2.8.2014 | 02:31
Því minna "gistirými", því betra?
Það getur verið vandasamt að fá góðan svefn í tjaldi, hjólhýsi eða bíl, þar sem ekki er um að ræða neinn hita frá gististaðnum sjálfum. Mestu skiptir að vera í ullarfatnaði næst sér, jafnvel tvöföldum, og vefja sig inn í sem flest lög af fatnaði og ábreiðum.
Einföld húfa sem er hægt er að binda vel eða festa eða jafnvel lambhúshetta er mjög stórt atriði, því að halda þarf kulda frá höfðinu öllu og þó sérstaklega hnakkagrófinni.
Þegar maður sofnar fast, eins og nauðsynlegt er ef halda á fullu þreki alla útileguna, hægir á líkamsstarfseminni og þá getur manni orðið það kalt, að maður vakni upp hríðskjálfandi um miðja nótt.
Fyrr á árum gat ég alls ekki sofið nema láréttur og engan veginn sofið í bílsæti. Síðan fékk ég bakflæði og samfall í neðstu hryggjarliðum og þá er stellingin í afturhallandi bílsæti sú besta fyrir mig að ráði læknanna, þannig að með árunum sef ég ekki vel nema þannig.
Í áranna rás hefur safnast reynsla af því að sofa í bílum, og næsta óvænt niðurstaða hennar er sú, að því minni sem bíllinn er, því betur sefur maður.
Ég hef sofið best í allra minnstu bílunum, sem eru í umferð hér á landi.
Ástæðan er sú, að þegar rýmið er orðið svona lítið, helst hiti manns sjálfs betur inni í svo litlu rými en í stóru. Maður er jafnvel farinn að hita þetta litla innanrými upp og níðþröngur bíll að nálgast ígildi svefnpoka !
Í björtu veðri er hitasveiflan milli dags og nætur mikil og það þarf að hafa í huga.
Að svo mæltu býð ég góða nótt.
Gæti orðið kalt að gista í tjaldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í litlu rými gisting góð,
gerist ekki betra,
orðin þar er ansi rjóð,
Áslaug nítján vetra.
Þorsteinn Briem, 2.8.2014 kl. 03:17
Góður, Steini! Verslunarmannahelgarandinn á fullu !
Ómar Ragnarsson, 2.8.2014 kl. 07:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.