Geta dýra er oft vanmetin.

Hundurinn Hunter er nú hugsanlega að komast á spjöld sögunnar yfir hundelt dýr á Íslandi. Nafn hans hefur nú færst yfir þá þá sem leita hans.

Geta dýra í slíkum tilfellum er oft vanmetin.

Frægast þeirra á síðari tímum er líklega Herdísarvíkur-Surtla, sem var eina kindin sem slapp undan því að vera skorin niður á sunnanverðu landinu, þegar verið var að útrýma mæðiveikinni á fyrri hluta sjöta áratugs síðustu aldar.

Ærin var hundelt vikum saman sumarið 1953 að mig minnir þangað til loks tókst að fella hana.

Þá stóðu yfir miklir flutningar fjár frá Vestfjörðum til þeirra svæða á landinu, sem þar sem átti að skipta um fjárstofn, og man ég vel eftir flutningabílunum sem brunuðu um Langadalinn þar sem ég var í sveit.

Annað dæmi um dýr, sem slapp úr vörslu, var kýrin Sæunn sem átti að flytja í sláturhús, en slapp úr gæslu og synti yfir Önundarfjörð.

Geta dýra til að bjarga sér eða brjótast undan ofurvaldi mannsins er oft vanmetin.

Ég minnist eins slíks tilfellis, sem draga má lærdóm af.

Ég var á leið fljúgandi frá Akureyri til Reykjavíkur og var beðinn um að leyfa konu að fara með mér með lítinn hund sinn.

Ég færðist undan en konan var í tímaþröng og ekki um annan ferðamöguleika að ræða fyrir hana.

Mér var sagt að hunduinn væri eitthvert gæfasta dýr á jarðarkringlunni en ég lét ekki sannfærast.

En loks lét ég undan þegar dýralæknir var fenginn til að svæfa hundinn og deyfa og hann var bundinn rækilega.

Skemmst er frá því að segja að ég var svo heppinn að strax í flugtaki rankaði kvikindið úr rotinu og var svo gjörsamlega tryllt, að bindingarnar á fótunum fór strax að losna.

Ég flýtti mér að taka hring og lenda hið bráðasta og var þeirri stund fegnastur þegar einhvert gæfasta dýr á jarðarkringlunni, sem breyst hafði í hættulegt óargadýr, var komið út úr flugvélinni.

 

P. S. Hábeinn hefur sent mér dýrlega athugasemd varðandi hundinn Lúkas, sem ég af óskiljanlegum ástæðum gat ekki um. En í því máli fór "homo saphiens", hinn viti borni maður, í eðli og andlegu atgerfi talsvert niður fyrir þau dýr sem lökust þykja vera á þeim sviðum.   

 


mbl.is „Allir í rútunni öskruðu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lúkas, sem var hundur af Chinese Crested kyni, slapp frá eiganda sínum á Akureyri þann 28. maí 2007. Eigendur leituðu hundsins en á Bíladögum á Akureyri helgina 15. til 17. júní sást til fimm ungra manna með hundinn. Ekki náðist í mennina en sagan segir að á laugardeginum hafi þeir sett hundinn ofan í íþróttatösku og sparkað í hann þar til hann var allur. Bloggheimar fóru hamförum og einn hinna meintu fimmmenninga var tekinn sérstaklega fyrir. Minningarvökur um hundinn voru síðan haldnar 28. júní á Geirsnefi í Reykjavík, hjá Blómavali á Akureyri og í Sandvík á Vopnafirði. Mánuði seinna var Lúkas handsamaður í Fálka­felli ofan Ak­ur­eyr­ar þar sem hann hafði haldið til.

Hábeinn (IP-tala skráð) 15.6.2014 kl. 18:51

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk, Hábeinn. Furðulegt að gleyma þessum fræga hundi, þar sem í ljós komu þvílíkir veikleikar í eðli "hins viti borna manns", að hann sekkur niður fyrir flest dýr.

Ómar Ragnarsson, 16.6.2014 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband