Var Lóa litla á Brú öll þar sem hún var séð ?

56 ár eru síðan Lóa litla á Brú varð öllum Íslendingum kunn. Þetta var upphaflega "feimin og rjóð og undirleit" sveitastelpa eins og segir í textanum. 

Hún gerir ekki miklar kröfur um hamingjuna í lífinu:

"Vildi fá sér vænan mann

og vera alltaf svo blíð og góð við hann." 

Í Ferðastikluferð okkar Láru varpaði hún fram áleitnum spurningum við morgunverðarborðið áðan um það hvernig bæri að skilja textann um Lóu og fyrr en varði vorum við komin á kaf í rannsóknarblaðamennsku, sem leiðir til þess að hugsanlega er hægt að upplýsa leyndarmál, sem hefur legið órannsakað í öll þessi ár.  

Því að þegar saga Lóu er rakin frekar í textanum við lagið, vakna áleitnar spurningar, og satt að segja skildi ég aldrei þennan texta almennilega á sínum tíma. 

Í textanum segir:

"Og síðan saga þeirra varð sögum margra lík.

Þau áttu börn og buru og þau búa´í Reykjavík. " 

Gott og vel. Þau urðu barnmörg og búa í Reykjavík þar sem lífsgæða- og peningakapphlaupið er einna mest á Íslandi. Og þá kemur allt í einu þessi makalausa lýsing á því hvernig þau gátu tekið þátt í þessu kapphlaupi;  lýsing á því hvernig þau gátu unnið fyrir nógum tekjum til að lifa flott: 

"Hann vinnur eins og hestur og hún hefur sjaldan frí,

því Lóa þarf að fá sér fötin ný."

Í fyrri línunni er puði hans lýst: "Hann vinnur eins og hestur..."

Þarf ekki að lýsa því frekar, vinnur mikla yfirvinnu. jafnvel á kvöldin og um helgar. 

En hvað er Lóa að puða, hvað er hún að gera á meðan, um helgar og á kvöldin, þegar maðurinn er ekki heima.

Og í hverju er það fólgið hjá Lóu, að hún hafi "sjaldan frí?"

Jú, hún þarf að "...fá sér fötin ný."

Halló. Hvers vegna?

Svarið kemur í framhaldinu í nokkrum samliggjandi ljóðlínum: 

"Lóa litla´á Brú er lagleg enn, 

og hýr á brá og heillar menn.

Ergir oft sinn eiginmann,

því hún er alltaf svo blíð við aðra´en hann."

Og þessi síðasta ljóðlína er sú síðasta í kvæðinu um þau hjón, Lóu og Svein og meira að segja endurtekin til þess að leggja sérstaka áherslu á þetta.

Bandaríska varnarliðið kom árið 1951 til Íslands. Sjö árum síðar er Lóa litla "..lagleg enn og hýr á brá og heillar menn,....og  "alltaf svo blíð við aðra en hann."  þ. e. eiginmann sinn.

Ég ólst upp við götu í Reykjavík á þessum árum og einn íbúi götunnar komst í Bíódaga, kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar og um einn íbúa götunnar gilti þetta: "...hýr á brá og heillar" erlenda "menn."  

Þess vegna finnst mér tilgátan um það hvernig Lóa lagði sitt af mörkum til heimilisins vel geta rímað við veruleika þessa tíma og gefa textanum dýpri merkingu, umhugsunarverða merkingu. 

Samkvæmt þessum skilningi á textanum lýsir hann því hvernig þau hjónin Lóa og Sveinn gátu unað því ástandi að hún væri að ergja hann með því að vera blíð við aðra en hann.

Eina ástæðan til þess að Sveinn gæti unað þessu ástandi hlaut að vera hvað hún þénaði mikið og skaffaði vel; hafði meira að segja margfalt tímakaup á við hann, - þetta virðist hafa verið svona ákveðið samkomulag um tekjuöflun fyrir stóra fjölskyldu, sem þurfti að hafa það flott í samræmi við lífsgæðakröfur þjóðfélagsins.

Textinn lýstir því hvernig saklaus sveitastelpa, sem gerir litlar og einfaldar kröfur, breytist í fatafrík við það að koma í ys, hraða og streitu borgarlífisins og gengur tekjufíkninni á hönd, jafnvel þótt miklu þurfi að fórna fyrir það, bæði átök og erfiðleika í hjónabandinu.  

Og um leið er fólgin viss ádeila í textanum sem kallar á texta um framhaldið, hvort þetta gat gengið svona áfram, - hvernig þetta fór allt saman. Maður ætti kannski að prófa að gera slíkan texta?   

 

 

 

 


mbl.is Er Ted í raun stolinn Charlie?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef nú kunnað þennan texta síðan ég var 10-12 ára. Aldrei datt mér neitt svona í hug. En hvernig færðu nafnið "Sveinn" út ?

Sigurður Þórólfsson (IP-tala skráð) 17.7.2014 kl. 11:18

2 identicon

Lagið er reyndar flottara original með Presley, "Ring around your neck" En það er önnur saga..

Sigurður Þórólfsson (IP-tala skráð) 17.7.2014 kl. 11:21

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

http://upload.wikimedia.org/wikipedia/is/c/cf/Haukur_Morthens-L%C3%B3a_litla_%C3%A1_br%C3%BA.jpg

Þorsteinn Briem, 17.7.2014 kl. 11:28

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð pæling hjá þér Ómar. Þá lítur út fyrir að Lóa litla á Brú hafi nú ekki verið alveg svo saklaus, og ef þetta er rétt, þá er meira spunnið í textan en maður hefur gert sér grein fyrir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.7.2014 kl. 11:40

5 identicon

Já, Ómar. Gerðu framhaldstexta og nýtt rokklag í anda þeirra gömlu, t.d. a la "Ég fæ aldrei nóg", sem er alveg frábært lag. Mætti spila það oftar í útvarpinu, ekki síst í ljósi meintrar græðgisvæðingar á öllum sviðum í dag. Í því sambandi bendi ég á eftirtektarvert atriði, sem þú fræddir spyril og hlustendur á í útvarpinu fyrir all nokkrum árum þar sem þetta lag bar á góma, þ.e. saxófónsólóið sem er aldeilis frábært og "geggjað". - Skora ég á dagskrárgerðarfólk á útvarpsstöð allra landsmanna að spila lagið nú þegar; Viðtalið við þig um það mætti gjarnan fylgja með.

krisjons (IP-tala skráð) 17.7.2014 kl. 12:52

6 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Já, Ómar. Gerðu framhaldstexta og nýtt rokklag í anda þeirra gömlu, t.d. a la "Ég fæ aldrei nóg", sem er alveg frábært lag. Mætti spila það oftar í útvarpinu, ekki síst í ljósi meintrar græðgisvæðingar á öllum sviðum í dag. Í því sambandi bendi ég á eftirtektarvert atriði, sem þú fræddir spyril og hlustendur á í útvarpinu fyrir all nokkrum árum þar sem þetta lag bar á góma, þ.e. saxófónsólóið sem er aldeilis frábært og "geggjað". - Skora ég á dagskrárgerðarfólk á útvarpsstöð allra landsmanna að spila lagið nú þegar; Viðtalið við þig um það mætti gjarnan fylgja með.

Kristinn Snævar Jónsson, 17.7.2014 kl. 12:53

7 identicon

Ég held að rétt sé:  "Hann vinnur eins og hestur og hefur sjaldan frí".  Þannig hljómar stuðlasetningin betur. 

Jón Kr. Arason (IP-tala skráð) 17.7.2014 kl. 13:36

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvaðan fæ ég nafnið Sveinn?  Jú, í textanum stendur "...ók hann Sveinn í hlað..."

Ómar Ragnarsson, 17.7.2014 kl. 23:38

9 identicon

Sæll Ómar!

Þú hefur heldur betur stungið fingri í rangan þumal!

Augljóst er af texta að Lóa hefur þurft að dragnast
með þetta mannkerti, eiginmann sinn og þurft að
trekkja hann reglulega upp svo hann gengi á öllum fjórum!

Ekkert kynlegt við það.

Húsari. (IP-tala skráð) 18.7.2014 kl. 08:34

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Flott, Húsari góður. Annar flötur á því að Lóa hafi verið hörkukvendi og haft tögl og haldir í sambandinu.

Ómar Ragnarsson, 18.7.2014 kl. 23:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband