19.6.2014 | 19:15
Svona lagað sést hvergi nema hér.
Rétt eins og Yellowstone þjóðgarðurinn í Bandaríkjunum og helstu þjóðgarðasvæði þar í landi og víðar ættu þekktust jarðvarmasvæði landsins og náttúruperlur að vera í eigu þjóðarinnar.
Eftir 14 ár verður liðin öld frá því að Þingvellir voru lýstir þjóðareign sem aldrei mætti selja né veðsetja og voru þeir sem að því stóðu langt á undan sinni samtíð, bæði hvað snertir eignarhaldið og ekki síður eðli þess, varðandi það að þetta væri ekki eign sem mætti selja né veðsetja.
Hvergi í öðrum löndum sé maður það, að fyrst taki landeigendur sig til og byrji að rukka um aðgangseyri áður en sjá megi að fénu hafi verið varið í það sem sagt er að verja eigi því í.
Þvert á móti fá gestir strax í hendur vandaða bæklinga um náttúruverðmætin og umgengni við þau og sjá alls staðar í mannvirkjum og þjónustu að þetta eru sanngjörn viðskipti, þjónusta ðg aðstaða gegn greiðslu.
Ýmislegt í okkar þjóðfélagi ber enn keim af lénsskipulagi miðalda, bæði hvað varðar réttindi landeigenda og einnig hlunnindin sem Kastljós upplýsti nýlega um að margir prestar landsins njóti án þess að hafa nokkuð til þess unnið.
Ég bryddaði upp á umræðu um þessi mál hjá stjórnlagaráði en augljóst var að miðað við þau miklu úrlausnarefni sem ráðinu var ætlað að leysa úr á örfáum mánuðum yrði ekki tími til að ræða þau, brjóta til mergjar og skila tillögum um breytingar og útfærslur þeirra, því miður.
Skora á landeigendur að rukka ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Varla er hægt að sjá í hvað fénu er varið, Ómar, áður en það er innheimt, eða hvað?
Í Yellowstone, Grand Canyon og vafalítið öllum öðrum þjóðgörðum í Bandaríkjunum er stíft rukkað, bæði inn á svæðið og í allt annað sem innan svæðis er.
Ekkert er eðlilegra en að taka aðgangsgjald fyrir að heimsækja eftirsótta staði, en - ég tek undir að gjaldtakan á ekki að vera einhverskonar tekjuauki landeigenda (hvort sem eru ríki, sveitarfélög, einstaklingar eða félagasamtök) heldur á tilgangurinn að vera að verja svæðið skemmdum og uppbygging aðstöðu fyrir ferðamenn og vissulega á að stilla fjárhæðina í samræmi við það. Að því sögðu er vissulega fullkomlega eðlilegt að gjaldtakan standi undir kostnaði við gjaldheimtuna, þar með að greiða starfsfólki laun.
Varla er sá sérstaki staður eða svæði í Evrópu að ekki kosti 5 evrur eða meira inn. Fólk er ekkert óvant að borga inn á svæði, það eru bara látalæti að þykjast vera hissa á því.
Hið opinbera á ekki að vera að leggjast gegn gjaldtökunni, heldur fylgja því eftir að gjaldinu sé varið til uppbyggingar.
Þórhallur Birgir Jósepsson, 19.6.2014 kl. 22:14
Ég á við það að ef ríkið á svæðið eins og í Bandaríkjunum, ver það strax fé í uppbyggingu og leggur það út fyrirfram og rukkar eftir það. En númer tvö: Hvergi í þessum þjóðgörðum er gert ráð fyrir því að fá allt féð, sem varið til þeirra, allt til baka.
Afrasksturinn af þeim er óbeinn, skapar landkynningu og heiður fyrir þjóðina.
Líkt og á við um það að við Íslendingar gerum ekki ráð fyrir því að Árnagarður og söfnin séu rekin með gróða.
Ómar Ragnarsson, 19.6.2014 kl. 22:47
Það má vel vera að til séu lönd þar sem landeigendur gætu séð um gjaldtöku og hið opinbera mundi síðan fylgjast með uppbyggingu. Það vil ég ekki útiloka.
En ekki hér á klakanum, það eitt er víst.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 19.6.2014 kl. 23:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.