Aukin vandræði um allt land.

Í sumar hef ég verið á faraldsfæti víða um hálendið og þar er sama sagan að gerast og annars staðar, að stóraukinn ferðamannastraumur veldur vaxandi vandræðum vegna þess að alveg er vanrækt að bregðast við þessum mikla fjölda.

Nokkur dæmi um þetta: Göngustígar, sem eru að vaðast upp í drullu, vöð á ám þar sem sjá má langa olíupolla á bökkunum eftir bíla, sem ráku vélarpönnurnar niður, skortur á salernisaðstöðu og lengri og fleiri raðir af bílum en ég minnist áður.

Ef veitt væri, þó ekki væri nema 0,1% af tekjum þjóðarbúsins af erlendum ferðamönnum til þess að taka til hendi og byrja að afmá þá þjóðarskömmu, sem blasir svo víða við, væru það 270 milljónir króna á ári.

Því miður tefst það um eina ferðamannavertíð að ég komi í sölu diski með þættinum "Akstur í óbyggðum" með enskum og þýskum texta auk hins íslenska.  Þáttur með þessu nafni var sýndir í Sjónvarpinu í júní, en drukknaði í HM og það verður að ná til bæði Íslendinga og útlendinga. Það setti strik í reikninginn að ekkert einasta af 8 bílaumboðum fyrir jepplinga og jeppa og ekki ein einasta bílaleiga af 130 vildi styrkja þetta málefni.   


mbl.is Unga konan vildi stytta sér leið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það stefnir í algjört óefni, -  glundroða og eyðileggingu. Enginn hefur, held ég, betri yfirsýn á þessi mál, en þú, Ómar. Áð meðan flotið er sofandi að feigðarósi sitja ráðherra og embættismenn og láta  sig dreyma náttúrupassarugl. Og ekkert gerist. Nákvæmlega ekkert.

Eiður (IP-tala skráð) 7.8.2014 kl. 15:37

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í fyrra, 2013, varð ferðaþjónustan stærsti útflutningsatvinnuvegurinn hér á Íslandi.

30.12.2013:

Níu þúsund starfa í ferðaþjónustunni hér á Íslandi allt árið og þeim fjölgar um nokkur þúsund á næstu árum


Árið 2012 voru útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra fyrirtækja samtals 238 milljarðar króna.

Þessi íslensku fyrirtæki greiða alls kyns skatta til íslenska ríkisins og þeir níu þúsund Íslendingar sem hjá þeim starfa greiða að sjálfsögðu einnig skatta til íslenska ríkisins, tekjuskatt og næst hæsta virðisaukaskatt í heimi af vörum og þjónustu sem þeir kaupa hér á Íslandi.

Svo og útsvar til íslenskra sveitarfélaga.

Erlendir ferðamenn greiða í raun alla þessa skatta með útgjöldum sínum til íslenskra fyrirtækja, 238 milljörðum króna árið 2012.

Og ekki þarf nema örlítið brot af öllum þessum sköttum til íslenska ríkisins til að stækka hér bílastæði við ferðamannastaði, bæta þar salernisaðstöðu, leggja fleiri göngustíga og viðhalda þeim gömlu.

Þorsteinn Briem, 7.8.2014 kl. 17:08

3 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Rétt Eiður. Frumforsenda þess að hægt sé að grípa til varna er að fé fáist í nauðsynlegar aðgerðir.

Það kemur ekki frá hinu opinbera. Það hygg ég sé fullreynt.

Síðan bítur ríkið höfuðið af skömminni með því að lögsækja hvern þann sem vill innheimta gjald inn á viðkvæma staði. Þó er það eini raunhæfi möguleikinn til að verjast eyðileggingunni og fjármagna aðgerðir. Eins og gert er um alla Evrópu að ekki sé talað um Norður Ameríku.

Svo drepur ríkið öllu á dreif með furðuhugmyndum um almennan aðgangsskatt að landinu sem kallaður er "Náttúrupassi" og alls engin trygging fyrir að andvirði hans skili sér á nokkurn hátt til uppbyggingar eða verndunar.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 7.8.2014 kl. 20:53

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Einkaaðilar geta ekki rukkað alls staðar fyrir aðgang að íslenskum náttúruperlum.

Þjóðlendur - Óbyggðanefnd

Þorsteinn Briem, 7.8.2014 kl. 21:04

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Hver er réttur og hverjar eru skyldur þeirra sem ferðast um Ísland?

Í lögum um náttúruvernd eru ákvæði sem fjalla um almannarétt, umgengni og útivist. Þar segir að öllum heimilt að fara um landið og njóta náttúru þess svo fremi að gengið sé vel um og þess gætt að spilla engu.

Heimilt er að fara um óræktuð eignarlönd án sérstaks leyfis.
Rétthöfum lands er heimilt að takmarka með merkingum ferðir manna um eignarlönd.

Lönd í eigu ríkisins
, svo sem náttúruverndar- og skógræktarsvæði, eru öllum opin með fáum undantekningum.

Hægt er að takmarka umferð tímabundið, svo sem yfir varptíma eða vegna gróðurverndar."

Almannaréttur - Umhverfisstofnun

Þorsteinn Briem, 7.8.2014 kl. 21:18

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Yfirleitt er ekki hægt að banna útlendingum að dvelja hér á Íslandi eða Íslendingum að veita þeim hér þjónustu samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, meðal annars um frjálsa för fólks og frjáls þjónustuviðskipti á svæðinu.

Og Kínverjar sem komnir eru inn á Evrópska efnahagssvæðið, til dæmis til Noregs, geta að sjálfsögðu flogið þaðan hingað til Íslands.

Hins vegar er hægt að meina glæpamönnum sem búa á Evrópska efnahagssvæðinu landgöngu hérlendis.

En íslenskum ríkisborgurum er ekki hægt að banna að koma hingað til Íslands.

Þorsteinn Briem, 7.8.2014 kl. 21:24

7 identicon

Það er ljóst að erlendir ferðamenn eru einn allra versti mengunarvaldur á Íslandi í dag. Miklu verri en stóriðjan og orkuverin. Það er vissulega kominn tími til að grípa í taumana og stöðva þennan ófögnuð.

Dreifbýlismaður (IP-tala skráð) 7.8.2014 kl. 23:04

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þeir sem ekki eru á ferðalögum utan síns heimabæjar ferðast þar flestir nær daglega til og frá skóla og vinnu. Og fólk er yfirleitt ekki á ferðalögum utan síns heimabæjar nema nokkrar vikur á ári.

Langflestir menga því mun meira í sinni heimabyggð en utan hennar
, hvort sem þeir búa hérlendis eða erlendis.

Í hverri rútu og flugvél eru yfirleitt fjölmargir farþegar en í hverjum einkabíl á höfuðborgarsvæðinu hér á Íslandi er eingöngu bílstjórinn í fjölmörgum tilfellum.

Ef erlendir ferðamenn kæmu ekki hingað til Íslands myndu þeir ferðast til annarra landa og menga álíka mikið í þeim ferðum.

Og innan við 1% af flugvélaflota Evrópu flýgur með farþega sem hér dvelja.

Þorsteinn Briem, 7.8.2014 kl. 23:34

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vísindavefurinn:

"Regnskógareyðing er í öðru sæti, á eftir notkun jarðefnaeldsneytis, yfir það sem veldur mestri koltvíildismengun á jörðinni.

Skógareyðing á einum degi
losar meira koltvíildi út í andrúmsloftið en tugþúsundir flugvéla sem fljúga a milli Bandaríkjanna og Evrópu."

Þorsteinn Briem, 7.8.2014 kl. 23:35

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland er eitt strjálbýlasta land í heimi og er þar í 234. sæti.

Röð landa eftir þéttleika byggðar


Hver erlendur ferðamaður dvelst hér á Íslandi í eina viku að meðaltali, þannig að hér voru árið 2012 að meðaltali um 12.500 erlendir ferðamenn á degi hverjum allt árið á öllu landinu.

Um níu af hverjum tíu Íslendingum ferðuðust hér innanlands á ári hverju 2009-2012 og gistu þá að meðaltali tvær vikur á þessum ferðalögum.

Að meðaltali voru því um ellefu þúsund Íslendingar á ferðalögum hér innanlands á degi hverjum á árunum 2009-2012.

Þorsteinn Briem, 7.8.2014 kl. 23:41

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um 3,4 milljónir manna heimsóttu Yellowstone-þjóðgarðinn í Bandaríkjunum árið 2012 en garðurinn var stofnaður árið 1872 og ég veit ekki betur en að hann sé í góðu lagi.

Yellowstone National Park


"Hann var það
, Steini, þegar ég kom þangað 2008."

Ómar Ragnarsson
, 20.3.2013
kl. 21:12

Þorsteinn Briem, 7.8.2014 kl. 23:43

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

30.7.2014:

"Í fyrsta skipti í sögu landsins skilar þjónustuútflutningur þjóðarbúinu meiri tekjum en vöruútflutningur og þar munar mestu um ferðaþjónustu.

Um 2,4 milljarða halli var á vöruskiptum við útlönd á fyrri helmingi þessa árs, 2014."

"Neikvæðan vöruskiptajöfnuð á fyrri hluta ársins má aðallega skýra með tvennu:

Lægra verðmæti sjávarafurða og lægra álverði en á sama tíma í fyrra.

Tiltölulega lágt verð er á okkar helstu útflutningsafurðum og þar vegur lækkandi álverð hvað þyngst," segir Ásgeir Jónsson dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.

"Við höfum ekki náð að auka vöruútflutning eftir hrun, þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi verið í sögulegu lágmarki.

En þjónustuútflutningur hefur aukist, einkum vegna ferðaþjónustu, og þaðan eru útflutningstekjurnar að koma.""

Þjónusta skilar nú meiru en vöruútflutningur

Þorsteinn Briem, 7.8.2014 kl. 23:44

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Hagkerfi margra vestrænna landa byggist nú á þjónustu og samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum veittu Bandaríkin mesta þjónustu árið 2005.

Næstmesta veittu Japan og Þýskaland en þjónusta myndaði þá 78,5% hagkerfis Bandaríkjanna."

En það skilja Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn engan veginn.

Þjónusta
- Vörur

Þorsteinn Briem, 7.8.2014 kl. 23:48

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað mikið, aðallega vegna aukinnar þjónustu og háskólastarfsemi á því svæði og það á einnig við um Akureyri.

Íbúum í þeim sveitarfélögum sem nú mynda Fjarðabyggð, framleiðslusveitarfélagi, fækkaði hins vegar um 11,2%, eða 582, á árunum 1998-2013, þrátt fyrir álverið í Reyðarfirði.

Og í framleiðslubyggðarlaginu Vestmannaeyjum fækkaði íbúum á þessu tímabili um 8,8%, eða 407, og þeim sem búa á því svæði sem nú er í Dalvíkurbyggð fækkaði um 10,5%, eða 218, í byggðarlögum sem nú mynda Ísafjarðarbæ fækkaði íbúum um 15,3%, eða 675, og þeim sem búa á svæðinu sem nú er í sveitarfélaginu Norðurþingi, til að mynda Húsavík, fækkaði um 14,6%, eða 489.

Íbúum á svæðinu frá Kjalarnesi til Hafnarfjarðar fjölgaði hins vegar á þessu tímabili um 25%, eða 41.073, og í byggðarlögunum sem nú eru í sveitarfélaginu Akureyri fjölgaði íbúum um 16,5%, eða 2.544, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.

Þeim sem búa í byggðarlögunum sem nú eru í sveitarfélaginu Akureyri fjölgaði því meira á tímabilinu 1998-2013 en íbúum í þeim byggðarlögum sem nefnd eru hér að ofan fækkaði, samtals 2.371.

Þorsteinn Briem, 8.8.2014 kl. 00:33

15 identicon

"Það er sumar, sumar, sumar og sól" . . . :)

J. Smith (IP-tala skráð) 8.8.2014 kl. 12:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband