27.6.2014 | 06:40
Mannsnafn felur í sér dýrmæt mannréttindi.
Ég er mjög áhugasamur um að við Íslendingar gætum vel að okkar einstæða nafngiftasið að kenna hverja manneskju við foreldri sitt í stað þess að taka upp ættarnafnasið, þar sem kona verður að taka upp ættarnafn manns síns.
Svo áhugasamur var ég um þetta meðan við Helga völdum nöfn á börn okkar, að ég fékk því framgengt að hvert þeirra héti aðeins einu nafni en ekki tveimur.
Ástæðan er sú, að enda þótt tveggja nafna siðurinn sé ágætur þegar fyrsta nafnið er mjög algengt, felst viss hætta í því að föður/móðurnafnið gleymist.
Að þessu sögðu tel ég hitt hins vegar mikilsverðara að höfð séu í heiðri þau grundvallarmannréttindi að hver manneskja megi ráða hvaða nafn hún ber, svo framarlega sem það er ekki ögrandi eða algert ónefni.
Eitt þekktasta dæmið um þá baráttu, sem það hefur kostað að fá þessi mannréttind viðurkennd, er deila Muhammads Ali við bandarísk yfirvöld og mikinn meirihluta bandarísku þjóðarinnar þegar hann vildi leggja af nafnið Cassius Clay, gerast múslimi og taka upp nýtt nafn.
Hann sagði að Cassis Clay væri lítilsvirðandi þrælsnafn og krafðist þess að fá að breyta því.
Það var hins vegar ekki auðhlaupið að því því að bandarískir fjölmiðlar og íþróttafréttamenn neituðu að kalla hann annað en Cassius Clay og í fyrstu neituðu sumir mótherjar hans að kalla hann nýja nafninu.
Ali nýtti sér löglega aðferð til þess að refsa þeim á þann hátt að berja þá sundur og saman 12 til 15 lotur þegar mönnum sýndist að hann gæti afgreitt þá endanlega miklu fyrr.
Hæst, eða kannski lægst, reis þessi deila þegar hann keppti við Ernie Terrel um að sameina tvo heimsmeistaratitlana í einn.
Terrels neitaði að kalla Ali því nafni, heldur notaði þrælsnafnið hvenær sem hann kom því við. Þessu reiddist Ali ákaflega og í 15 lotu bardaga, þar sem hann hafði yfirburði yfir Terrel og lúbarði hann, hrópaði hann lotu eftir lotu: "What´s my name!" What´s my name!" - Hvað heiti ég!" Hvað heiti ég!"
Undir lokin var andlit Terrels afmyndað og augun sokkin vegna barsmíðar Alis, en hann hélt við sinn keip og neitaði til enda bardagans að svara spurningu Alis.
Hafa ber í huga að þegar barni er gefið nafn er það barnarverndarmál að nafnið valdi því ekki óþægindum eða lítillækkun. Það er líka klárt mannréttindamál rétt eins og það að fá að ráða sínu nafni sjálfur.
Guardian fjallar um mál Harriet | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Árið 1994 voru 2.227 ættarnöfn skráð hér á Íslandi og ættarnöfn eru töluvert fleiri hér en föðurnöfn.
27.4.1996:
Fleiri ættarnöfn skráð hér á Íslandi en föðurnöfn
Hér á Íslandi þarf kona ekki að taka upp ættarnafn eiginmanns síns eða öfugt og í raun skiptir engu máli hvað viðkomandi heitir í opinberum skjölum.
Hér er það kennitalan sem gildir og daglega skiptir mestu máli hvað viðkomandi er kallaður af fjölskyldu sinni, vinum, kunningjum og starfsfélögum.
Nafnið Harriet getur væntanlega verið beygt eins og Bríet hér á Íslandi og tæpast nokkuð athugavert við það.
Og í íslenska ættarnafninu Briem er einnig "ie" en ekki "íe".
Margir Íslendingar heita Harry og nafnið Ómar varð ekki "íslenskt" fyrr en á síðustu öld.
Lög um mannanöfn nr. 45/1996
Mannanafnaskrá
Dæmi um leyfileg íslensk nöfn, samkvæmt Mannanafnanefnd:
Saxi Melrakki Snæringsson, Jeremías Engill Myrkvason, Aríel Þiðrandi Stormsson, Ljúfur Knörr Gjúkason og Þyrnir Fenrisson.
Þorsteinn Briem, 27.6.2014 kl. 08:40
Efnislega segir þú Ómar með réttu, að hafa beri í huga að það er barnaverndarmál að nafnið valdi .því ekki óþægindum eða lítillækkun.
Þetta mál er til orðið vegna Þess að Íslensk stjórnsýsla er að niðurlæga tíuára barn sem fékk nafnið Harriet með löglegum hætti hér á Íslandi.
Þess vegna á að kæra þetta stjórnvald sem að þessum ruddaskap og valdníðslu stendur, fyrir manréttindabrot.
Hrólfur Þ Hraundal, 27.6.2014 kl. 09:41
My name is Zue how do ya do?
Huckabee, 28.6.2014 kl. 04:09
"13. gr. Þjóðskrá Íslands er heimilt að leyfa manni breytingu á eiginnafni og/eða millinafni skv. 6. gr., þar með talið að taka nafn eða nöfn til viðbótar því eða þeim sem hann ber eða fella niður nafn eða nöfn sem hann ber ef telja verður að ástæður mæli með því."
"20. gr. Heimilt er að breyta ritun nafns í þjóðskrá án þess að um sé að ræða eiginlega nafnbreytingu.
Slík breyting á nafnritun skal fara fram eftir reglum sem ráðherra setur að höfðu samráði við mannanafnanefnd.
Hver maður getur aðeins fengið slíka breytingu gerða einu sinni nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi."
Lög um mannanöfn nr. 45/1996
"Þjóðskrá Íslands getur við ýmsar aðstæður sem nefndar eru í VI. kafla mannanafnalaga leyft breytingu á eiginnafni, millinafni og/eða kenninafni (t.d. að barn verði kennt til stjúp- eða fósturforeldris).
Slíkar breytingar skulu þó aðeins leyfðar einu sinni nema sérstaklega standi á.
Það telst ekki nafnbreyting í eiginlegum skilningi þótt fullorðinn einstaklingur leggi niður kenninafn sem hann hefur borið og taki upp annað kenninafn sem hann á rétt á í þess stað.
Ekki er því þörf á sérstöku leyfi til slíkrar nafnritunarbreytingar heldur skal hún tilkynnt Þjóðskrá Íslands.
Dæmi: Dóttir Maríu og Guðmundar Karls er nefnd Guðmundsdóttir en má þess í stað nefnast Maríudóttir eða Karlsdóttir."
"Þjóðskrá Íslands getur leyft aðrar breytingar á ritun nafns á þjóðskrá, án þess að um sé að ræða eiginlega nafnbreytingu.
Dæmi: Maður getur óskað eftir að fella eitt eða fleiri af nöfnum sínum úr þjóðskrá eða að skammstafa eitt eða fleiri af nöfnum sínum (t.d. millinafn)."
Meginreglur um mannanöfn - Nafnbreytingar
Þorsteinn Briem, 2.7.2014 kl. 13:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.