Þjóðarskömm, hvert sem litið er.

Fyrir 15 árum sagði Ulrich Munzer, þýskur prófessor og Íslandsvinur, sem kemur með nokkra tugi nemenda sinna árlega til Íslands, að þá væri ástandið við Geysi þjóðarskömm. Já, það eru 15 ár síðan. 

Á umbrotasvæði Kröfluelda blasir við vaxandi þjóðarskömm. Þótt lagðir hafi verið göngupallar á Leirhnjúkssvæðinu eru bílastæði við sprengigíginn Víti orðin allt of lítil. Fyrir rúmum áratug lofaði Landsvirkjun því að skemma ekki þennan annan af tveimur slíkum gígum landsins, - hinn er í Öskju.

Ný bortækni með skáborunum myndi tryggja það.

Loforðið var rækilega svikið, sargað mörg þúsund fermetra borplan og viðkvæmt gróið land fjarlægt við efri brún þessa náttúruundurs og skellt þar niður borholu með tilheyrandi gufuleiðslum. Bílar, sem lagt er á grasflöt fyrir neðan gíginn, eru slæmir, en smámunir miðað við vítavert framferði fyrirtækis í eigu allra landsmanna. 

Landeigendur hafa sett keðju fyrir vegarslóðann frá Víti norður í Gjástykki, að sögn til að verja það svæði fyrir átroðningi.

Annað býr þó líka að baki, einbeittur brotavilji gegn náttúruverðmætinu Leirhnjúkur-Gjástykki, sem á enga hliðstæðu á Íslandi eða í heiminum, eina staðnum þar sem sjást ummerki um og til eru samtíma myndir af sköpun Íslands, þar sem Ameríka og Evrópa aðskildust og nýtt hraun, nýtt Ísland, kom upp í gegnum gjárnar. Þar að auki valið æfingasvæði fyrir marsfara framtíðarinnar.

Nefnd um skipulag miðhálendisins hefur einróma ákveðið að þetta svæði verði sem líkast svæði Hellisheiðarvirkjunar, skilgreint iðnaðarsvæði með tilheyrandi stöðvarhúsi, skiljuhúsi, vegum, borholum, gufuleiðslum og háspennumöstrum og línum.

Það líkar meirihluta landeigendafélags Reykjahlíðar vel. Það fær góða borgun í hendurnar daginn sem skrifað er undir virkjunarsamninga og því hentar það afar vel. til að geta ráðist á Gjástykki í sem mestri leynd, að brjóta lög um óhefta ferð almennings með því að loka aðgengi að því með keðju svo að hægt sé að viðhalda áunnri fáfræði fólks um það.

Formanni félagsins þykir liggja svo mikið við að hann skrifaði þrjár blaðagreinar um nauðsyn virkjunar hér um árið.  

Á meðan Róm brann spilaði keisarinn á fiðlu. Á meðan stundaður er fjölbreytilegur hernaður gegn íslenskum náttúruverðmætum ríkir algert viljaleysi, getuleysi og ringulreið gagnvart vörslu þeirra náttúrugersema um allt land, sem milljón ferðamenn eru komnir til að sjá og leggja með því stærstan skerf allra atvinnugreina í íslenskt þjóðarbú.

Það eru allir svo uppteknir við að græða í gullæði ferðaþjónustunnar. Byggingarkranar þjóta nú upp eins í gróðærinu fyrir 2008, í þetta sinn vegna hótelbygginga.

Einhverjir smáaurar eru látnir hrjóta af ríkisfé til nýrra verndaraðgerða, innan við þúsundasti hluti af gjaldeyristekjunum af ferðamönnum, innan við 0,001% !  

Í þjóðgörðum erlendis er fyrst varið fé í aðgerðir, sem ferðafólkið sér, og það síðan rukkað.

Hér á að rukka strax, án þess að  ferðafólkið sjái að neitt hafi verið gert. Slíkt hugarfar heitir á erlendu máli "take the money and run" og þykir skömm að. Þegar heil þjóð er haldin slíku hugarfari á kostnað komandi kynslóða er það þjóðarskömm. 


mbl.is Bílahjörðinni beitt á gróið land við Víti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér fyrir þessa hrollvekju Ómar. Ég hélst ekki við þarna síðast þegar ég kom á Kröflusvæðið. Þetta var áður mitt eftirlæti. ( Sjá Náttúrufr.1-2 hefti 2013).

Mér hefur alltf fundist að það sem Guðmundur Pálmason skrifar á bls. 256 í Jarðhitabók segi allt sem segja þarf: Einn bormaður Rögnvald Kjartansson ( 1932-2003), er sá Íslendingur sem lengst allra hefur borað með höggbor, frá 1954 og til starfsloka um 1994 . Hann boraði um allt land nema í Kröflu. Þar vildi hann ekki bora.

Bergþóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 22.7.2014 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband