17.6.2014 | 09:43
Stoltur af Mist.
Á mínum aldri er það gangur lífsins að við hin eldri þurfum oft á tíðum að takast á við erfiða sjúkdóma, sem yngra fólkið á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af.
Þess vegna er þungbært þegar upp koma tilfellli þar sem þetta snýst við, og fréttin um að Mist, bróðurdóttur mín, þurfi að glíma við óvænt veikindi, einmitt þegar hún blómstrar hvað best í íþrótt sinni, snertir alla í fjölskyldunni.
Í nótt var ég að horfa á fyrsta Íslendinginn, sem leikur í HM í knattspyrnu í kjölfar jafnteflis kvennalandsliðsins í knattspyrnu gegn gömlum "erkifjendum" okkar, Dönum og maður fyllist ánægju yfir því þegar glæsilegt afreksfólk eins og Mist ber hróður landsins út um lönd.
Við í fjölskyldunni vissum um veikindi Mistar þegar landsleikurinn var að bresta á og hugur okkar var hjá henni þegar hún þurfti að takast á við svo óvenjulegt og erfitt verkefni sem þessar tvær stóru áskoranir voru fyrir hana.
En eins og hennar var von og vísa eru þau viðbrögð, sem hún sýnir í tengdri frétt á mbl.is, okkur öllum til eftirbreytni og uppörvunar. Ég er afar stoltur af æðruleysi hennar, hugrekki og viljafestu.
Fleiri systkinabörn mín og börn mín hafa áður þurft að standa frammi fyrir "verki, sem þau hafa þurft að klára" eins og Mist orðar glímuna við sinn óvænta sjúkdóm, og staðið sig eins og hetjur.
Það er ómetanlegt að eiga slíkar fyrirmyndir þegar á bjátar í lífsins ólgusjó.
Verk sem ég þarf að klára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 09:45 | Facebook
Athugasemdir
Ég óska þessari stúlku alls hins besta. Baráttufólk stendur alltaf betur að vígi þegar svona mál koma upp.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.6.2014 kl. 10:37
Óska Mist alls hins besta,alltaf verið svolítið í uppáhaldi hjá mér í boltanum.
Halldór Jóh. (IP-tala skráð) 17.6.2014 kl. 11:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.