17.6.2014 | 08:52
Bjartsýnir bílstjórar fyrr og nú.
Dauðadrukkinn bílstjóri undir stýri á Skeiðaveginum þykir fréttnæmt fyrirbæri. En margur Íslendingurinn hefur sýnt álíka bjartsýni um eigið ágæti í akstri, þótt við dyr áfengisdauða væri.
Þegar ég var smástrákur ók pabbi vörubíl og var akstur varnings fyrir herlið Bandamanna frá Reykjavíkurhöfn einna drýgstur.
Bílarnir voru eitt sinn síðdegis á föstudegi í röð á Ægisgarði og biðu eftir að komast að undir skipskrananum svo að hægt væri að hífa heysin upp og setja á bílpallana. Bílarnir áttu að fara með hlössin eftir gamla Keflavíkurveginum, sem var krókóttur og mjór malarvegur, sem þræddi Vatnsleysuströndina.
Einn bílstjórinn var ansi drykkfeldur og var oft orðinn ansi slompaður þegar leið að helgi.
Eitt sin þegar bíll hanns stóð á bryggjunni meðan hlassið var híft á á hann, urðu nokkrar tafi í hífingunni.
Loksins var allt hlassið komið á og verkamaður bankaði í frambrettið á bílnum til að láta bílstjórann vita af því að hann mæti aka af stað.
En hann hreyfði sig ekki vitund og rótaði sér ekki í ökumannssætinu, þótt bankað væri á ný, bæði á brettið og síðan á hurðina.
Verkamaðurinn reif þá hurðina upp en brá í brún þegar bílstjórinn reyndist ofurölvi og valt út úr bílstjórasætinu svo að minnstu munaði að hann félli í fang verkamanninum.
Honum var stjakað aftur til baka og rak hann þá bílinn í gír og gerði sig líklegan til að aka af stað.
"Heyrðu" Heyrðu!" hrópaði verkamaðurinn. Ætlarðu virkilega að aka stað?"
"Já, auðvitað, svaraði bílstjórinn.
"Ertu vitlaus, maður?" spurði verkamaðurinn. "Hvernig ætlarðu að aka svona á þig kominn alla leið til Keflavíkur?"
"Það er enginn vandi," drafaði bílstjórinn. "Ég fylgi bara ströndinni."
Dauðadrukkinn undir stýri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.