19.8.2014 | 17:18
Yfireldstöð Íslands.
Ef eitthvert íslenskt eldfjall ætti að fá "starfsheitið" yfireldstöð Íslands er það Bárðarbunga. Það er ekki vegna þess hve eldfjallið er umfangsmikið og um leið annað hæsta eldfjall landsins, heldur fyrst og fremst fyrir það hvernig hún virðist stjórna fjölda eldstöðva í kringum sig á um 200 kílómetra löngu svæði og láta þær framkvæma hið ógnvekjandi vald sitt.
Hún minnir á býflugnadrottningu í búi sínu eða bara einhverja af frægum drottningum í mannkynssögunni eins og Kleópötru, Elísabetu 1 eða Katrínu miklu, - allt snýst í kringum hana og allir fara eftir því sem hún skipar fyrir.
Hún er eldstöðvahershöfðinginn sem skipar kvikubrynsveitum sínum fyrir og sendir þær í mkla leiðangra.
1996 sendi hún eimyrjukvikuinnskot í suður í átt til Grímsvatna og úr varð Gjálpargosið með sínu mikla hamfaraflóði sem fór í gegnum Grímsvötn.
Nú sendir eldstöðvadrottningin eldspúandi herdeildir sínar neðanjarðar í tvær áttir, í átt til Dyngjuháls og í átt til Kverkfjalla í stað þess að spúa eimyrjunni sjálf þar sem hún kemur upp.
Og allir bíða með öndina í hálsinum. Því að Bárðarbunga ætlar að gera 21. öldina að sinni öld með því að nýta sér þá léttingu og eins konar tómarúm sem hnignun Vatnajökuls skapar.
Það er búið að vera stórkostlegt undanfarna daga og vikur að sveima í kringum drottninguna, sem vekur svona óttablandna virðingu með því að deila og drottna meðal eldstöðvanna í kringum sig án þess að hafa sig sjálf í frammi nema með því að láta alla skjálfa á beinunum.
Sjáðu Bárðarbungu í beinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þakka þér Ómar fyrir einfaldar skiljanlegar skýringar.
Þorsteinn Jón óskarsson (IP-tala skráð) 20.8.2014 kl. 10:27
Lýriskt Ómar! en reyndar ekki á öðru von frá þér :)
Kristján Hilmarsson, 21.8.2014 kl. 22:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.