12.3.2007 | 13:18
SLEGGJAN MEÐ "HÓFLEGA STÓRIÐJU."
Ekki var Guðjón A. Kristjánsson fyrr búinn að draga í land yfirlýsingu sína frá landsþingi flokks síns um hóflega stóriðju með álverum en Kristinn H. Gunnarsson segir í Morgublaðsgrein að hófleg stóriðja sé skynsamleg á sama tíma og við blasir hin "hóflega stóriðja" sem þrýsta á fram í langstærsta álveri Evrópu í Straumsvík.
Þótt nú sé talað um 240 þúsund tonna álver við Húsavík verður hægur vandinn fyrir Alcoa að fá því framgengt sem talsmenn allra álfyrirtækjanna hafa sagt að sé nauðsynlegt, sem sé að álver verði að verða a.m.k. 5-600 tonn í framtíðinni til að vera samkeppnisfær.
Af 3ja - 4ra milljarða gróða Alcans á hverju ári munar það fyrirtæki ekkert um að sletta smá broti af því, nokkur hundruð milljónum í áróður fyrir stækkun álversins. Alcoa mun líka þegar þar að kemur leika sér að Húsvíkingum sem eru tíu sinnum færri en Hafnfirðingar.
Síðan má sjá fyrir sér samsvarandi stækkun álversins á Reyðarfirði og þá mun "hóflega stóriðjan" á Norður- og Austurlandi þurfa alla virkjanlega vatns- og jarðvarmaorku norðausturlands, með núverandi tækni, - þ. m. t. árnar í Skagafirði, Sjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum.
Enn einu sinni skal minnt á það að forsætisráðherra útilokaði ekki aðspurður í Kryddsíld virkjun Jökulsár á Fjöllum. Því miður teygir stóriðjustefnan sig úr stjórnarflokkunum yfir í einstaka þingmenn Frjálslynda flokksins og Samfylkingarinnar og veikir stórlega vonir um meirihluta "grænna" þingmanna í komandi kosningum nema hægt verði að fjölga grænu þingmönnunum á einhvern hátt.
Athugasemdir
Geiri mælti til Imbu:
Ég skal greiða þér
lokka við Galtará,
gefa þér anímónur,
allt sólskinið í Súdan,
tunglskinið á Ægissíðu
og hjarta mitt á silfurfati,
ef þú fellur fram og tilbiður mig.
Steini Briem (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 14:25
Það er ótrúlegt að sjá aðkastið sem Ómar verður fyrir á eigin heimasíðu. Þetta sýnir vel hvernig hvaða menn skipa hóp virkjanasinna.
Stækkað álver á Straumsvík mengar meira en allur bílafloti Íslendinga. Því er engan veginn hægt að líkja mengun eins bíls við mengun álvers. Það eru fjölmargar forsendur fyrir því að vera á móti álverum. Ein þeirra er sú að náttúru Íslands er fórnað. Það hefur ekkert með loftmengun að gera. Önnur ástæða er af efnahagslegum toga. Það má leiða að því sterk rök fyrir að bygging álvera mun leiða af sér lakari efnahag og minni hagsæld til langs tíma, fyrst og fremst sökum ruðningsáhrifa. Það hefur ekkert með loftmengun að gera heldur.
Árni (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 15:56
Ómar minn.Þú gleymdir Gullfoss!!
Snorri Hansson, 12.3.2007 kl. 15:59
Nú eru menn gjörsamlega búnir að tapa glórunni og ekki í fyrsta skifti.
Hvað skeði ekki þegar Titanfélagið hafði áform um að reisa virkjun við
Búrfell og áburðarverksmiðju og einnig leggja rafmagns járnbraut frá
Reykjavík austur eftir suðurlandi.Þá risu upp allir dreyfbýlis rómantíkusar
landsins og réðust að áformunum á líkan hátt og nú, meira að segja með
þeirri lýgi að virkja ætti sjálfan Gullfoss, sem frægt er orðið vegna orða
Brattholts maddömunar. Í dag er búið að virkja Gullfoss í túrisma með
malbikuð bílastæði og sjoppu.
Hefðu afturhalds seggir þessa lands fengið vilja sínum framgengt vær
ekki einusinni sími hjer á landi.
Leifur Þorsteinsson, 12.3.2007 kl. 16:30
Nú er manni nóg boðið, hættu að gera litið úr fólki Ómar Ragnarsson. Ég hvet þig til að koma til Húsavíkur og tala við fólk hér. Gættu orða þinn, þú talar sem alvitur maður en birtist manni sem hrokafullur nú orðið.
Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 18:37
"Alcoa mun líka þegar þar að kemur leika sér að Húsvíkingum sem eru tíu sinnum færri en Hafnfirðingar." Kæri Ómar, hér er ekki stórmannlega mælt. Minnir helst á málflutning róttæklinga fyrri tíma sem sjá nú fram á endurnýjun lífdaga sinna í framgangi róttækrar umhverfisverndar. Þjóðlega sinnuð umhverfisvernd, sem mér sýnist þú standa fyrir, finnst mér skorta tengingu við umhverfisvernd í stærra samhengi en að öðru leyti ertu ekki svo langt genginn, vona ég, að þú takir upp siði róttæklinganna þar sem tilgangurinn helgar öll meðöl.
Ólafur Als, 12.3.2007 kl. 18:53
Þetta er pistillinn sem þú vildir gleyma, Ómar Ragnarsson. Þú getur auðvitað kippt honum út.
Þú veist það alveg Ómar, innst inni að Húsvíkingar eru ekki ólíklegri en aðrir landsmenn til að taka skynsamlegar ákvarðanir, fyrir sig. Jafnvel fyrir þig líka. Skoðanakannanir segja ekkert um vilja þjóðarinnar, geta stundum verið vísbending um eitthvað "trend". En það er kjördagur sem gildir.
Þið leitið dauðaleit að stefnuskrá. Er það ekki eins og að byrja á öfugum enda?
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.3.2007 kl. 19:38
Það er með ólíkindum hvað menn geta velt sér upp úr því að ég noti bíl eins og flest annað fólk. Í 48 ár hef ég eins og kostur hefur verið (var reyndar með 9 manna fjölskyldu á tímabili) ekið um á minnsta, ódýrasta og sparneytnasta bíl sem völ hefur verið á.
En menn halda sífellt áfram að tönnlast á hinni miklu mengun sem þessi bílkríli valdi.
Ómar Ragnarsson, 12.3.2007 kl. 23:21
Allir "hinir svokölluðu" eru fífl. Fyrri forstjóri álversins í Straumsvík varaði við íbúðabyggð í nágrenninu vegna mengunar sem yrði við stækkun. Þessi maður vissi ekkert hvað hann sagði og hefur líklega verið smitaður af einhverjum hinna "svokölluðu". Viktor bæjarstjóri þáverandi vissi betur, því eftir góða legu yfir málinu sá hann að forstjórabjálfinn var að bulla einhverjum hræðsluáróðri sem hindraði hagvöxtinn.
Hér á landi er það hagvöxturinn sem blífur. Innflytjendur eru nægjusamir og þeir hafa með því að lifa sparlega, kúka í blikkfötur og leggja sig í gámum blánóttina séð sér fært að lifa á lágum launum. Við eigum að flytia inn fólk í gámum því það sparar gífurlegan ferðakostnað. Reyndar eru til örfáir rasistar á Íslandi sem amast við svona löguðu en þeir verða bara kaffærðir í næstu kosningum. Magga Sverris sér um það.
Við megum ekki misskilja stóriðjustefnuna. Hún byggist einvörðungu á ást ríkisstjórnar okkar á Hafnfirðingum, Húsvíkingum og Austfirðingum sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum misst réttinn til lífsbjargar á eigin forsendum. Eins og reiknimeistarar stjórnarflokkanna lýstu yfir:"Það hefur vandlega verið farið yfir þessi mál og niðurstaðan er sú að við getum ekki kennt kvótakerfinu og stjórn fiskveiða um þetta ástand".
Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 23:49
Ég trúi því að sá dagur komi að við getum talað fallega til hvers annars.. að við berum virðingu fyrir hvert öðru. Að sá dagur komi að þeir sem vilja vernda landið og heimin fyrir meiri mengun verði ekki úthrópaðir sem öfgamenn. Að þeir sem vilji stóriðju verði ekki úthrópaðir sem glæpamenn. Að við hættum að kasta krónunni fyrir aurinn og horfum aðeins lengra en nef okkar nær. Að við setjumst sem flest niður í hugmyndavinnu og finnum leiðir og fjármagn til þess að endureisa bæjarsamfélögin út á landi svo þörfin fyrir stóriðjuna hverfi.. Hvað viljum við gera í staðin? Og gerum það þá... Allir vilja búa í hreinu landi.. Byrjum núna að láta gott af okkur leiða og trúum því að við getum það. Ef einhverjir geta það.. þá erum það við, Íslendingar.. aðfluttir sem innfæddir.. :-)
Björg F (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 01:43
Sínum augum lítur hver á Silfrið en þar hafði Hafliði Jónsteinsson Húsvíkingur og ljósvakans Ljósvíkingur manna hæst, sérstaklega við sessunaut sinn, Ögmund hinn græna. Í hvaða flokki er Hafliði og hverjir geta þá unnið best saman? Er þessi Sjóliði atvinnulaus og er yfirhöfuð eitthvert atvinnuleysi á Húsavík? Eða ætla Húsvíkingar að fjölga sér svona mikið á næstunni og stendur Hafliði fyrir því í eigin persónu? Er flutningskostnaðurinn orðinn svona mikill vegna minni sjóflutninga að Húsvíkingar hafa ekki lengur efni á að kaupa pilluna og reisa þarf álver sem allra fyrst yfir allan krakkaskarann sem er í burðarliðunum? Hefur Hafliði talið ólétturnar í Housewich City? Og hvers vegna er vefur Verkalýðsfélags Húsavíkur á ensku og pólsku? Eru einhverjir Íslendingar eftir á Húsavík, fyrir utan Hafliða og Pétur ljósmyndara, sem er búinn að vera aðkomumaður á Húsavík í 40 ár?
Steini Briem (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 03:06
Mér finnst að íslendingar geti lært afar mikið af öðrum þjóðum hvað varðar virðingu fyrir landinu sínu. Það er náttúrulega hægt að segja að maður viti ekki hvað maður hefur fyrr en maður hefur misst það. En svoleiðis má ekki ske, ég hef búið í Nýja Sjálandi núna í 7 mánuði og hef áttað mig á hverslag umhverfisslóðar og gráðug þjóð við erum. Hugsa aðeins um framtíðinna og hvernig hlutirnir sem við gerum í dag koma til með að hafa áhrif á börn okkar og barnabörn.
Kári Gautason, 13.3.2007 kl. 08:19
Mengun frá flugvélum hefur verið töluvert í sviðsljósinu undanfarið. Margar greinar um málið má lesa á netinu, t.d. hér.
Oft má sjá fólk vera að leika sér að fljúga smáflugvélum yfir Íslandi, og þar með dreifa þessu stórhættulega og baneitraða gasi sem kallast koltvísýringur um alla borg og byggð.
Er ekki á stefnuskrá ykkar að banna með öllu þennan kjánaskap, þ.e. óþarfa flug á smávélum yfir okkar hreina og lítt spjallaða landi?
Náttúruvinur (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 10:57
Það er engin að segja að Húsvíkingar og Hafnfirðingar séu ekki skynsemdarfólk. Aftur á móti hafa stóriðjusinnar reynt ötullega að sá þeim hræðsluáróðri að ef ekki er settur á laggirnar þungaiðnaður í hverju krummaskuði sé voðinn vís og atvinnuleysisvofan yfirvofandi. Það er ekki skrítið að fólk beri ugg í brjósti við þennan hræðsluáróður og sé tvístígandi í afstöðu sinni.
Lárus Vilhjálmsson, 13.3.2007 kl. 11:09
Og svo fela stóriðjusinnarnir sig líka í bak við ónafngreinda spaugarann hér fyrir ofan sem er orðin svo uppiskroppa með rök að hann fer út í útursnúninga og hótfyndni.
Lárus Vilhjálmsson, 13.3.2007 kl. 11:17
Furðuleg umhverfisumræða. Ef ekki á að virkja gufuna sem streymir upp úr borholum þingeyinga engum til gagns. Hvar á þá að virkja? Það er engu landi sökkt. Virjunarstöðvarnar eru staðsettar ofan á borholunum. Vegalengdin að hugsanlegu álveri er frá 27-50 kílómetrum. Umhverfismengun er sú minnsta í heiminum. Endurnýjanleg mengunarlaus orkulind. Línulagning sú styðsta sem um getur og verður í skjóli fjalla.
Ég held að ef umhverfissinnar vilja leggja á árarnar með umhverfinu og því að menga minna í hnattrænum skilningi. Og ef þeir meina eitthvað með þessum málflutningi sínum þá ættu þeir manna fyrstir að styðja þessa virkjunarstefnu.
klakinn (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 11:23
Sælir
Ég vil byrja á að biðja lesendur um að flokka mig ekki sem "stóriðjusinna" eða "umhverfisöfgamann". Ég reyni yfirleitt að tileinka mér upplýsta afstöðu til mála.
ÞAr sem ég læt ekki þvinga mig í skilgreindan flokk manna með mjög svo einfaldaðar skoðanir þá vilja spyrja ykkur hér einfaldrar spurningar. Ég sé góð rök fyrir andstöðu gegn allsherjar Stóriðjustefnu bæði hagfræðilegar og umhverfislegar. Þetta er þó háð því að allar þessar hugmyndir séu teknar í einn allsherjarpakka. Ég er bara ekki hrifinn afa slíku. Til dæmis sé ég lítið sammerkt með stækkuðu álveri í Straumsvík og álveri á Húsavík.
Hvaða gildu rök eru t.d. gegn álveri á Húsavík? Þarna er ekki verið að sökkva landi, þarna er ekki verið að kaffæra útvistarsvæði borgarinnar með virkjunum og háspennulínum. Þarna er ekki verið að troða inn verksmiðju þar sem fyrir eru næg tækifæri. Þarna er ekki verið að nota orku sem gæti farið í annað. Þarna er ekki verið að stöðva nýsköpun og sprotafyritæki.
