Fleira hefur breytt umhverfi öryggismála í Evrópu.

Það er skiljanlegt að framkvæmdastjóri NATO horfi einhliða á "umhverfi öryggismála í Evrópu" út frá sjónarhorni NATO. En slík einhliða sýn getur verið bæði röng og hættuleg.

Þegar George Bush eldri og Gorbasjov sömdu um endi Kalda stríðsins og "umhverfi öryggismála í Evrópu" lofaði Bush því, að NATO myndi ekki stækka sig til austurs.

Hvers vegna lofaði hann því? Af því að miðað við þróunina fyrir Seinni heimsstyrjöldina þegar Þjóðverjar gerðu bandalög við nágrannaríki Sovétríkjanna var skiljanlegt að tilbúningur nýs bandalags á því svæði við Vesturveldin ylli tortryggni hjá Sovétmönnum.

Þetta loforð var svikið og NATO færði sig í átt til Rússlands. Ásókn hinna nýju aðildarríkja og fleiri ríkja við vesturlandamæri fyrrum Sovétríkja var að vísu skiljanleg, en hún var upphafið á því að breyta umhverfi öryggismála á þessu svæði, ekki aðgerðir Rússa.

Þegar þessi útþensla Vesturveldanna í austurátt heldur áfram er það skiljanlegt að Rússar líti á það sem ógn. Þeir muna enn vel eftir orðunum "drang nach osten" í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar og það fyllir þá ugg með réttu eða röngu.

Ef Georgía gengur í NATO er bandalagið í augum Rússa að króa þá inni og læsa í krumlu.

Eða hvað myndu Bandaríkjamenn hafa sagt ef Kúba hefði gengið í Varsjárbandalagið 1961 ?

Það er út af fyrir sig rétt hjá Anders Fogh Rasmussen að aðgerðir Rússa á þessu ári hafi breytt umhverfi öryggismála í Evrópu. En þær breytingar eiga sér aðdraganda sem hér hefur verið rakinn.

Rússar eru að styrkjast á svæðinu og hafa ákveðið að segja: Hingað og ekki lengra.

Ég er enginn aðdáandi rússnesks stjórnarfars eða stjórnarhátta Pútíns, - fjarri fer því, - heldur aðeins að reyna að líta á málin af raunsæi þeirra sem skoða öryggispólitík frá víðu sjónarhorni frá fleiri hliðum en einni.  

 

 

  


mbl.is Gerbreytt umhverfi öryggismála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Finnland og Svíþjóð eru ekki í Atlantshafsbandalaginu (NATO), en hafa átt samvinnu við NATO og bæði ríkin fengu aðild að Evrópusambandinu árið 1995.

Mörg Evrópuríki vilja hins vegar vera bæði í Evrópusambandinu og NATO, til að mynda Eistland og Lettland, sem eins og Finnland eiga landamæri að Rússlandi.

Lettland og Eistland fengu aðild að Evrópusambandinu og NATO árið 2004.

Og Úkraína á landamæri að Póllandi, Slóvakíu, Ungverjalandi og Rúmeníu, sem öll eru bæði í Evrópusambandinu og NATO.

Úkraína er sjálfstætt ríki sem þarf ekki að spyrja Kremlarherra að því frekar en Lettland og Eistland hvort það megi ganga í NATO og Evrópusambandið.

Fjórðungur af íbúum Eistlands og Lettlands
eru af rússnesku bergi brotnir en 17% af þeim sem búa í Úkraínu.

Hins vegar þurfa ríkin í NATO og Evrópusambandinu að samþykkja aðild Úkraínu og það verður nú ekki á morgun.

Þorsteinn Briem, 25.6.2014 kl. 15:29

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Rússland hefur síðastliðinn áratug verið "innikróað" af NATO-ríkjum, er miklu minna en Sovétríkin voru, Varsjárbandalagið leið undir lok fyrir meira en tveimur áratugum og hvorki Rússland né Austur-Evrópuríkin eru nú kommúnistaríki.

Moskva er um 700 kílómetrum frá landamærum Rússlands og Lettlands en um 550 kílómetrum frá landamærum Rússlands og Úkraínu.

Mismunurinn er því aðeins
um 150 kílómetrar, vegalengdin frá Reykjavík að Skógum undir Eyjafjöllum.

Næst stærsta borg Rússlands, Sankti Pétursborg, þar sem fimm milljónir manna búa, er einungis um 200 kílómetrum frá landamærum Rússlands og Finnlands, svo og Eistlands, sem er í Atlantshafsbandalaginu (NATO).

Og Tyrkland, sem einnig er í NATO, er aðeins í um 200 kílómetra fjarlægð frá Krímskaga.

Og um 80 kílómetrar eru á milli Rússlands og Bandaríkjanna við Beringssund.

Rússland er stærsta land heimsins en þar búa aðeins 144 milljónir manna, einungis um þrefalt fleiri en í Úkraínu (45 milljónir), tæplega tvöfalt fleiri en í Þýskalandi (81 milljón) og um tvöfalt færri en í Bandaríkjunum (318 milljónir).

Þorsteinn Briem, 25.6.2014 kl. 15:43

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ef Úkraína væri í Atlantshafsbandalaginu (NATO) er harla ólíklegt að rússneski herinn réðist inn í landið.

"Kjarni Atlantshafsbandalagsins er 5. grein stofnsáttmála bandalagsins, þar sem því er lýst yfir að árás á eitt bandalagsríki í Evrópu eða Norður-Ameríku jafngildi árás á þau öll."

Þorsteinn Briem, 25.6.2014 kl. 16:24

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bandaríkjamenn hafa sent hersveitir inn í annað Ameríkuríki og sýnt mátt sinn til að fylgja eftir stórveldishagsmunum sínum, ef þeir hafa talið þeim ógnað.

Rússar vilja að svipað gildi um þá og nágrannaríki þeirra.

Ef þau verða aðilar að NATO telja Rússar sér vera meinað um að stunda svipaða utanríkissstefnu og Kanarnir.

Ég fæ ekki séð að það muni á nokkurn hátt auka öryggi og frið á landamærum þeirra ef farið er að spila það áhættuspil sem felst í því að yfirráðasvæði NATO nái að landamærum Rússlands.  

Ómar Ragnarsson, 25.6.2014 kl. 19:39

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Yfirráðasvæði Atlantshafsbandalagsins (NATO) nær að Rússlandi í vestri með Eistlandi og Lettlandi, í suðri með Tyrklandi og í austri með Bandaríkjunum.

Ef einhver hefur gleymt að líta á klukkuna er árið nú 2014 en ekki til að mynda 1980, enginn hefur áhuga á að ráðast á Rússland frá til dæmis Eistlandi eða Úkraínu og það vita Rússar að sjálfsögðu.

Hagsmunir Evrópusambandsins og Rússlands eru að viðskipti þeirra verði áfram mikil og að sjálfsögðu hvarflar ekki að Rússlandi að ráðast á NATO-ríki.

Rússar eiga mest viðskipti við Evrópusambandið og þriðju mestu viðskipti þess eru við Rússland.

Þýskaland og Japan eru stórveldi vegna mikilla viðskipta við önnur ríki en ekki vegna þess að þau hafi lagt undir sig önnur lönd.

Og það vita Rússar að sjálfsögðu.

Þorsteinn Briem, 26.6.2014 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband