12.7.2014 | 19:45
Enn eitt dæmið um vanmat Íslendinga á náttúrufari landsins.
Í þúsund ár voru Íslendingar aldir upp við þá hugsun að eina fegurð og gildi íslenskrar náttúru fælist í "bleikum ökrum og slegnum túnum", en þannig hljóðar eina fegurðarjátning fornbókmenntanna.
Eldfjöll voru af hinu vonda og eitt þeirra meira var meira að segja fordyri helvítis. Jónas Hallgrímsson og fleiri góðskáld rómantísku stefnunnar reyndu að vísu að breyta sumu, en allt fram undir okkar daga hafa hraun, sandar, auðnir, öræfi, óveður, rigning og þoka verið ljót og af hinu vonda og þessi skoðun hefur meira að segja gengið svo langt að gamalreyndur maður á Austurlandi lýsti yfir því, að eina vonin til þess að lokka erlenda ferðamenn til Íslands fælist í Hallormsstaðaskógi.
Ég minnist þess að það var mikil upplifun fyrir mig, þegar ég var strákur í sveit í Langadalnum, að kynnast þokunni, duttlungum hennar og dulúð nokkrar vikur sumarið 1951 að mig minnir, (gæti hafa verið 1952) þegar komu óvenju margir þokusælir dagar og þó einkum þokusæl kvöld.
Mér fannst það mjög heillandi, spennandi og rómantískt, þegar þokan byrjaði að lauma sér með hlíðum fram dalinn með hafgolunni síðdegis og verða smám saman lægri og lægri utan í hlíðunum og búa til nýtt landslag þangað til hún hafði fyllt dalinn og það var komin niðaþoka.
Síðasta dæmið sem ég þekki var í ferð norður á Strandir í fyrra fyrir Ferðastiklur þegar þokan lék stórt hlutverk í öllu og setti mest strik í reikninginn hjá mér, sem var fljúgandi.
En útkoman í þáttunum, sem gerðir voru, varð svo sannarlega jákvæð, jók á ævintýrablæ þessara slóða og skapaði fjölbreytni.
Stórir hópar erlendra ferðamanna sækjast eftir óvenjulegri upplifun, og fyrir þá flest felst það í því sem ég nefndi áðan, eldfjöllum, jöklum, hraunum, söndum, urðum, öræfum, sjávarbjörgum, hverum, óveðri, rigningu og þoku.
Frægustu skógar okkar, bleikir akrar og slegin tún verða ekki efst þar á blaði, en gegna sínu hlutverki við að skapa einstæða fjölbreytni landsins.
Þokan heillar eins og norðurljósin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Úr Svarfdæla sögu:
"Karl sagði: "Hér hefi eg Ingvildi fögurkinn konu þína."
Skíði [sem Skíðadalur heitir eftir] svaraði:
"Eg vil ei að hún komi í augsýn mér. Eg hefi ekki verra verk unnið en það eg af henni hlaut er eg drap föður þinn."
"Karl sagði: "Ei þarftu að hrósa því svo mjög því að nú skaltu láta líf þitt eða fastna Ingvildi dóttur þína Klaufa vegnum.
[Bærinn Klaufabrekkur í Svarfaðardal heitir eftir Klaufa.]
Það kjöri Ásgeir að rétta fram höndina og nú sprettir Karl til handar Klaufa og verður Ásgeir þar í að taka og fara festar fram.
Þá kom kveðlingur úr húðinni:
Mál er í meyjar hvílu,
mjög emk snögglega höggvinn,
flýgur í faðm mér eigi
fögur drós, gala mögrum."
Svarfdæla saga
Klaufabrekkur og Skíðadalur - Gönguleiðir í Dalvíkurbyggð
Þorsteinn Briem, 12.7.2014 kl. 19:53
"Það er lítið um náttúrulýsingar í Íslendinga sögum og setningin fögur er hlíðin einsdæmi í þessum bókmenntum.
En fegurðarskyn fornmanna lýsir sér með áhrifamiklum hætti í mörgum örnefnum.
Sá sem gaf Fagradal nafn á sínum tíma hefur haft svipaða tilfinningu fyrir umhverfinu og við sem nú lifum.
Hann hefur áreiðanlega farið um þetta svæði á sólbjörtum sumardegi og kunnað að meta þá veizlu augans sem við blasti. Á vetrin er heiðin oft illfær."
"Eyjabakkasvæðið er á margan hátt sambærilegt við Þjórsárver við Hofsjökul og eru bæði talin með merkustu hálendisvinjum Íslands.
Sá er þó munurinn að Þjórsárver hafa verið friðlýst um aldur og ævi en Eyjabakkar dæmdir til að kaffærast í jökullóni Fljótsdalsvirkjunar."
Dagbókarslitur af heiðum og hálendi - Matthías Johannessen fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins
Þorsteinn Briem, 12.7.2014 kl. 19:57
Sæll Ómar.
Það er ljóst að fegurð okkar lands er mikil og einnig að erlendir ferðamenn eru ekki koma hingað til að sjá bleika akra eða skóga. Sandauðnir og eldfjöll eru þeim hugleiknari. Það eru fleiri og fleiri landsmenn að uppgvöta þessa dýrð, þó enn séu til menn sem vilja sjá stóra akra og mikinn skóg.
En mat á fegurð er afstæð. Fyrr á öldum valt tilvera þjóðarinnar á því að hafa i sig og á. Því er kannski ekki undarlegt að á þeim tíma hafi fegurðin verið mæld í því sem gaf og ljótleikinn því sem tók. Bleikir akrar voru vissulega merki um matarholu og eldfjöllin tákn eyðileggingar. Við skulum ekki dæma forfeður okkar þó þeir hafi séð fegurðina í því sem gaf, þeir áttu varla annarra kost.
Gunnar Heiðarsson, 12.7.2014 kl. 21:31
"Hann heilsaði ekki með handabandi að landssið, heldur staðnæmdist nokkur skref í burtu og litaðist um í rökkrinu, tók upp pípu og tóbak í ró, - fallegur dalur; með fallegustu dölum.
Fallegur, ansaði Bjartur, - ja, það er nú mest undir því komið hvort heyið fer allt í grút eða ekki."
Halldór Laxness, Sjálfstætt fólk.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.7.2014 kl. 22:26
11.7.2014 (í gær):
Um 3,6 milljarða króna tap af rekstri álversins í Straumsvík árið 2013 og 1,8 milljarða króna tap árið 2012
Þorsteinn Briem, 12.7.2014 kl. 23:09
Ég fór upp á Langjökul um daginn með ferðamenn. Þar var blindbylur, - skyggni svona 10 metrar. Þeir gátu því ekki notið útsýnis þar ofan að, en fengu samt töluvert kikk út úr túrnum ;)
Jón Logi (IP-tala skráð) 14.7.2014 kl. 09:03
Erlendir gestir um Leifsstöð 2013 og 2014 - Ferðamálastofa
Þorsteinn Briem, 18.7.2014 kl. 02:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.