Þetta er ekkert líkt Kárhnjúkum og þensluáhrifin eru hlægileg í samanburði við Kárahnjúka. Í fyrsta lagi hefur íslenska hagkerfið stækkað um helming síðan farið var af stað með Kárahnjúka. Það þýðir auðvitað að þenslu- og ruðningsáhrif eru hlutfallslega miklu mun minni. Í öðru lagi er Reyðarál næstum helmingi stærri verksmiðja en Bakki og því umhverfis og hagfræðileg áhrif mun minni fyrir álverið á Bakka. Ekki koma svo með fáranleg rök sem segja að það sé pottþétt að álverið stækki svo um helming, það er líklega ekki einu sinni næg orka á svæðinu fyrir slíkt. og óhagkvæmni álversins í Straumsvík er ekki síst vegna aldurs þess frekar en stærð.
Ef við leyfum okkur að brjóta svokallaða Stóriðjustefnu niður í einstök verkefni þá sjáum við trén fyrir skóginum.
Hvaða gildu rök eru gegn álveri á Húsavík?????
Sigurður (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 11:38
Ég skil ekki alveg hvernig Alcoa á eftir að valta yfir Húsvíkinga þegar 90% þeirra eru samþykkir álverinu nú þegar....
Fyrir Húsvíkingum snýst málið um vöxt atvinnulífsins og vöxt byggðarinnar og ég held að það sitji nokkrum sætum ofar á forgangslistanum en "eitthvað annað"
En fyrir þann sem hélt því fram að á Húsavík byggju aðeins útlendingar af því að vefur verkalýðsfélagsins þá vil ég benda honum á að útlendingar sem starfa hér á landi hafa alveg sömu réttindi og Íslendingar á að vinna samkvæmt vinnulöggjöf.
Stefán Þórsson, 13.3.2007 kl. 11:58
[Innskot]...af því að vefur verkalýðsfélagsins er á erlendu tungumáli[/innskot]
Stefán Þórsson, 13.3.2007 kl. 11:59
Ertu ekki að grínast Guðlaugur?
.
Hvernig færðu það út að Íslandsflokkurinn verði væntanlega stærsti flokkurinn miðað við þessa könnun? Ég er t.d. mjög sáttur við framboð Ómars og co. en stefni ekki að því að kjósa það samt.
Enn er verið að ræða það hér í athugasemdum að setjast niður og finna þetta "eitthvað annað" og setja álverin til hliðar á meðan.
Gerir fólk sér ekkert grein fyrir því hvað það er búið að vera lengi að leita að þessu "einhverju öðru"? Álverin eru þetta "eitthvað annað"
Þú talar um það í blogginu þínu Ómar að það þurfi að fjölga grænum á þingi og ætla ég ekkert að setja út á það en hins vegar langar mig að benda þér á að VG hefur verið í bullandi uppsveiflu núna undan farið í skoðanakönnunum, fyrst og fremst út á umhverfisverndarstefnu sína. Ef þitt framboð kemur fram þá mun það ekkert gera nema í besta falli fækka grænum á þingi. Þegar ég segi "ekkert gera" þá meina ég í þessum málaflokki, svo kemur í ljós hver önnur stefnumál verða.
Með von um spennandi og góða kosningabaráttu
Ágúst Dalkvist, 13.3.2007 kl. 12:41
15% gæti ég trúað að væru mikið nær sanni
. Hef líka sagt ef að vel verður haldið á spöðunum við þetta nýja framboð "Íslandsflokkinn" þá gæti hann náð töluverðu fylgi en það mun taka lang mest af VG. Eitthvað mun það taka af öllum hinum flokkunum líka og vonandi verður það líka til þess að frjálslyndir nái ekki inn manni.
Ágúst Dalkvist, 13.3.2007 kl. 16:54
Ómar þú ert virkilega sjálfum þér samkvæmur...og það skiptir mestu máli! Þú ert að gera góða hluti af heilum huga!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 13.3.2007 kl. 20:47
Það er alveg sama hversu virkjunarkostir verða góðir og valda litlum umhverfisspjöllum. Nú skal vera á móti! Ef selja á rafmagnið til "erlendra auðhringa" þá er djöfullinn kominn í spilið. Þessi mót-kór finnur alltaf eitthvað nýtt. Þegar búið er að hrekja eitt barnalegt bullið þá gýs upp einhver annar stóri-sannleikur.
Hvað verður um græningjana í harðærinu og atvinnuleysinu? Þeir þurfa þá væntanlega að fá sér nýtt áhugamál.
Gunnar Th. Gunnarsson, 14.3.2007 kl. 10:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.