Þekki dæmi afleiðingarnar af mistökum drukkins læknis. .

Fyrir allmörgum árum fékk kona, sem orðin var 93ja ára, illskeytta flensu kvöldið fyrir Þorláksmessu. Hún var á einu af fjölmörgum elliheimilum þessa lands.

Læknirinn gerði ekkert í málinu og daginn eftir kom hann  seint til hennar og var þá kominn í glas, ruglaði með nafn hennar og virtist vera einn af þeim Íslendingum sem detta í það á Þorláksmessu.

Þegar loksins var hægt að fá hann til að gera eitthvað af viti var það of seint og konan dó.

Og hvað með það? segja kannski margir. Var hún ekki hvort eð er við dauðans dyr, svona gömul?

Var hún ekki búin að lifa nógu lengi, miklu lengur en fólk getur búist við?

Var ekki gamalt fólk á biðlista eftir því að komast þarna inn þannig að þetta dauðsfall varð til gagns fyrir aðra? 

Er nokkur þörf á því að krefjast ítrustu læknisþjónustu í svona tilfelli?  Gerir það ekki minna til að drykkfelldur læknir geri mistök gagnvart farlama fólki á elliheimili heldur en ef hann væri að sinna fólki á besta aldri?

Aðstandendur gömlu konunnar áræddu ekki að gera neitt í málinu. Þeir gátu ekki fengið hana til baka og málaferli hefðu orðið sársaukafull, dýr og tvísýnt um niðurstöðu.

En hins vegar var þessi kona alls ekki komin með nein elliglöp eða orðin heilsulítil þótt öldruð væri.

Þvert á móti var hún með eindæmum hress, skemmtileg og skýr í kollinum. Hún naut þess að fá að lifa og miðla glettni sinni og hressleika til annarra. Heillaði alla í samkomum hjá afkomendum hennar.

Og þá vaknar spurningin um það hver sé þess umkominn að dæma aldrað fólk til að njóta minni réttar en þeir sem yngri eru.  

Að það geri minna til að drykkfelldur læknir vanræki starf sitt á elliheimili en annars staðar. 


mbl.is Læknirinn var drukkinn á vakt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Alsgáður læknir hefði getað rætt við konuna strax fyrsta kvöldið og komist að því hversu mikla meðferð hún óskaði, vill hún endurlífgun, gjörgæslu eða öndunarvél. Síðan hefði þeirri áætlun verið framfylgt. Það er ófyrirgefanlegt að mæta drukkinn í vinnuna og gildir einu hvað menn starfa við eða hverjum þeir sinna.

Þar sem gömlu konunni elnaði sóttin svona hratt er hætt við því að hún hefðu þurft gjörgælu og ef til vill öndunarvél. Hvort henni hefði hugnast það er óvíst. Ef þetta gamall einstaklingur verður þetta mikið veikur og þarf mikla meðferð er mjög ósennilegt að hann komist á fyrri stað í tilverunni.

Fyrir utan það að menn sinni skyldum sínum þá tel ég mjög mikilvægt að það fari fram umræða í þjóðfélaginu um hversu mikla meðferð einstaklingar vilja og sá vilji sé skráður.

Gunnar Skúli Ármannsson, 14.7.2014 kl. 17:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband