19.7.2014 | 13:12
Friðarspillar, frekjulið, fífl og glæpahyski.
Þessa dagana hringir síminn hjá okkur snemma að morgni og rífur mann á lappir fyrir allar aldir.
Ísmeygileg en jafnfram ýtin og uppáþrengjandi rödd í símanum kveðst hringja frá besta fyrirtæki á sínu sviði í Flórída og vera umhugað um að afstýra því að skæður tölvuvírusl, sem kominn sé í tölvuna mína, eyðileggi hana. Í fyrirtækinu sé einstæð sérþekking sem geti komið til bjargar, annars tapi ég mikilvægustu gögnum mínum og verði á vonarvöl.
Maður á sem sagt að trúa því að það sé verið að vinna í fyrirtæki á Flórída klukkan fjögur að nóttu að þarlendum tíma við að vaka yfir tölvunni minni.
Úthringingum þessara fífla, friðarspilla og frekjuliðs, sem rífur mann upp dag eftir dag og stundar skipulega glæpastarfsemi, á að svara á þann eina hátt að binda enda á samtalið sem allra fyrst.
Allir sem ég hef rætt við um þetta hafa svipaða sögu að segja af kunningjum sínum eða jafnvel þeim sjálfim þannig að hér er um mjög miklar hringingar að ræða til þúsunda fólks.
Þess vegna er því miður er hætta á því að vegna þess hve úthringingarnar eru yfirgripsmiklar og ná til margra, takist tölvuhökkurunum að veiða einhvern grandalausan í net sitt.
Eina ráðið gegn því er almenn umræða og þekking á eðli þessarar glæpastarfsemi.
Athugasemdir
Fengum einn daginn hringingu frá Rússlandi, Jápan og USA. Mig grunar að þeir geti stillt þetta eins og það sé að koma frá hinum ýmsu löndum því varla er þetta tilviljun að hringt sé með landskóða þriggja landa á einum og sama degi, nema þetta séu alþjóðleg samtök.
Brynjólfur Tómasson, 19.7.2014 kl. 16:02
Sæll Ómar.
Gildir einu hvað þeir eru kallaðir en helst þyrftir þú
að geta gert betur.
Þetta eru yfirleitt ákveðnar runur í þessum símanúmerum
sem hægt er að nálgast og þar með að svara þessum símtölum
hreint aldrei. Meðan þú svarar og sýnir viðbrögð af því tagi
eða önnur þá halda þeir áfram; þú þarft ekkert að vera með
símann opinn á nóttinni! Kynntu þér þetta og það heyrir
brátt sögunni til.
Húsari. (IP-tala skráð) 19.7.2014 kl. 17:08
Glæpamenn geta sumir stillt númerið eins og Brynjólf grunar, og þannig að það líti út eins og þeir hringi úr öðrum löndum en þeir eru staddir í, þeir hafa hringt frá Nígeríu til Bandaríkjanna og þóttst vera í Bretlandi, sem dæmi.
Maður getur bæði lækkað í og slökkt á símanum á nóttinni, og tekið hann úr sambandi þessvegna ef maður vill. Húsari sagði að vísu nokkurn veginn það sama. Líka verið með óskráð númer. Það er ég með og fæ svona símtöl næstum aldrei, en það vilja það víst ekki allir þó ég vilji það.
Elle_, 19.7.2014 kl. 22:57
Reyndi að skella á en þetta hélt áfram þar til ég svaraði og tilkynnti inverjanum að hann væri lygari og að ég myndi tilkynna þetta til lögreglu (á ensku). Viðkomandi skellti strax á og fjórða hringing hefur ekki átt sér stað síðan.
Einar Karlsson (IP-tala skráð) 19.7.2014 kl. 23:02
Ég hef aldrei verið með leyninúmer af því að það er óþarfi, - það halda allir að ég sé með það, rétt eins og það sé einhvers konar stöðutákn að hafa leyninúmer.
Ég er þar að auki enn á bakvakt sem fréttamaður.
Ómar Ragnarsson, 20.7.2014 kl. 15:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.