því kannski oftúlkað þig (lestu þó pistil minn).

PPS. ESB-guttinn Steini Briem skrifar hér án ábyrgðar: "Úkraína er sjálfstætt ríki sem þarf ekki að spyrja Kremlarherra að því frekar en Lettland og Eistland hvort það megi ganga í NATO og Evrópusambandið." -- En hefur Steini ekkert heyrt af óformlegu samkomulagi vesturveldanna og Rússa, að ekki yrði gengið á þetta austasta áhrifasvæði Rússa, á sama tíma og vesturveldin stóðu hins vegar með frjálsræði baltnesku landanna o.fl. austurevrópskra að ganga í bæði ESB og NATO? -- Það er alveg ljóst, að það er hættuleg röskun á valdajafnvægi og ögrun meiri en Rússar þola án þess að æsast allir upp, þegar Evrópusambandið stefnir að yfirráðum yfir Úkraínu og jafnvel stefna að NATO-aild hennar. En þetta gerði Evrópusambandið einmitt og reri undir mótmælunum í Kiev, rétt eins og það rær einnig undir keyptu mótmælunum á Austurvelli síðustu mánuðina. Svo þykist það alveg blásaklaust!!! En ásælni sína staðfesti ESB með yfirlýsingu forseta leiðtogaráðs ESB, Hermans van Rampuy, að "Úkraína tilheyrir Evrópusambandinu", orð sem hann lét falla (ekki sem prívatmaður, heldur sem sendimaður Brussel-valdsins) á ráðstefnu um Úkraínu í Sviss og hrinti þar með af stað mjög alvarlegri röskun á valdajafnvægi í álfunni, með því að sækja fram með áhrifasvæði stórveldabandalags gömlu nýlenduveldanna í V-Evrópu allt að borgarhliðum Kiev og Kharkov og enn lengra upp með Dnjepr og Don.

Jón Valur Jensson, 21.5.2014 kl. 01:13

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

18.8.2012:

"All major political parties in Ukraine support full eventual integration into the European Union."

"The current Azarov Government continues to pursue EU-integration.

During May and June 2010 both Prime Minister Mykola Azarov and Ukrainian Foreign Minister Kostyantyn Hryshchenko stated that integration into Europe has been and remains the priority of domestic and foreign policy of Ukraine."

Ukraine-European Union relations


Króatía fékk aðild að Evrópusambandinu 1. júlí í fyrra
og Serbía sótti um aðild að sambandinu 22. desember 2009.

Þorsteinn Briem, 21.5.2014 kl. 02:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband