6.3.2007 | 11:37
SVIFRYK OG MALBIKSNOT
Ætli það sé ekki meina en áratugur síðan ég hóf að fjalla ítrekað í sjónvarpsfréttum um svifyk og áhrif negldra hjólbarða á það og sýndi hrollvekjandi myndir af því, - einnig það að samkvæmt sænskri prófun dygðu aðeins negldir hjólbarðar og harðkornadekk á blautu, hálu svelli. Síðan hafa komið fram nýjar tegundir hjólbarða sem veita aukið grip. Fyrir lá að aðeins örfáa daga eða hluta úr degi á vetri hverjum séu raunveruleg not fyrir neglda hjólbarða á götum Reykjavíkur.
Loksins núna er vandamálið komið í almennilega umræðu. Það er augljóslega lítil sem engin þörf á negldum hjólbörðum á götum Reykjavíkur. Hins vegar eykst umferð um þjóðvegina út frá borginni. Sumarbústaðaeigendum fjölgar og margir vilja vera á góðum hjólbörðum ef þeir þurfa til dæmis að skreppa austur fyrir fjall.
Á Íslandi er vindasamara en í öðrum löndum Evrópu og það er ekkert tilhlökkunarefni að aka yfir Hellisheiði í hávaðaroki á hlið þegar vegurinn er glært svell. Hins vegar hefur Vegagerðin lagt aukna áherslu á að halda helstu þjóðvegum landsins auðum.
Lausn mála virðist felast í því að tryggja að fólk komist þessar leiðir án þess að þurfa að hafa áhyggjur af mikilli hálku. Eigendur sumra bíla telja sig reyndar þurfa að vera viðbúna til að fara, jafnvel með engum fyrirvara, í hvaða ferðir sem er hvert á land sem er, svo sem í jöklaferðir.
Ég er í hópi slíkra manna og persónulega finnst mér ekkert að því að ég borgi séstakt gjald fyrir að slíta malbikinu á leið upp til jökla. Og þá er ég kominn að þeirri hugsun að sá sem notar hlutinn eigi að borga fyrir það.
Stórir og þungir bílar slíta götunum meira en litlir og léttir og þyrla upp mun meira ryki. Þar að auki taka stórir bílar miklu meira pláss á malbikinu. Um Miklubrautina eina fara 100 þúsund bílar á dag og með því að helmingur bílanna yrði 2 metrum styttri myndu verða auðir 100 kílómetrar af malbiki á þessari einu götu á hverjum degi sem annars væru þaktir bílum.
Enn og aftur vil ég því velta upp hugmyndinni um sérstakt lengdargjald á bílum, - að við borgum fyrir það rými sem við tökum í umferðinni. Þetta hefur að hluta til verið gert í Japan og haft áhrif þar.
Ég vísa til fyrri blogga um útfærsluna á slíku gjaldi og heimilaðri notkun innsiglaðra vegalengdarmæla í bílum til þess að fá afslátt af lengdargjaldinu ef lítið er ekið.
Meginreglan getur verið: Sá sem mengar á að borga fyrir það. Sá sem notar á að borga fyrir not sín. Undantekning getur verið opinber þjónusta sem samfélagið allt nýtur góðs af, svo sem notkun almenningsfarartækja. Þess vegna ókeypis í strætó.
En þurfa strætóarnir allir að vera svona stórir? Mér verður starsýnt á stóra strætisvagna sem bruna um borgina, oft með sárafáa farþega, allt niður í einn.
Athugasemdir
Mæltu manna heilastur, Ómar; ég kvitta undir þetta alltsaman. En það er meira en áratugur síðan þú hófst að benda á skaðsemi nagladekkja og takmarkaðan ávinning af notkun þeirra. Ég var á sínum tíma í valfagi sem hét "Umhverfisvernd" í menntó þar sem kennarinn sýndi okkur innslag frá þér um nagladekkin. Þetta var skólaárið 1990-1991, svo það er nær því að vera tveir áratugir en einn. Þú er greinilega enn framsýnni en þú sjálfur taldir
Jón Agnar Ólason, 6.3.2007 kl. 11:42
Sæll Ómar. Ég hef lengi fylgst með þér og hef haft gaman að því sem þú hefur tekið þér fyrir hendur um ævina, þ.e.a.s. mína ævi. Mér er minnistætt einnig þegar Skúli Óskarsson keppti á kraftlyftingamóti og það var nú skal ég segja þér sýnt á fimmtudegi. Minnir að það hafi verið sumardagur 1. eða eitthvað. Held að þú hafir verið að lýsa, ekki krema.
Ósk mín að þessu sinni er þessi. Hefur þú áhuga á að verða síðuhaldsfélagi minn?
Ég veit að mínir lesendur munu skipta sér í flokka með þessa ákvörðun mína en það væri gott að fá þitt álit.
Með fyrirfram þökkum
Síðuhaldari
Gunnar Sigurðsson (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 13:01
Ég tek undir þetta. Síðan ég byrjaði að vinna við akstur og hef þurft að sitja við stýri að meðaltali 9 tíma á dag ég orðið mikið vör við þetta. Þau níu ár sem ég hef unnið á götum reykjavíkur við að ferja fólk á milli staða verð ég óþægilega vör við óþægindin og óhreinindin. Drullan situr á mælaborðinu, í fötunum á andliti og höndum eftir stuttan tíma, þetta er í nefi og öndunarfærum og tíminn sem við erum frá vegna veikinda er líka mikill. Það bekennir þetta enginn og mér er tjáð að lítill pólitískur vilji sé til þess að skoða þessa hlið á aðbúnaði okkar. Reyndar segja trúnaðarmenn fyrirtækisins að við verðum líklega öll atvinnulaus í haust því akstur strætó verði boðinn út allur þá.
Birna M, 6.3.2007 kl. 13:19
Ert þú ekki að koma með þetta upp í umræðuna núna vegna þess að sjálfstæðismenn eru að reyna leysa þetta akkurat núna?
Má vera að þú hafir vakið athygli á þessu hér á árum áður en þú hefur einblínt á stóryðju og ekkert annað nánast, svo þegar alvöru umhverfis mál sem við sjálfstæðismenn erum að vinna í þá á að reyna að koma sínu skotti að.
Það er ekkert nema gott um það segja að allir koma að góðum málum og fínt að fá ábendingar en mundu að við verðum að hugsa um þjóðfélagið í heild og hafa hagsmuni allra borgara að leiðarljósi (þó að það þurfi í einhverjum tilvikum að raska umhverfi) það gerum við og ef þið ætlið að hafa það eingöngu að leiðarljósi að rífa niður það sem er í farvatninu fyrir í nafni nokkra ofstækismanna þá eruð þið í vondum málum.
Óskar , 6.3.2007 kl. 13:36
Í haust sagði ég dekkjameistaranum mínum á dekkjaverkstæðinu að næst ætlaði ég að fá mér mjög fín Michelin vetrardekk og hvort þau þyrftu þá nokkuð að vera nelgd?
Þá sagði hann, "Ég keyri alltaf sjálfur á nögglum". Það kom þögn á mig því ég bjóst við að hann væri svarinn andstæðingur nagladekkja. Síðan bætti hann við, "Það er miklu auðveldara að bæta nýju slitlagi oná göturnar heldur en að koma útlimun aftur á fólk (hvað þá lífinu)".
Þá hafði ég það. Héðan í frá mun ég alltaf keyra á nagladekkjum á veturna því þetta er maður sem ég treysti! Nýju Michelin dekkin mín verða því NEGLD !!
Byggingaverkamaður (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 13:49
Stundum skil ég ekki það sem fólk segir hérna, eins og þetta frá honum Óskari hér á undan mér.
"Ert þú ekki að koma með þetta upp í umræðuna núna vegna þess að sjálfstæðismenn eru að reyna leysa þetta akkurat núna?
Má vera að þú hafir vakið athygli á þessu hér á árum áður en þú hefur einblínt á stóryðju og ekkert annað nánast, svo þegar alvöru umhverfis mál sem við sjálfstæðismenn erum að vinna í þá á að reyna að koma sínu skotti að."
Skil ekki þegar fólk sakar þig um að eigna þér hugmyndir annarra í umhverfismálum. Ég hef aldrei keyrt á negldum dekkjum og þakka þér það. Alla mína hunds- og kattartíð hefur þú talað máli náttúrunnar. Man þegar við stoppuðum oftsinnis á leið okkar um landið til að taka myndir af sorpi sem fólk henti á víðavangi svo þú gætir bent fólki í fréttunum á að ganga betur um. Sömu sögu er að segja um dekkin. Allir sem þekkja þig vita að þú ert náttúrubarn í öllum þeim skilningi sem hægt er að leggja á það orð.
Lára Ómarsdóttir (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 13:50
Ekki dettur mér annað í hug enn að Ómar sé náttúrubarn en hvaða leiðir hann er að fara huggnast mér ekki Lára mín.
Svona fólk sem lætur umhverfið skipta sig miklu er mjög gott en þegar umhverfið er orðið í fyrsta sæti og fólkið í landinu í öðru sæti þá er full langt gengið.
Óskar , 6.3.2007 kl. 14:04
Held að ríkið verði einfaldlega grípa inn í og hafa vit fyrir okkur, hækka verðlagningu eða leggja spes skatt fyrir nagladekkjanotendur, nota það klink svo í að niðurgreiða "hin dekkin" sem spæna minna upp. Frekar stutt leið að þessari Pollute Pays prinsippi sem þú bentir á, þó er ekki verið að vesenast í að reikna aksturs-lengd og þessháttar, nálgast þetta fremur með það hugafar að maður kaupir ekki nagladekk nema maður virkilega þurfi á því að halda. Svo enn og aftur þarf bara að fræða almenning um þetta, meira... mun meira...
Gunnsteinn Þórisson, 6.3.2007 kl. 14:10
Akureyringar eru greinilega á undan höfuðborginni í sambandi við ókeypis í strætó...Mér skilst að nýtingin hafi snaraukist eftir að þeir breyttu þessu. Það myndi líka kanski verða minna um umferðateppur ef að þetta yrði gert. Að vísu er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja..þannig að það er ekki víst að neitt myndi breytast í umferðarmenningu höfuðborgarbúa þó að ekkert þyrfti að borga í strætó.
Agný, 6.3.2007 kl. 14:21
Það er tómt mál að tala um fólk og umhverfi sem andstæður.
"Nútíminn ber þess skýr merki að ný viðhorf eru að vaxa fram, ný lífssýn sem felur í sér að velferð náttúrunnar sé í raun velferð okkar sjálfra."
Sjá Grein Birgis Sigurðssonar í mbl. í dag: http://www.thjodarhreyfingin.is/birta_grein.php?id=2274
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 14:31
Ekki er ég endilega ósammála þér Ómar um að stórir og þungir bílar slíta götunum meira en litlir og léttir. Engu að síður þá eru t.d. flutningabílar með mun stærri, fleiri og breiðari dekk en venjulegur fólksbíll, sem að gerir það að verkum að þyngd faratækisins, þ.e. álaginu er dreift yfir breiðara svæði á malbikinu. Mín eðlisfræði segir mér það að, það hlýtur að vera þyngd per flatarmálseiningu sem segir til um það hversu mikið malbikið er slitið af götunum, ásamt fleiri breytum. Af þeim rökum er ekki hægt að staðfesta að 5 metra bíll sem vegur 1000kg og hefur 4 dekk slítur malbikinu minna en 10 metra bíll sem vegur 2000kg með 8 samskonar dekk, bara af því hann er minni.
Útaf þessu mundi ég fara varlega í að fullyrða svona hluti án þess að hafa tekið allar breytur inní myndina (flatarmál snertiflatar dekkja við veg, þyngd, nagla-/ekki nagladekk, viðnám dekkja við veg o.fl.)
En að öðru leiti, þá er ég sammála þér um að það þarf að minnka svifryk og slit malbiks.
Sævar (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 18:46
Fleira en nagladekkin veldur svifryki, til dæmis niðurrif húsa sem hefur aukist mikið á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár. Bleyta þarf hús áður en þau eru rifin niður. Hreinsa þarf skítug dekk áður en keyrt er á þeim á malbiki. Ekki á til dæmis að keyra á grasi og síðan malbiki án þess að hreinsa dekkin fyrst. Að sjálfsögðu eiga almenningssamgöngur að vera mjög ódýrar og helst ókeypis eins og á Akureyri, þar sem farþegafjöldi í strætisvögnum hefur stóraukist. Skattleggja á nagladekk eða jafnvel banna þau. Þeir sem menga eiga að greiða bætur fyrir mengunina, eins og þeir sem valda skaða eru skyldugir til að greiða skaðabætur.
Steini Briem (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 19:44
Ég vil benda Sævari á að það skiptir auðvitað ekki öllu máli hvort bílar dreifi þyngdinni á stóran eða lítinn flöt, það eina sem skiptir máli er að stór dekk (stór flötur) slíta meira malbiki en lítil dekk. Það segir sig sjálft.
hogo (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 20:58
Að sjálfsögðu skiptir það miklu (ekki öllu) máli að hafa góða þyngdardreifingu eins og svo margt annað. Ef ég mundi setja fjögur fólksbíladekk undir reiðhjólið mitt, þá efa ég að ég muni slíta jafn miklu malbiki og fólksbíll með samskonar dekk einungis útaf því að flöturinn er sá sami, það sér hver heilvita maður.
Sævar (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 21:33
Svo sannarlega sammála því sem Óskar skrifaði hér fyrr í dag. Ég vil fólkið í fyrsta sætið takk fyrir. Vinnu fyrir fólkið, laun sem duga fyrir framfærslu og húsnæði. Það eru allir flokkar orðnir ,,náttúruflokkar" þeim virðist öllum vera sama um fólkið. Aðalatriðið hjá Ómari og þar með flokknum hennar Margrétar Sverrisdóttur er ,,stöðvum virkjanir" hendum nagladekkjunum, ekki orð um brýnustu nauðsynjar fyrir fólkið í landinu. Það vantar eitthvað í þetta.
Kveðja
Dísa
Þórdís Bára (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 22:44
Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar að taka náttúruna fram yfir fólk, heldur sagt að náttúrvernd sé fólksins vegna. Bendi á kafla um þetta í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti", bls 65. Þar stendur meðal annars:
"Það hefur aldrei verið stefna náttúruverndarmanna að vernda náttúruna hennar einnar vegna. Sú hugsun sem hugtakið náttúruvernd felur í sér er svipuð þeirri hugsun sem lög um dýravernd byggjast á. Í þeim er talað um "mannúðlega" með ferð dýra. Að því leyti er þessi hugsun sjálfhverf og beinist að manninum sjálfum og andlegri velferð hans."...
"Umhverfisverndarmenn berjast ekki gegn framkvæmdum í sjálfu sér heldur fyrir því að þeim sé forgangsraðað þannig að þær framkvæmdir lendi aftast sem hafa verstu umhverfisáhrifin. "Umhverfisverndarsjónarmið heita því nafni vegna þess að þau snúa að því að það sé ekki sama fyrir okkur sjálf hvernig við umgöngumst umhverfið sem við lifum í, - þau snúast um samvisku okkar og andlega og líkamlega velferð.
Umhverfisverndarfólk leggur áherslu á ábyrgð okkar gagnvart óbornum kynslóðum og berst fyrir því að menn sjáist fyrir í framkvæmdagleði og vaði ekki svo hugsunarlaust yfir allt að það muni um síðir verða harmað."...
"...Náttúruverndarmenn meta gildi unaðsstunda ekki síður en kílóvattstunda."
Ómar Ragnarsson, 6.3.2007 kl. 23:31
Þegar ég skrifaði þennan pistil í morgun hafði ég ekki hugmynd um að nú síðdegis yrði það komið í fréttir að sjallarnir í borgarstjórn ásamt öðrum flokkum ætluðu að taka þetta mál upp á sína arma.
Gaman að sjá menn halda því fram að fyrir tæpum tuttugu árum hafi ég viljað eigna mér mál sem Sjálfstæðismenn taki fyrir núna.
Það má líka geta þess að konan mín, Helga Jóhannsdóttir, bar upp þetta mál upp bæði í umferðarráði og heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar fyrir tæpum tuttugu árum þegar hún sat í þessum nefndum. Hún talaði fyrir daufum eyrum.
Fráleitt er að halda því fram að hún hafi viljað eigna sér það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill gera núna, - hún sat nefnilega í heilbrigðisnefndinni sem varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fyrir hans hönd!
Ómar Ragnarsson, 6.3.2007 kl. 23:42
Þetta er með ólíkindum!!!
Já Ómar minn svona er mannfólkið og eins og oft er sagt" allir vilja Lilju kveðið hafa". ég man vel eftir þessum umfjöllunum þínum um þessi mál á sínum tíma. Ég hef sjálfur verið atvinnubílstjóri á leigubílum og rútum í töttugu og fimm ár, eins og maðurinn sagði. Ég man vel eftir þessari umræðu þinni og öllum þeim fréttaskýringum um umferðamál og akstur í gegnum tíðina og jafnaði hef ég verið þér sammála og lært heilmikið á þessum pistlum. Hér að ofan ritar einn eftirfarandi;
Í haust sagði ég dekkjameistaranum mínum á dekkjaverkstæðinu að næst ætlaði ég að fá mér mjög fín Michelin vetrardekk og hvort þau þyrftu þá nokkuð að vera nelgd?
Sá hin sami áttar sig ekki á því að dekkjaverkstæðin hreinlega lifa á því að selja nagla og því skildi maðurinn á dekkjaverkstæðinu vilja annað en selja honum nagladekk. Sjálfur hef ég aðeins einu sinni ekið einn vetur á nagladekkjum, þá átti ég jeppa sem var nærri á sléttum dekkjum og ég setti nagla í þau sjálfur svo ég kæmist af veturinn þann að ég hélt. Nei nagladekk eru ekki lausnin, það hef ég fullreynt eftir að hafa verið í akstri í umferðinni fyrst á reiðhjóli, svo skellinöðru og síðan ýmsum bílum af öllum stærðu og gerðum, í einhverja miljónir kílómetra, sem ég hef ekið um ævina. Góð vetrarardekk án nagla er það eina sem dugir auk þess, sem menn vilja gleyma og jafnvel líta fram hjá, það er að aka eftir aðstæðum, sýna varkárni og vera vakandi í umferðinni.
Jón Svavarsson, 7.3.2007 kl. 11:20
Meginreglan getur verið: Sá sem mengar á að borga fyrir það. Sá sem notar á að borga fyrir not sín.
Skildi þetta eiga þegar snýr að menningunni t.d með Sinfóniuna?
En hvað ertu sáttur við að missa mörg mannslíf til að losna við svifrykið? Eitt, þrjú eða fleiri? Nagladekk eru öryggistæki og þau eru almennt gagnslaus þar til þú þarf fyrirvaralaust á þeim að halda. Ég er búinn að spenna beltin í 20 ár en þau hafa aldrei bjargað mér. En ég spenni þau áfram því einn "góðann" gæti ég þurft á þeim að halda. Það sama gildir um nagladekkin.
Rúnar (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 10:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.