22.7.2014 | 18:54
Hvers vegna endalaust þetta langa og leiðinlega orð, "áhafnarmeðlimir"?
Íslenska á gott heiti yfir hermenn á herskipi. Þeir eru sjóliðar. Sams konar heiti yfir þá, sem starfa um borð í flugvélum, er flugliðar.
Um borð í bátum og skipum starfa skipverjar.
Öll þessi orð eru stutt og hnitmiðuð, aðeins þrjú atkvæði.
Nei, það virðist í gangi herferð til að útrýma þeim og troða inn í staðinn hinu langa, leiðinlega og ónákvæma orði áhafnarmeðlimir, sem er sex atkvæða orð, tvofalt lengra en ofangreindu heitin.
Og orðið áhafnarmeðlimur segir út af fyrir sig ekkert um það á hvers konar samgöngutæki þessir áhafnarmeðlimir vinna.
Hve oft skyldi ekki hafa verið reynt að hamla gegn þessari hrörnun og geldingu málsins?
Á að trúa því að orðskrípið áhafnarmeðlimir muni drepa af sér góðu, stuttu heitin, sem bæði eru helmingi styttri og hnitmiðuð að öllu leyti?
99 ölvaðir flugmenn stöðvaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Einhver er í áhöfn og engin þörf á að segja þar að auki að hann sé þar "meðlimur".
Og hús er á ákveðnum stað og heldur engin þörf á að greina sérstaklega frá því að hús sé "staðsett" á einhverjum stað.
Menn eru í vörninni eða sókninni í til að mynda knattspyrnu og eru þar ekki allir jafn góðir en íþróttafréttamenn gapa nú sífellt um "sóknarlega" og "varnarlega".
Þorsteinn Briem, 22.7.2014 kl. 20:48
Ekki alveg rétt Ómar. Þeir sem starfa um borð í loftfari eru flugverjar. Það hugtak tekur til flugliða og þjónustuliða. Flugliðar eru yfirmenn um borð s.s. flugmenn, vélstjórar og,- þar sem við á,- loftsiglingafræðingar sem og aðrir sem þurfa skírteini til að vinna sín störf í loftfari.
Kristján Þorgeir Magnússon, 22.7.2014 kl. 21:21
Er fólk sem er í áhöfn skips eða loftfars meðlimir. Fólkið er í áhöfn.Ómar veit þetta.
Sigurgeir Jónsson, 23.7.2014 kl. 03:13
Mæl þú manna heilastur. Satt og rétt.
Eiður (IP-tala skráð) 23.7.2014 kl. 11:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.