12.9.2014 | 22:22
Það má lítið bregða út af.
Sums staðar á Íslandi er ekkert grín ef drepst á hreyfli eins hreyfils vélar, til dæmis yfir úfnum hraunum.
En það er þó hatíð miðað við ísbeltið sem er oftast milli Íslands og Grænlands, einkum norðarlega á Grænlandhafi og á Grænlandssundi.
Ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en ég flaug mitt eina flug til Grænlands á FRÚnni í nóvember 2000 frá Ísafirði norðvestur að Blosseville ströndinni á Grænlandi og til baka aftur.
Kröfur Dana um búnað voru mjög strangar. Af því að ég var á eins hreyfils vél var skylt að hafa fylgdarflugvél, björgunarbát um borð, HF sendistöð, og björgunarvesti.
Frá Aðalvík á Hornströndum til strandar í Grænlandi eru aðeins 285 kílómetrar eða styttra en frá Aðalvík til Hvolsvallar og flugdrægið átti því að vera nóg.
Fylgdarflugvélin var eins hreyfils flugvél af sömu gerð og FRÚin. Þetta mátti ekki seinna vera, því að við Blosservilleströndina er komið talsvert norður fyrir heimsskautsbaug og dagurinn því orðinn ansi stuttur í nóvember.
Þegar komið var yfir ísbeltið á miðju Grænlandssundi kom í ljós að allur öryggisbúnaðurinn um borð í vélinni væri gagnslaus ef það dræpist á hreyflinum, því að ómögulegt yrði að nauðlenda öðru vísi en að brotlenda illa og drukkna.
Ísinn samanstóð af ísjökum sem voru of litlir til þess að hægt væri á lenda á þeim nema að bruna út af þeim og steypast í íshraflið, sem var á milli þeirra og fá klakastykkin í gegnu framrúðuna.
Engu skárra var að nauðlenda í íshraflinu. Þá komu klakastykkin á fullri ferð í gegnu framrúðuna þegar í stað.
Ef drapst á hreyflinum var maður dauðadæmdur.
Eina gagnið af fylgdarflugvélinni gat orðið það að tilkynna um það sem gerst hefði, ef illa færi.
Ég hef sjaldan verið fegnari að lenda eftir flug en eftir þessa ferð.
Þrátt fyrir þetta fjandsamlega umhverfi við Grænlandsstrendur verða furðu fá slys í ferðum fjölda flugvéla yfir Grænlandshaf.
Því er ekki ástæða til að leggja flug á þessari leið af þótt auðvitað sé ekki 100% útilokað að einhvern tíma fari eitthvað úrskeiðis.
Flugvél hvarf á leið frá Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er hægt að ruglast á fjörðum þarna þegar stefnt er á Kulusuk. Lenti ekki Steini Jóns einmitt í þessu, - fór inn vitlausan fjörð á DC-4, og forðaði sér frá árekstri við jökulinn með því að taka wing-over á fjarkanum...
Það vantar upplýsingar með fréttinni. Er neyðarsendirinn að senda?
Jón Logi (IP-tala skráð) 13.9.2014 kl. 08:23
Ef marka má veðurfréttir þá virðist flugvélin hafa farið í gegnum öflug skil á leið sinni til Grænlands. Í fréttum var talað um mikið rok og þoku í Kulusuk. Ísing og eða flogið á fjall eru líklegar skýringar.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 13.9.2014 kl. 09:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.