Fjölnismenn og fleiri börðust við svonefndan "kannsellístíl" í málfari sem danska stjórnsýslan innleiddi svo rækilega á fyrri hluta 19. aldar, að við glímum enn við þennnan draug sem nú er orðinn íslenskur.
Eitt af einkennum þessa stíls er að flækja orðalag sem mest og lengja textanna sem mest með því að hlaða upp sem flestum löngum og flóknum nafnorðum og heitum en útrýma sagnorðum.
Það þykir fínt, er "in" og sýnir menntun og miklar gáfur í stað þess að orða hlutina á mannamáli.
"Það hefur orðið neikvæð fólksfjöldaþróun á Vestfjörðum" sagði þingmaður einn og notaði 16 atkvæði í stað þess að orða þetta í 10 atkvæðum: "Fólki hefur fækkað á Vestfjörðum".
Lítið dæmi um þetta mátti heyra undir lok frétta á Ríkisútvarpinu nú í hádeginu. "Bilvelta varð" sagði fréttamaðurinn.
Um leið og fréttunum lauk kom pistill frá Samgöngustofu sem hófst á því að sagt var strax í fyrstu setningunni "það varð bílvelta."
Svo mikið virtist liggja við á vegum menntamálaráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins, að sama örfréttin var sögð með stuttu millibil með því að nota fjögur atkvæði í stað tveggja og segja einfaldlega: "Bíll valt."
Baráttan í þessu máli gegn nafnorðasýkinni er augljóslega töpuð. Gegn yfirþyrmandi valdi tveggja ráðuneyta, arftaka danska kansellísins, auk kranablaðamennsku frjálsra fjölmiðla dugar engin vörn.
Næst fáum við að heyra: "Fíkniefnafundur varð", "hnífsstunga varð","nauðgun varð" og "rigning varð", sannið þið til.
Fimmtán fíkniefnamál í Eyjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Og svo er margt smátt og smærra, en ekkert lítið eða minna á Íslandi lengur.
Hrólfur Þ Hraundal, 2.8.2014 kl. 14:06
Bloggað var um málið, af Ómari
Brjánn Guðjónsson, 2.8.2014 kl. 15:48
"Miklu af fólki var bjargað".
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 2.8.2014 kl. 16:26
Ósjaldan gerast þeir, hinir slysalegu hvolfsnúningar vélknúinna ökutækja, og er ekki óoftlega um slík atvik fjallað í fjölmiðlum.
Ásgrímur Hartmannsson, 2.8.2014 kl. 17:40
Svo er það blessað magnið. Ekki virðist lengur vera hægt að tala um mikið eða lítið af neinu, nei, það skal vera mikið magn, lítið magn, meira magn og minna magn.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 2.8.2014 kl. 17:41
Enn þeir frægan gerðu garð,
gullkorn mörg þar seldu,
enn ein tunnuveltan varð,
valt í djúpa keldu.
Þorsteinn Briem, 2.8.2014 kl. 17:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.