13.9.2014 | 01:35
Farsi og fáránleiki á köflum.
Gálgahraunsmálið, sem nú er fyrir dómstóli, hefur verið farsakennt og fáránlegt á köflum. Jafnræði og meðalhóf eru fyrir borð borin.
Níumenningarnir eru ákærðir fyrir að hafa brotið ítrekað gegn fyrirmælum lögreglu. En ég og margir fleiri brutum líka ítrekað gegn fyrirmælum, því að fjórum vikum fyrr kom lögregla að okkur, við vorum girt inni og skipað að fara út fyrir merkinguna. Við óhlýddumst því og síðan aftur því sama 23. október, en erum samt ekki ákærð, heldur aðeins þeir níu sem voru tvívegis fluttir í fangelsi.
Hjón komu tvívegis í hraunið 23. október og settust þar niður. Hún er nett kona og var borin burt, sett inn í bíl og færð öðru sinni í fangelsi.
Hann er þungur og lögreglumenn gáfust upp við það eða nenntu ekki að bera hann inn í lögreglubílinn.
Hún er ákærð en ekki hann, en þó var "brot" þeirra hið sama. Fólk er sem sagt ákært eftir þyngd.
Fyrirskipað var að handtaka Eið Guðnason þegar hann kom á vettvang í hrauninu og þegar hann spurði hvers vegna var svarað að hann væri inni á bannsvæði. Eiður sagðist ekki sjá neinar merkingar og var þá sagt að það væri verið að koma þeim upp og að hann stæði fyrir innan þær merkingar sem ættu eftir að koma !
Þegar þær voru komnar upp stóð Eiður fyrir utan og reyndi þá einn lögreglumaður að stjaka honum inn fyrir svo að hægt væri að handtaka hann!
Minnir það á brandarann gamla um lögguna, sem fann lík í Fishersundi en dró það upp í Garðastræti af því að hann vissi ekki hvernig ætti að skrifa orðið Fishersund. Eða er það Fischersund?
Ég hef fylgst með vegagerð á Íslandi í 60 ár og hef aldrei áður séð þau vinnubrögð, sem viðhöfð voru þarna, að stærsta skriðbeltatæki landsins ryddist yfir endilangt hraunið á fyrsta degi og tryggði þar með hámarks óafturkræf náttúruspjöll á sem stystum tíma.
Það var líka fáránleg sýn að sjá þennan hrikalega stóra skriðdreka koma í fylgd 60 lögreglumanna, sem vopnaðir voru gasbrúsum, handjárnum og kylfum, í sókn gegn nokkrum sitjandi konum og gamalmennum til þess að ryðja þeim úr úr vegi.
En var svosem í stíl við það þegar það þurfti sérstaka heræfingu NATO, öflugasta hernaðarbandalags heims, sumarið 1999 til að æfa beitingu F-15 orrustu- og sprengjuþotna, stórtækustu drápstækja veraldar, gegn náttúruverndarfólki á hálendi Íslands, en hugsanleg mótmæli þess gegn náttúruspjöllum voru þá talin hættulegastta ógnin við öryggi landsins, - ekki Osama bin Laden og hans menn, erlendar vígasveitir eða kjarnorkuógnin í vopnabúri Rússa.
Hraunavinir bíða eftir dómi Hæstaréttar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er skrípaleikur. Þakka þér annars fyrir Ómar, að standa vörð um íslenska náttúru og vera tilbúinn að taka afleiðingunum.
Stefán Þórsson (IP-tala skráð) 13.9.2014 kl. 02:03
Þessar aðgerðir í Gálgahrauni voru sennilega einhverjar sorglegustu aðfarir lögreglunnar sem sést hafa í seinni tíð.
PS: Er það ekki skrifað Fischersund? :-)
Erlingur Alfreð Jónsson, 13.9.2014 kl. 02:09
Ef ekkert er merkt, má bera við grandaleysi.
Og svo var framkvæmdin sjálf einnig í vafa, þar sem dómsmál var í gangi um framkvæmdina.
Það ætti að ógilda þetta kjaftæði alltsaman.
Stjórnsýslukæra?
Jón Logi (IP-tala skráð) 13.9.2014 kl. 08:27
Í Gálgahrauni mótmæltu menn spillingu náttúruminja. Tugir lögreglumanna mæta umsvifalaust á svæðið og handtaka fólkið, ekki bara einu sinni heldur tvisvar.Nú hefur sama fólk verið ákært.
Mikið vildi ég að viðbrögðin hefðu verið þau sömu þegar ofbeldismaðurinn braut nálgunarbann 400 sinnum og lamdi viðkomandi 4 sinnum. Eða í öðrum ofbeldismálum því vissulega er þörf á því. Nei þeim málum var ekki sinnt fyrr en Kastljós fjallaði um það. Það er meira en lítið undarleg forgansröðun
Tryggvi Marteinsson (IP-tala skráð) 13.9.2014 kl. 10:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.