10.9.2014 | 23:17
Mini Cooper er 53ja ára, ekki 55.
Mini Cooper og Mini Cooper S komu fyrst fram árið 1961. Þess vegna getur þessi gerð Mini ekki átt 55 ára afmæli núna eins og sagt er ítrekað í tengdri frétt á mbl.is.
Mini Cooper var ávöxtur af samvinnu Alec Issigonis, hönnuðar Mini, þess Mini, sem á 55 ára afmæli í ár, og John Cooper, sem var kappaksturbílasérfræðingur og sá möguleikana sem hinn upprunalegi Mini bjó yfir til þess að geta valdið byltingu í smábílaheiminum hvað snerti snerpu og hraða.
Upprunalega var Mini með 998 cc vél, en sú vél gaf bílnum meira en 130 kílómetra hámarkshraða, sem var 30-40 % meiri hraði en hjá smábílum af svipaðri stærð á þeim tíma.
Mönnum óaðii við þessu og létu því minnka vélina niður í 848cc og hámarkshraðann niður í 116 km/klst.
Eini örbíllinn, sem náði slíkum hraða þá var NSU Prinz 30, sem hafði 120 km hámarkshraða og var vinsæll meðal kappakstursmanna.
John Cooper kappakstursbílafrömuður, tókst að telja Issigonis á að framleiða Mini Cooper og Mini Cooper S, sem hófu sigurgöngu sína árið 1961.
Mini Cooper S var með þá með tvöfalt meira vélarafl en venjulegur Mini, 1275 cc 77 hestaflla vél, sem spyrnti bílnum upp í 100 kílómetra hraða á innan við 9 sekúndum og gat skilað Mini upp í meira en 150 kílómetra hraða.
Framundan næstu ár var einstæð sigurganga þessa bíls í ralli og ökukepppnum af ýmsu tagi.
Finnskir rallökumenn eins og Timo Makinen þróuðu aksturstækni á 130 hestafla Mini Cooper, sem byggðist á því að aka bílnum á hámarksafli í gegnum beygjur en standa samt það mikið á hemlunum með vinstri fæti, að bíllinn dró afturhjólin en vélaraflið yfirvann hemlunina á framhjólunum.
Með þessari aðferð var hægt að láta bílinn "flatreka" út á hlið í gegnum beygjur að vild með samspili hemla og vélarafls þannig að framhjólin drógu bílinn á nær fullu afli í gegnum beygjurnar en afturhjólin skrikuðu nægilega til að bíllinn héldist í "flatreks"-stöðu.
Aðferðina var hægt að nota á öðrum kraftmiklum framdrifsbílum, en mér fannst best að kasta Renault 5 Alpine rallbílnum til með stýrissveiflum til að láta hann flatreka.
55 ára afmæli Mini Cooper fagnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.