Magnað hvað starinn er snjall fugl.

Ég ber mikla virðingu fyrir staraum vegna útsjónarsemi hans, dugnaðar og þrautseigju.  Ástæðan er sú að flugvélaeigendur og þar með ég þurfa að hafa sérstakan vara á varðandi þennan gáfaða fugl, sem hefur vit á að nýta sér mannvirki af öllu tagi fyrir hreiðurgerð sína og sýnir gríðarlega harðfylgi við það, hvað flugvélar varðar.

Á facebook síðu minni sýni ég dæmi um það hve erfitt er að fást við þá ást á flugvélum sem starinn hefur. Þrátt fyrir mikla viðleitni til að koma í veg fyrir að hann verpi í vélarhúsum þeirra eða annars staðar, þar sem hann getur smokrað sér inn, hefur það gerst þrisvar á flugferli mínum að starinn hefur komist í gegnum allar varnir og byggt sér hreiður langt inni í flugvélum mínum.

Starinn reynir einkum að komast inn í vélarhúsið í gegnum loftinntökin og verður því að byrgja þau vel.

En í eitt skiptið komst hann með hreiður inn í aftasta hluta flugvélarskrokksins á óskiljanlegan hátt, en þar var afar erfitt að komast að hreiðrinu innan frá.

Í ljós kom að undir afturbrún lárétta stélflatarins á vélinni var eitt lítið kringlótt loftgat, sem fuglinum tókst að troða sér inn í. Þaðan fór hann lárétt inn í miðju stélsins og síðan fram í aftasta hluta skrokksins þar sem þetta fína rými var fyrir hreiður.

Eftir þetta loka ég ævinlega þessu litla gati eins og sést á mynd á facebook síðu minni.

Ef hreiður leynist ofan á hreyflinum kviknar í því eftir flugtal, því að loftkældur hreyfillinn hitnar mikið í flugtaksklifri.

Verra er þó, að fuglinum fylgir sérstök fló, sem getur borist á menn og er illvígari hér en í nágrannalöndunum, því að þar er annað dýr, maríuhæna svonefnd, sem lifir á flónni, en er ekki til hér á landi.  

 


mbl.is Stari gaf maríuerluungum í gogginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Smáleiðrétting:

Maríuhænur sem eru fremur litlar rauðleitar bjöllur með svörtum doppum hafa fundist hér af og til. Töluvert minni en járnsmiðurinn sem væntanlega flestir þekkja. Þær eru mjög góðir gestir og fagnar garðyrkjufólk þegar vert verður vart við maríuhænurnar í görðum landsmanna.

Útbreiðsla maríhænanna er ókunnug en líklegt er að þær berist hingað öðru hverju t.d. með skipum.

Fyrir nokkrum árum var eg á leið með fjölskyldu minni frá Danmörku með Norrænu. Tókum við eftir þó nokkru af maríuhænum og reyndum að safna sem mest af þeim saman og höfðum með okkur og slepptum á Egilsstöðum.

Maríuhænur eru mjög nytsamar í náttúrunni, eta t.d. lýs á trjám og aðra óværu en mjög viðkvæmar fyrir eitrun t.d. vegna umdeilda efnisins randoup sem kemur helst framleiðendum, söluaðilum og dreifingaraðilum að einhverju gagni.

Góðar stundir.

Guðjón Sigþór Jensson, 2.7.2014 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband