Nafnið og bílgerðin fara ekki alltaf saman.

Í byrjun þetta: Það er villandi þegar sagt er að Ford Fiesta sé mest seldi breski bíllinn með rúmar fjögur milljón eintök. Mini var seldur í 5,5 milljón eintökum. En ef til vill hefur Fiesta komist fram úr Mini hvað snertir seld eintök þar í landi, því Mini var fluttur út til margra landa. 

En Mini var óbreyttur alla sína framleiðslutíð en Fiesta var fljót að breytast svo mjög með árunum að að hugsanlega er ekki einn einasti hlutur í bílnum nú hinn sami sem var í fyrsta bílnum, sem var miklu minni og hálfu tonni léttari.

Þetta rugl stafar af því að af og til skjóta upp kollinum fréttir um sölutölur bílgerða og samanburður á þeim sem geta oft ruglað lesendur mjög í ríminu vegna þess að bílgerðirnar eru oft skilgreindar á mismunandi hátt.

Síðustu árin hefur svona ruglingur færst í aukana. Best er að nefna dæmi, sem útskýra málið.

Það er almennt viðurkennt að engin bílgerð í sögunni hafi verið framleidd í fleiri eintökum en Volkswagen Bjallan, eða alls rúmlega 21 milljón.

Í öðru sæti hefur verið Ford T í rúmlega 15 milljón eintökum og Renault 4 í þriðja sæti með rúmlega 8 milljón selda bíla.

En síðan hafa komið fréttir um að ýmsar gerðir bíla hafi jafnvel selst meira. Meðal þeirra eru Toyota Corolla sem hefur verið framleidd í bráðum 40 ár og sagt er að hafi selst í 40 milljón eintökum.

En Corolla er dæmi um bíl sem er alls ekki sambærilegur við þá þrjá bíla, sem voru nefndir hér að ofan.

Bjallan, Ford T og Fjarkinn voru allir sömu gerðar frá upphafi til enda hvað snerti helstu tæknileg atriði.

Bjallan var með sams konar loftkældar boxaravélar að aftan alla tíð, með snerilstangir að framan og aftan nema mjög lítill hluti, sem hafði gorma að framan (gerðir 1301 og 1302 sem var 3 sentimetrum lengri). Fjölmargar smáar endurbætur eins og stækkaðir gluggar og farangursgeymsla og hækkuð þjappa og aukin borvídd vélar breyttu engu um það að þetta var ótrírætt sami bíllinn frá 1948 þar til síðasti bíllinn rann af færibandinu í Mexíkó árið 2000 með sömu boxaravélina, snerilfjaðrirnar og hjólhafið.

Sporvídd var aukin í áranna rás án þess að breikka bílinn.  

Svipað var að segja um Ford T, -  vél, driflína og fjöðrun, hjólhaf og sporvídd ávallt sú sama, en fiktað við yfirbyggingu, glugga og hurðir og vélarhús. Hestöflin voru meira að segja alltaf hin sömu, 20, og hámarkshraðinn 72 km/klst. 

Renault 4 var minnst breytt af þessum þremur, framhjóladrif, girkassi og drif fremst í bílnum en vélin þar fyrir aftan og ávallt af sömu gerð og hafði verið frá árinu 1946, fyrst í Renault 4CV.

Og útlitslega hvað snerti glugga og yfirbyggingu var Fjarkinn algerlega óbreyttur frá upphafi og einnig bæði hjólhaf og sporvídd.

Fyrsta Corollan árið 1966 og 11. kynslóðin 2013 eiga ekkert sameiginlegt nema nafnið. Fyrsta Corollan og næstu kynslóðir þar á eftir voru með vél langsum frammi í og afturdrif, en síðari kynslóðir eru með Mini-uppsetningu, vél, gírkassi og drif frammi í og þversum, og bíllinn er orðinn miklu stærri á alla kanta og allt að 60% þyngri. 

Það er alveg háð duttlungum framleiðenda hve lengi þeir hanga á sama nafninu á söluvöru sinni, þótt búið sé að gerbreyta henni eða hvort þeir breyta jafnvel nafninu á bílgerð, sem er samt í grunninn sú sama og í upphafi. 

Tvö dæmi: 1972 var byrjað að framleiða Fiat 500 með breyttri yfirbyggingu ofan á óbreyttum botni, vél og driflínu. Nýja gerðin hlaut nafnið Fiat 126. Samanlagt voru framleiddir rúmlega átta milljón bílar með þessari grunngerð.

Annað dæmi er enn stærra: 1966 kom Fiat 124 fram á Ítalíu og á árunum á eftir var þróaður upp úr honum Fiat 125, sem var í grunninn alveg sami bíll en með 10 sentimetrum lengra hjólhaf og stærri vél. Upp úr þessum bílum voru síðan þróaðir bílar sömu gerðar í mörgum löndum, til dæmis Fiat 125 í Póllandi og Lada Nova í Rússlandi, sem var bara rússneskur Fiat 124.

Þegar framleiðslutölur þessara bíla allra eru lagðar saman fer þessi bílgerð fram úr Ford T.  

 

 

 


mbl.is Fiesta mest seldi bíll allra tíma í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Skemmtilegur pistill. Ég hef engu við að bæta nema vangaveltu um hvort það sé mögulega merki um hnignandi millistétt að Fiestan sé nú orðin mest seldi bíllinn, í stað Escortsins. Þó verður að hafa í huga að Escort nafnið var lagt á hilluna þegar Focus kom til sögunnar.

Steinn E. Sigurðarson, 28.7.2014 kl. 02:05

2 identicon

Sæll Ómar

Þú segir "Það er villandi þegar sagt er að Ford Fiesta sé mest seldi breski bíllinn með rúmar fjögur milljón eintök."

Þessa tilvitnun þína er hvergi að finna í fréttinni ámbl.is sem þú vitnar í.

Þar segir hinsvegar, bæði í fyrirsögn og í byrjun greinarinnar, að "Fiesta mest seldi bíll allra tíma í Bretlandi".

Ekkert villandi við það.

Egill Johannsson (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 09:04

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég á einfaldlega við það að Mini og Fiesta séu ekki sambærilegir. Sá fyrrnefndi var frá 1959 til 2000 svo lítið breytt, að það er einstakt. Hann var sami bíllinn 2000 og 1959.

Ford Fíesta er langt frá því að vera sami bíllinn nú og í upphafi. Sennilega ekki einn einasti sameiginlegur hlutur í honum núna og var í öndverðu.

Þess vegna tel ég fyrirsögnina ranga. Mini var alltaf sami bíllinn, Fieasta ekki.

Ómar Ragnarsson, 28.7.2014 kl. 21:27

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Steinn gleymir því í athugasemd sinni að í upphafi var Ford Escort miklu léttari bíll en Fiesta er nú. Sífelldar breytingar á bílum án þess að nafninu sé breytt, skekkja myndina.

Þannig er Volkswagen Póló 30 sentimetrum lengri, 10 sentimetrum breiðari og 300 kílóum þyngri en fyrsta gerðin af Golf var.

Ómar Ragnarsson, 28.7.2014 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband